23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í D-deild Alþingistíðinda. (5285)

136. mál, embættisbústaðir

Fyrirspyrjandi (Helgi Jónasson):

Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær upplýsingar og þau svör, sem hann hefur gefið í ræðu sinni.

Ég býst við því, að menn muni eftir því, að þegar þetta mál var hér til umræðu í fyrra, þá komu í ljós ýmsar ástæður til þess að auka byggingar embættismannabústaða, en þó var það heldur vilji Alþ. að draga úr þeim, þar sem ríkissjóður gæti ekki tekið á sig of þungar fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessa. Það var tekið fram, að þegar væri of langt gengið. En ég býst þó við því, að menn megi alltaf búast við því skjólinu, að þessi löggjöf nái aðeins til embættismannabústaða utan kaupstaðanna, því að það er allt önnur og miklu erfiðari aðstaða fyrir embættismenn úti í sveit, en í kaupstöðunum, þar sem oftast er hægt að leigja húsnæði eða kaupa. Ég tel það hins vegar ekki fært, að ríkissjóður sé látinn byggja embættismannabústaði í kaupstöðum, hvorki hér í Reykjavík né öðrum kaupstöðum, meðan ekki er gert það sama í sveitunum. Að öðru leyti vil ég ekki orðlengja þetta frekar, en ég vænti þess, að stjórnin taki þetta til athugunar fljótlega og leggi fram frv. um þetta efni.