16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í D-deild Alþingistíðinda. (5265)

927. mál, leiga hjá jarðhúsum

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal reyna að svara þessum spurningum nokkuð, sem hér liggja fyrir.

Fyrsta spurningin er: Hefur ríkisstj. tekið á leigu jarðhúsin við Elliðaár? Þessu er svarað játandi. Nýlega hafa farið fram samningar milli ráðuneytisins og eiganda jarðhúsanna, og skal ég fara nokkrum orðum um ástæðurnar til þess, að það var gert. Eins og kunnugt er, hefur prívatmaður látið byggja fyrir nokkrum árum vandaðar geymslur inn við Elliðaár, sem aðallega voru ætlaðar fyrir kartöfiur og aðra jarðarávexti. Það mun hafa verið ætlun hans að hafa um þetta að nokkru leyti samvinnu við Grænmetisverzlun ríkisins, en það hafa ekki tekizt samningar milli þeirra aðila. Mér barst vitneskja um það, eftir að ég kom í atvmrn., að þessi hús stæðu til boða ríkinu eða grænmetisverzluninni, og fljótlega tók að bera á því, að það var mjög mikill áhugi meðal bænda og kartöfluframleiðenda um það, að ríkið beitti sér fyrir því, að þessi hús væru leigð og kæmu þannig beint inn í notkun fyrir framleiðendur landsins. Ég vil aðeins nefna nokkrar af þeim stofnunum, sem sendu um þetta beinar áskoranir til búnaðarþings 1947: Aðalfundur stéttarsambands bænda, framleiðsluráð, Sandgræðsla Íslands, Garðyrkjufélag Íslands, skólastjóri Garðyrkjuskóla ríkisins, ráðunautur ríkisstj. í garðyrkjumálum, ræktunarráðunautur Reykjavíkurbæjar og þar að auki fjöldi einstaklinga. Ég taldi því sjálfsagt að kynna mér þetta mál sem bezt og reyna að hrinda því í framkvæmd, eftir því sem mögulegt væri. Ég kynnti mér álit þeirra manna, sem höfðu reist húsin, og það var sameiginlegt álit þeirra, sérstaklega eftir að sett höfðu verið fullkomin kælitæki við húsin, þar sem hægt er að regúlera hitann í húsunum eftir vild, að þetta væru vönduðustu og beztu geymslur til þessara hluta, sem þeir hefðu kynnzt, og taldi ég því eðlilegt, að Grænmetisverzlun ríkisins, sem hefur haft þessa starfsemi með höndum, tæki húsin og starfrækti þau. Hins vegar gat ég ekki fengið samþykki forstjóra grænmetisverzlunarinnar fyrir því að taka húsin á leigu, því að hann taldi óþarft fyrir verzlunina að taka þetta mörg hús á leigu, sem þarna eru til nota, en taldi, að hann mundi geta gengið að því að taka 2–3 hús, en alls ekki meira. Það kom fram, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar leit fyrst og fremst á þetta sem forstjóri verzlunarinnar og lagði á það þann mælikvarða, hvað honum sem forstjóra eða verzluninni væri nauðsynlegt að hafa mikið húsrúm vegna sinnar sölu. En sjónarmiðin utan að, sem ég minntist á áðan, það voru fyrst og fremst sjónarmið framleiðendanna, bænda, sem eru að rækta kartöflur, en eru í vandræðum vegna geymsluleysis með að koma þeim fyrir á aðalmarkaðsstöðunum í tæka tíð, áður en frost og vetrarveður skella á. Nú þótti mér alls ekki rétt að þvinga þennan undirmann minn, forstjóra grænmetisverzlunarinnar, sem rækir sitt starf mjög vel, til þess að taka þetta á móti hans vilja, þannig að ég sneri mér til framleiðsluráðs landbúnaðarins og hóf samninga við það um að taka að sér jarðhúsin, ef ríkið tæki þau á leigu, og var því vel tekið þar, og setti ég það síðan inn í samninga við eiganda, þannig að ég hefði heimild til þess að framleigja húsin til framleiðsluráðs. Ég taldi. að á þennan hátt væri hægt að sameina sjónarmið og framleiðsluhætti kartöfluframleiðendanna, en hins vegar var eðlilegt að tryggja grænmetisverzluninni þann hluta af húsunum, sem hún taldi nauðsynlegt fyrir sig, og eins og málin stóðu þá, var ekki önnur leið en í gegnum atvmrn. að sameina þessa aðila í eitt. Nú hef ég skrifað framleiðsluráði landbúnaðarins um þetta og fengið það svar frá því, að þeir mundu taka að sér að reka jarðhúsin við Elliðaár, en það er tekið fram, að gagnvart eiganda beri ríkissjóður ábyrgð á leigunni. M.ö.o., framleiðsluráð tekur við leigusamningnum af ríkisstj., en lætur það fylgja í bréfi frá sér, að án þess að taka afstöðu til leigumála þess, er gerður var, telji ráðið þá ráðstöfun að taka hús þessi til sem fyllstra nota verulegt spor í rétta átt, til þess að gera framleiðendum fært að losna við jarðarávexti á þeim tíma, sem þeir óska, og tryggja geymslu þeirra svo sem unnt er. Þannig hefur starf rn. í þessu máli fyrst og fremst verið það, að leiða þá aðila, sem áhuga hafa fyrir húsunum og þörf fyrir að nota þau, saman, svo að þetta gæti komið að sem fyllstum notum.

Það hefur verið ákveðið, eins og ég sagði, að grænmetisverzlunin fái til sinna nota þrjú af húsunum, auk þess hefur Reykjavíkurbær tekið eitt hús á leigu, skógrækt ríkisins eitt, en tvö hús er hugsað að leigja einstaklingum, sem þess óska, og skal ég geta þess, að ef þetta mál hefði verið flutt og að fullu undirbúið í haust á uppskerutímanum, þá hefði verið hægt meira en að fylla húsin, svo mikil var eftirspurnin um að koma kartöflum til geymslu. Það er ekki vafi á því, að það er full þörf á að tryggja framleiðendum og neytendum líka hér í höfuðstaðnum geymslu, sem þessi hús geta veitt, og tel ég, að það megi ekki minna vera. Húsin taka, þegar þau eru full, 18 þús. tunnur, og er það ekki meira en 1/3 af neyzluþörf bæjarmanna og 1/6 af venjulegri framleiðslu landsmanna. Það er mjög mikill vandi að skipuleggja kartöfluflutninga og kartöflugeymslu frá framleiðendum til neytenda, og ég tel nauðsynlegt að ganga frá því að koma upp geymslum á öllum helztu markaðsstöðum landsins í viðbót við þær geymslur, sem einstaklingar geta komið upp hjá sér, því þó að það sé rétt, að þeir bændur, sem næstir eru markaðsstöðunum, geymi sínar kartöflur fram eftir vetri, eftir því sem nauðsyn krefur, þá er það alveg nauðsynlegt, að héruð, sem fjærst eru markaðsstöðunum, komi sinni framleiðslu þegar að haustinu til þeirra staða, þar sem salan og eftirspurnin er mest. Ég tel, að Reykjavík og verðlagssvæði hennar muni alls ekki komast af með minni geymslu en hér um ræðir, sérstaklega geta þeir tímar komið, að nauðsynlegt sé að geta birgt sig upp til nokkurs tíma með þennan vetrarforða eins og hvern annan.

Þá er spurt um, í hve langan tíma húsin séu leigð og hver ársleigan sé. — Húsin eru leigð til 5 ára. Ársleiga er 175 þús. kr., og var hún ákveðin samkv. mati, sem fram fór á leigunni. — Gert er ráð fyrir, að grænmetisverzlunin noti a.m.k. eitt af þessum húsum, einnig Reykjavíkurbær og sandgræðslan. Þá er og gert ráð fyrir, að framleiðsluráð landbúnaðarins sjái um rekstur húsanna. — Ég hef svo ekki meira við þetta að bæta að svo komnu máli.