16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í D-deild Alþingistíðinda. (5279)

929. mál, greiðsla fyrir þýðingarrétt íslenzkra og erlendra rita

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Menntmrn. sneri sér til viðskiptanefndarinnar og hagstofunnar til þess að fá svar við þessum spurningum. Ég vil þá leyfa mér að lesa bréf hagstofustjóra, en þar segir svo:

Reykjavík, 15. febrúar 1949.

Út af bréfi menntmrn., dags. í dag, þar sem óskað er vegna fyrirspurnar, sem svara þarf á Alþingi á morgun, upplýsinga um gjaldeyristekjur landsins fyrir þýðingarrétt á íslenzkum ritum síðan 7. sept. 1947 og hve mikið Íslendingar hafa greitt til útlanda fyrir þýðingarrétt á erlendum ritum á sama tíma, skal ég leyfa mér að taka það fram, að hagstofan hefur ekki undir höndum nein gögn til þess að geta svarað fyrirspurnum þessum. Líklegast væri til þess gjaldeyriseftirlit bankanna, og hef ég því snúið mér þangað, en fengið það svar, að þessum greiðslum sé ekki haldið sérstökum, heldur séu þær færðar með ýmislegum greiðslum. Þyrfti því að ganga í gegnum allar þær greiðslur á þessu tímabili og tína úr hinar umbeðnu greiðslur til þess að finna upphæð þeirra, en það væri mjög mikið verk og þó ekki einhlítt, því að margar greiðslur eru þannig bókfærðar, að ekki er augljóst, hvað í þeim kann að felast, og auðvitað getur gjaldeyriseftirlitið ekki upplýst annað en það, sem gengið hefur í gegnum bankana.

Þorst. Þorsteinsson.

(sign.)

Í bréfi viðskiptanefndarinnar segir:

15. febrúar 1949.

Með bréfi, dags. í dag, óskar hið háa ráðuneyti, að nefndin svari í dag fjórum fyrirspurnum varðandi gjaldeyri fyrir þýðingarrétt o.fl. í því sambandi.

Það er útilokað, að nefndin geti látið í té umbeðnar upplýsingar með jafnskömmum fyrirvara og hér um ræðir, en vill þó taka fram eftirfarandi í sömu röð og spurningarnar eru greindar í bréfi ráðuneytisins:

1) Þær skýrslur, sem nefndin fær frá gjaldeyrisdeild bankanna, bera ekki með sér þær upplýsingar, sem um er beðið. Telja bankarnir sig ekki sundurliða innborgaðan gjaldeyri þannig, að þeir geti upplýst þetta fyrirvaralaust, telja þó, að um litlar upphæðir muni vera að ræða, eða jafnvel alls engar.

2) Leyfðar yfirfærslur fyrir þýðingarrétt á umræddu tímabili munu aðeins hafa átt sér stað í smáum stíl, enda ekki áætlað fyrir slíku á s.l. ári. Til að rannsaka þetta þarf að yfirfara leyfisafrit, sem skipta tugum þúsunda að tölu, og er útilokað að láta framkvæma slíkt á skömmum tíma.

3) Hvorki viðskiptanefnd né aðrar þær nefndir, er farið hafa með hliðstæð mál s.l. 17 ár, hafa fært skýrslur yfir synjaðar umsóknir. Hinar umbeðnu upplýsingar er því ekki auðið að láta í té. Nefndin man eftir, að hún synjaði á s.l. ári umsókn frá hr. Jóni Leifs, að upphæð kr. 60 þús., sem var miðuð við erlendan kostnað í sambandi við þýðingu eða útgáfu á hans eigin tónverkum. Sami aðili mun hafa átt viðræður við nefndina og óskað eftir mjög háum yfirfærslum vegna Stefs h.f. Mun nefndin hafa tjáð honum, að slíkir yfirfærslumöguleikar væru ekki fyrir hendi. Nefndin telur, að þessar synjanir séu þær, sem máli skipta í þessu efni, hvað upphæðir snertir.

4) Nefndinni er ekki kunnugt um þau atriði, er felast í fjórðu fyrirspurninni.

Með sérstakri virðingu,

Sigurður B. Sigurðsson.

(sign)

Stefán Jónsson.

(sign)