09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í D-deild Alþingistíðinda. (5292)

146. mál, klak í ám og vötnum

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að minna hv. þm. á hina gömlu setningu: Vísindin efla alla dáð, — og þau geta tekið sinn tíma. Þá vil ég svara fsp. hv. þm. Ég hef fengið skýrslu um málið frá veiðimálastjóra, Þór Guðjónssyni. Hefur hann lagt allmikla vinnu í það að skýra gang málanna varðandi það efni, er fsp. hljóðar um, og vil ég leyfa mér að lesa álit hans, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt lögum nr. 61/1932, um lax- og silungsveiði, (74. og 75. gr.) er gert ráð fyrir, að veiðimálanefnd og veiðimálastjóri verði atvmrh. til aðstoðar um stjórn veiðimála. Veiðimálanefndin hefur tillögurétt um allt, sem að veiðimálum lýtur, og ber að leita samþykkis hennar um reglugerðir og annað, sem lögin ákveða, að hún skuli fjalla um. Verksvið veiðimálastjóra, sem skal vera sérfræðingur í veiðimálum og vatnalíffræði, eru að annast rannsóknir vatna og fiska og skrásetja veiðivötn, safna skýrslum um veiði og fiskirækt, láta gera uppdrætti af klakstöðvum og fiskvegum og hafa umsjón með gerð þeirra, gera tillögur um reglugerðir og leiðbeina um veiðimál.

Þegar lögin um lax- og silungsveiði frá 1932 gengu í gildi, var Ólafur Sigurðsson bóndi á Hellulandi starfandi ráðunautur um klakmál á vegum Búnaðarfélags íslands og Fiskifélags Íslands, en hins vegar var þá enginn sérfræðingur um veiðimál og vatnalíffræði til í landinu til að taka að sér starf veiðimálastjóra. Var því ákveðið með bráðabirgðaákvæði í lögunum (95. gr.), „að sá maður, sem hefur með höndum eftirlit með lax- og silungaklaki í landinu, komi í stað veiðimálastjóra og veiðimálanefndar, eftir því sem við getur átt“, þar til Alþingi kveður öðruvísi á. Veiðimálanefndin var svo skipuð 31. marz 1933, og áttu sæti í henni þeir Pálmi Hannesson rektor, formaður, dr. Bjarni Sæmundsson og Metúsalem Stefánsson búnaðarmálastjóri. Síðar var Ólafur Sigurðsson ráðinn hjá Búnaðarfélaginu eftir tillögu veiðimálanefndar til að hafa á hendi leiðbeiningar um klak og veiði, og starfaði hann hjá félaginu til ársloka 1946.

Á fyrstu árunum, eftir að lögin um lax- og silungsveiði frá 1932 gengu í gildi, var rannsóknum á veiðivötnum og vatnafiskum ekki sinnt, en Pálmi Hannesson hafði haft slíka rannsóknarstarfsemi með höndum á árunum 1927–30. Þegar Atvinnudeild háskólans tók til starfa 1937, var fiskideildinni falið að annast rannsóknir í þágu veiðimálanna, og gerði hún það fram til ársins 1946, að veiðimálastjóraembættið var stofnað. Gerðar voru rannsóknir á Kleifarvatni, Mývatni, vatnahverfi Ölfusár — Hvítár, Blöndu, hluta af Laxá í Þingeyjarsýslu og fleira. Einnig voru gerðar rannsóknir á ævi laxins í nokkrum ám og þá aðallega í Elliðaánum. Í þessum rannsóknum tóku þátt þeir Árni Friðriksson, dr. Finnur Guðmundsson, Geir Gígja og aðstoðarfólk.

Fyrsta spurning: Hve miklu fé hefur ríkissjóður varið til klakmála árlega 1939–48? Svar: Því miður er ókleift að gefa nákvæmt yfirlit yfir útgjöld ríkissjóðs vegna veiðimála á öllum árunum frá 1939 til 1948, þar sem ekki liggur fyrir nákvæm sundurliðun á, hvað rannsóknarstarfsemi fiskideildar í þágu veiðimálanna hefur kostað á árunum 1939–45. Árni Friðriksson fiskifræðingur, forstöðumaður fiskideildarinnar telur, að ekki sé of hátt ætlað, að kostnaður deildarinnar af vatnarannsóknunum á þessu tímabili hafi árlega numið upphæð, er samsvarar launum, ferðakostnaði og rekstrarkostnaði eins sérfræðings. Í rekstrarkostnaði er innifalinn kostnaður vegna aðstoðar, húsnæðis, ljóss og hita og vegna kaupa á rannsóknar- og skrifstofuáhöldum. Með núgildandi verðlagi mundi kostnaður af einum sérfræðingi vera 60 –75 þús. kr. árlega.

— Útgjöld ríkissjóðs til veiðimála á árunum 1939 –48, sem tölur eru til yfir, fara hér á eftir ásamt upphæðum þeim, sem veittar voru til veiðimála í fjárlögum:

Ár Fjárlög Útgjöld

1939 14.000.00 kr. 14 371.63 kr.

1940 18,500.00 – 17.658.81 -.

1941 18.400.00 – 17 080.83 -.

1942 18.400.00 – 26.286.38-.

1943 25.000.00 – 41.489.70 -.

1944 25.000.00 – 72.315.09-.

1945 25.000.00 – 42.558.40 -.

1946 25.000.00 – 127.974.42 -.

1947 114.980.00 – 110.132.33 -.

1948 127.650.00 – 100.470.00 -.

Á fjárlögum hefur verið veitt árlega fé í klaksjóð, og hafa þær fjárveitingar verið teknar hér með. Fjárveitingar til klaksjóðs voru kr. 5.000.00 á árunum 1939–42 og kr. 10.000.00 frá 1943–48. Fé hefur ekki verið notað úr klaksjóði síðan 1945.

Á árunum 1943–45 voru greiddar samtals kr. 36.000.00 sem styrkur úr sjóði til styrktar vegna framleiðslubóta og atvinnuaukningar til tveggja bænda í Kelduhverfi vegna tilrauna með silungaeldi. Þar sem hér er um að ræða styrk af opinberu fé til fiskiræktar, þá voru styrkupphæðirnar teknar með öðrum fjárframlögum hins opinbera til veiðimála á þessum árum.

Útgjöld ríkissjóðs til veiðimála á árunum 1939–45, að undanskildum kr. 36 000.00, sem áður var minnzt á, gengu til að greiða laun og ferðakostnað Ólafs Sigurðssonar og til að styrkja fiskiræktarframkvæmdir. Á árinu 1945 voru útgjöld ríkissjóðs vegna veiðimála aukin verulega, þó að ekki komi það fram á útgjaldalistanum, þar sem fiskideildin fékk á því ári aukna fjárveitingu til starfsemi sinnar og þar á meðal álitlega upphæð, sem varið skyldi tal vatnarannsókna.

Svo er að sjá á útgjaldalistanum, að á árinu 1946 hafi útgjöldin til veiðimála hækkað stórkostlega, en þetta er ekki að öllu leyti rétt, eins og nú skal sýnt fram á. Þann 1. maí 1946 hóf veiðimálastjóri starf sitt, en við stofnun embættis veiðimálastjóra voru færð saman á einn stað verkefni þau á sviði veiðimálanna, sem veiðimálastjóra voru ætluð samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, en þessi mál höfðu verið í höndum ráðunauts Búnaðarfélagsins í klakmálum og hjá fiskideildinni. Þessi breyting hafði það í för með sér, að á þessu ári kemur fram í ríkisreikningnum kostnaður vegna rannsókna á veiðivötnum undir liðinn kostnaður vegna veiðimála í stað þess að vera með ósundurliðuðum kostnaði fiskideildar, eins og verið hafði, frá því að atvinnudeildin var stofnuð. Þá varð það og til að auka útgjöldin til veiðimálanna á þessu ári, að embætti veiðimálastjóra keypti af fiskideildinni tæki þau og áhöld, sem deildin hafði aflað sér til vatnarannsókna, svo og bækur þær, sem til voru um vatnarannsóknir og vatnafiska. Auk þessara kaupa var óhjákvæmilegt að ráðast í kaup á nauðsynlegum húsgögnum og áhöldum á skrifstofu, sem jafnframt var rannsóknarstofa. Í árslok 1946 eru eignir embættisins taldar kr. 54.682.59, og hafa gjöldin á árinu því verið kr. 73.291.83, og eru þar með talin laun Ólafs Sigurðssonar ráðunauts og ferðakostnaður hans. Auk þess, sem nú hefur verið talið, voru greiddar á árinu af umræddum lið um kr. 10.0000.00 í styrki og vegna veiðieftirlits.

Um útgjöldin árið 1947 þykir ekki þörf á að ræða sérstaklega, en geta skal þess þó, að á þessu ári verður embætti veiðimálastjóra að hverfa úr húsnæði fiskideildar í atvinnudeildarbyggingunni vegna þrengsla og fara í leiguhúsnæði út í bæ, þar sem ókleift var að komast í húsnæði hins opinbera. Við þetta skapaðist aukinn kostnaður við rekstur embættisins, sem varð þess valdandi, að óska varð eftir hærri fjárframlögum, en þau fengust fyrst á fjárlögum fyrir árið 1948. Eignaaukning á árinu var kr. 6.725.11.

Varðandi útgjöld ársins 1948 skal vísað til svars við þriðju spurningu. Eignaaukning á árinu 1948 nam kr. 7.058.76.

Önnur spurning: Hve mörg klak- og fiskiræktarfélög voru stofnuð á þessu tímabili fyrir forgöngu Ólafs Sigurðssonar og að tilstuðlan Þórs Guðjónssonar?

Svar: Á árunum 1939–48 var stofnað 21 félag, sem voru ýmist fiskiræktar- eða veiðifélög eða hvort tveggja. Tvö þessara félaga höfðu verið til áður, en voru endurstofnuð. Nokkur vafi leikur þó á, að telja beri 21 félag stofnað á nefndu tímabili eða hvort þau voru nokkru færri, því að sennilega hafa þau 7 félög, sem staðfestingu fengu í stjórnarráðinu fyrstu 5 mánuði ársins 1939, verið stofnuð árið 1938.

Samkvæmt B-deild Stjórnartíðinda skiptist fjöldi fiskiræktar- og veiðifélaga, sem staðfestingu fengu í stjórnarráðinu á árunum 1930–45, eins og hér segir:

1930 1 félag 1935 1 félag

1931 2 félög 1936 6 félög

1932 0 – 1937 6 –

1933 0 – 1938 4 –

1934 2 – 1939 7 –

1940 3 félög 1943 2 félög

1941 3 – 1944 1 félag

1942 4 – 1945 1 –

Í sambandi við möguleika á stofnun fiskiræktar- og veiðifélaga á Íslandi er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi eru því takmörk sett, hve kleift er allra aðstæðna vegna að koma á stofn mörgum félögum, þar sem fiskihverfin eru bara svo mörg og ekki fleiri. Þá er mjög misjafnlega auðvelt að fá bændur til að stofna félög, og fer það nokkuð eftir félagslegum aðstæðum við fiskihverfin svo og ástandi veiðivatnsins, sem stofna á félagið um. Sums staðar hefur þörfin fyrir slík félög verið mikil, og bændur hafa viðurkennt hana og því nær samstundis verið til í að stofna félögin. Þetta atriði kemur greinilega í ljós, þar sem í sumum tilfellum er reynt að fá bændur árum saman til að stofna hjá sér félög, en án árangurs. Taflan hér að framan, sem sýnir fjölda félaganna, sem stofnuð voru árlega á árunum 1930–45, gefur góða hugmynd um, hvernig gengið hefur til með félagsstofnanirnar. Á árunum frá 1930–35 eru bændur tregir til að stofna félög, en þá bregður skyndilega til hins betra. Á árunum 1936–39 eru stofnuð til jafnaðar tæplega 6 félög á ári að meðaltali, en úr því fer að fækka félagsstofnununum, og þær verða til jafnaðar 3 á ári næstu 4 árin, en þá er nálgazt það mark, að sárafáir eiga eftir að stofna hjá sér félög, og það er því aðeins eitt félag stofnað hvort árið 1944 og 1945 og ekkert 1946.

Eins og sjá má hér að framan, þá hefur verið stofnað 21 félag til eflingar fiskirækt eða til samveiði eða hvort tveggja á árunum 1939–45, eða áður en embætti veiðimálastjóra var stofnað. Þegar á fyrstu mánuðum í starfi mínu kynnti ég mér starfsemi fiskiræktar- og veiðifélaganna eftir föngum. Mér var brátt ljóst af þeirri kynningu, að mjög var starfsemi félaganna með mismunandi móti. Í sumum félaganna var starfað af lífi og fjöri, en í öðrum var deyfð og drungi og í um þriðjungi þeirra var ekkert starfað. Nokkur höfðu sofnað út af, þegar eftir stofnunina. Það lá því næst við að leitast við að hressa upp á félögin, sem fyrir voru, frekar en að leggja allt kapp á stofnun nýrra félaga, sem svo ef til vill yrðu ekkert annað en nafnið, og verður það mikið starf í framtíðinni að hjálpa þeim áleiðis sem illa eru stödd.

Þriðja spurning: Hvernig var árið 1948 notað það fé, sem ríkið lagði til klakmála? Hve mikið í laun, ferðir, áhöld til vísindalegra tilrauna og til annarra útgjalda?

Svar: Á fjárlögum fyrir árið 1948 var ætlað kr. 127.650.00 til veiðimála, þar af kr. 10.000.00 í klaksjóð. Kostnaðarliðirnir á fjárlögunum (16. gr., 26) eru áætlaðir eins og hér segir:

A. Veiðimálastjóraembættið:

a. Laun ................................ kr. 49.650.00

b. Skrifstofukostnaður o.fl. .. — 8.000.00

c. Ferðakostnaður .............. — 10.000.00

d. Annar kostnaður . .. .. .... — 20.000.00

B. Kostnaður vegna veiðimála

nefndar og styrkir til fiski

ræktar ............................... — 30.000.00

kr. 117.650.00

Fjárveitingunni til veiðimála hefur verið varið eins og hér segir:

A. Veiðimálastjóraembættið:

a. Laun ...................... kr.49.125.00 b.

Skrifstofukostnaður o.fl.:

1. Daglegur rekstrarkostnaður, svo sem símagjöld, pappírsvörur, ritföng og burðargjöld, ræsting og hreinlætisvörur o.fl. .............. 3.485.88

2. Áhöld, bækur og

tímarit ............................... 3.585.23

— 7.071.11

c. Ferðakostnaður .........— 11.405.93

d. Annar kostnaður:

1. Húsaleiga og hiti ..11.377.13

2. Rannsóknaráhöld ..3.473.53

3. Laxamerkingar ….. 1.966.70

4. Ýmis kostn., svo

sem afnotagj. af síma og heimtaugargj., prentkostn., auglýsingar, vátrygging

o. fl. ……………. …..5.325.36

…..— 22.142.72

Áður en lengra er haldið, skal tekið fram, að á liðum b, c og d var fjárveitingin á fjárlögum kr. 38.000.00. Kostnaðurinn var þó kr. 40.619.76. Fé til greiðslu upphæðar þeirrar, sem er umfram fjárlög, er þannig til komið, að atvinnumálaráðuneytið veitti kr. 1.000.00 utan fjárlaga með tilliti til þess, að á árinu 1947 hafi fjárveitinganefnd Alþingis ekki tekið til greina umsókn um fjárveitingu til embættis vegna húsaleigukostnaðar, sem embættið varð að taka á sig við það að flytja úr húseign ríkisins (atvinnudeildarbyggingunni) í leiguhúsnæði. Var reynt með erfiðismunum að greiða húsaleiguna fyrir 1947 af fé því, sem embættinu var ætlað til annarra hluta á árinu 1947 og 1948. Kr. 1.619.76 var fé, sem greitt hafði verið á fyrra ári í ákveðnu skyni, en ekkert kom á móti fyrir, fyrr en á árinu 1948.

Af fjárveitingu til veiðimálanefndar og til styrkveitinga var greitt eins og hér segir:

Vegna veiðimálanefndar ........ kr. 1.500.00

Vegna eftirlits með veiðiám í Borgarfirði og Árnessýslu ...........— 9.845.39

Styrkveiting til Fiskiræktar- og

veiðifélags Laugdælinga ....................................................... — 1.000.00

Samtals kr. 12.345.39

Eins og sjá má, var fjárveitingin á þessum lið ekki notuð nema rúmlega að einu þriðja leyti. Gert hafði verið ráð fyrir, að fjárveitingin yrði notuð öll til styrktar fyrirhugaðri fiskvegagerð á árinu, en sökum frestunar á framkvæmdum varð ekki úr því.

Í sambandi við kostnað vegna rannsókna og laxamerkinga skal það tekið fram, að verulegur hluti hans er falinn í ferðakostnaði og kemur því undir þann lið hér að framan.

Fjórða spurning: Hverjar eru ráðagerðir klakstjórnarinnar um vísindalega starfsemi í klakmálum?

Svar: Gert er ráð fyrir að haga vísindalegri starfsemi í þágu veiðimálanna á þann hátt, að rannsökuð verði ár og vötn á landinu og fiskalífið í þeim og jafnframt verði tekin fyrir sérstök rannsóknarverkefni og tilraunir gerðar, eftir því, sem við verður komið.

Rannsóknir á ám og vötnum með tilliti til lífsskilyrða fyrir fisk eru undirstöðurannsóknir, er vinna verðum að kerfisbundið og taka munu langan tíma. Tilgangurinn með rannsóknunum er að fá vitneskju um framfærslumátt einstakra veiðivatna og helztu einkenni þeirra. Að niðurstöðunum fengnum má m.a. ráða, hvort veiðivatnið er fullnýtt eða ekki. Í fljótu bragði kann að virðast nægjanlegt að rannsaka eina á og eitt vatn, en svo er þó ekki, þar sem aðstæður eru svo mismunandi í hinum ýmsu veiðivötnum, að nauðsyn er á að kynna sér hvert einstakt þeirra sérstaklega. Þekking á ánum og vötnunum kemur að margs konar gagni, og skal í því sambandi minnzt á, að það er mjög þýðingarmikið, þegar seiðum er sleppt, upp á góðan árangur, að þekkja þá staði, sem bezt henta fyrir seiðin, eftir að þau koma í sitt nýja umhverfi, og jafnframt að hafa í huga, hve hyggilegt er að sleppa mörgum seiðum á hvern stað.

Jafnnauðsynlegt er að rannsaka líf vatnafiskanna eins og lífsskilyrði þeirra. Niðurstöðurnar gefa bendingar um, hvenær skynsamlegast er að leyfa veiði þeirra og hvenær og undir hvaða kringumstæðum eigi að friða þá. Rannsóknir á vatnafiskum okkar eru stutt á veg komnar, og er nú hafinn undirbúningur undir að halda þeim áfram. Það þarf að rannsaka stofnana í ánum og vötnunum til að kynnast mismun þeirra, sem getur verið með mörgu móti, þó að fljótt á litið séu þeir allir eins. Í sambandi við klakstarfsemina í landinu hafa niðurstöður þessara rannsókna verulega þýðingu, því að óskynsamlegt er að taka til undaneldis í klakið aðra fiskstofna en þá, sem gæddir eru heppilegum eiginleika hvað snertir vaxtarhraða og annað. Við nánari kynni af lífsferli vatnafiskanna. sem rannsóknir næstu ára munu leiða í ljós, má vænta, að breyta þurfi einstökum ákvæðum veiðilöggjafarinnar að verulegu leyti.

Auk undirstöðurannsóknanna er þörf að taka til meðferðar sérstök rannsóknarverkefni og hafa nokkra tilraunastarfsemi með höndum. Skal í því sambandi minnzt á þörfina fyrir rannsóknir á klakaðferð, samband vatnafiskanna og annarra dýra (t.d. minka og fugla). Tilraunaverkefnin eru mörg, en tilraunir með eldi lax og silungs er einna mest aðkallandi. Ef eldistilraunirnar gefa sæmilega raun, ætti eldi vatnafiska og þá sérstaklega laxaeldi að geta haft töluverða fjárhagslega þýðingu. Vonir standa til, að kleift verði að byggja fyrirmyndar ríkisklakstöð á næstunni svo og eldisstöð, og mun við það skapast vettvangur fyrir rannsóknir á klakaðferðum og tilraunum með eldi laxa og silunga.

Þegar um er að ræða að vinna að vísindastarfsemi eins og að ofan getur, þá er nauðsynlegt upp á góð afköst við starfsemina, að fyrir hendi séu áhöld til rannsóknanna, bókakostur og starfskraftar. Eins og sakir standa er embætti veiðimálastjóra allvel búið að tækjum og bókum, en því miður eru önnur störf en þau, sem að rannsóknum lúta, svo tímafrek, að gefa verður þeim nú minni gaum en skyldi. Þegar frá líður og byrjunarerfiðleikarnir hafa verið yfirunnir, verður mögulegt að nota verulegan tíma til rannsóknanna.

Fimmta spurning: Hefur atvmrn. látið klakfræðing sinn rannsaka hrygningarskilyrði laxa í Þingeyjarsýslu milli rafstöðvarinnar hjá Brúum og Mývatns? Hver var árangur þeirrar rannsóknar? Vill atvmrn. gera það skilyrði fyrir auknu virkjunarleyfi við Brúar, að leyfistaki leggi á sinn kostnað fullkominn fiskiveg fram hjá mannvirkjum rafstöðvarinnar?

Svar: Athugun á hrygningarskilyrðum fyrir lax í Laxá í Þingeyjarsýslu fór fram um miðjan júlí 1947. Í bréfi, dags. 17. marz 1948, var atvmrn. skýrt frá niðurstöðunum af athugununum og þá jafnframt tilkynnt um niðurstöður kostnaðaráætlunar raforkumálaskrifstofunnar um byggingu fiskvegar í Brúargljúfri. Innihald nefnds bréfs er í stuttu máli þetta: Á um 10 km svæði í Laxá í Þingeyjarsýslu ofan Brúargljúfra, frá stað í ánni á móts við jörðina Hamar og norður undir Birningsstaðaflóa, eru allvíðáttumiklar hrygningarstöðvar. Æti á þessu svæði er ríkulegt, en rennslistruflanir spilla afkomumöguleikum fiskanna í ánni. Það er talið ráðlegt og æskilegt, að reynt verði að koma upp laxastofni í Laxá ofan Brúargljúfra. Nefndar eru tvær leiðir til að koma laxinum upp fyrir hindranirnar í Brúargljúfrum, annars vegar að byggja fiskveg í gljúfrunum og hins vegar að safna laxinum í kistu neðan við gljúfrin og flytja hann síðan upp fyrir þau á bifreiðum. Raforkumálaskrifstofan gerði uppdrátt að fiskvegi í gljúfrunum og kostnaðaráætlun um byggingu hans. Áætlaði hún, að fiskvegurinn mundi kosta eina milljón og sjö hundruð þúsund krónur. Kostnaðurinn við að koma fyrir laxakistu neðan gljúfranna mundi hins vegar ekki verða verulegur, en þó mundi flutningurinn upp fyrir gljúfrin hafa nokkurn árlegan kostnað í för með sér. Þá var og rætt um fjárframlag til að hefja veiði neðan Brúargljúfra til öflunar stofnlax fyrir Efri-Laxá, ef horfið yrði að því ráði að koma upp laxastofni þar.“

Já, þannig hljóðar skýrsla veiðimálastjóra, og ég get bætt því við, varðandi þá spurningu, hvort atvmrn. vilji gera það að skilyrði fyrir auknu virkjunarleyfi við Brúar, að leyfistaki leggi á sinn kostnað fullkominn fiskveg fram hjá mannvirkjum rafstöðvarinnar, að eftir þeirri kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið og gerir ráð fyrir, að það verði hátt á aðra milljón króna, þá get ég svarað því strax, að ég mun ekki gera slíkt að skilyrði upp á mitt eindæmi, og mun það, ef til þess kemur, verða lagt fyrir Alþingi.