02.03.1949
Sameinað þing: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (5309)

930. mál, bygging fornminjasafns

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef óskað þess við byggingarnefndina, að hún gæfi upplýsingar um þetta mál. Mér hefur borizt skýrsla varðandi þetta frá nefndinni, og mun ég svara fyrirspurnum hv. þm. með því að lesa þær upplýsingar hér upp, með leyfi hæstv. forseta.

„Samkvæmt ósk hins háa ráðuneytis, dags. 25. febr. s.l., skal eftirfarandi upplýst:

1. Kostnaður vegna byggingarinnar var upprunalega áætlaður 4 millj. kr. Alþingi veitti 3 millj. kr. 1944, en ríkisstjórn Ólafs Thors samþykkti á ráðherrafundi að veita 1 millj. kr. í viðbót, eftir að byggingarnefnd hafði tjáð henni, að ekki yrði komizt af með minna. Byggingunni er nú langt komið, og standa vonir til, að verkinn verði að mestu leyti lokið eftir nokkra mánuði. Byggingarkostnaður er nú orðinn kr. 4.577.117,32, eða nál. 41/2 millj. kr., og er áætlað, að ca. 3/4 millj. nægi til að fullgera húsið, að undanskildum ýmsum skápum og innanstokksmunum m. m., er smám saman mun bætast við, þegar farið verður að raða safninu.

2. Húsameisturunum Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni hafa verið greiddar 120.000.00 krónur samkvæmt taxta arkitektafélagsins. Byggingarnefndin hefur engin laun tekið fyrir störf sín. Eftirlit með byggingunni, auk arkitektanna og formanns byggingarnefndar, hefur Sigurður Jónsson múrarameistari, en hann og Snorri Halldórsson húsasmíðameistari hafa tekið verkið að sér, og hefur hvor þeirra fengið í laun kr. 1.125.00 grunnkaup pr. mánuð að öllu tréverki. Hins vegar hefur ekkert annað verið greitt til verksala, og hafa sparazt á þessu stórar upphæðir, en eins og kunnugt er reikna byggingarfélög sér 15–20% af vinnulaunum fyrir að taka að sér byggingar. Vinnulaun til 1. marz hafa verið greidd samt. kr. 1.775.355.78, og mundi venjulegt byggingarfélag, miðað við 15% af vinnulaunum, hafa fengið greitt kr. 266.303.00. Þessi upphæð hefur að miklu leyti sparazt.

3. Þessum lið hafa arkitektarnir í bréfi til mín svarað á eftirfarandi hátt:

„Á miðsal efstu hæðar aðalhússins eru gluggar fyrir ofan hliðarþökin. Þeir eru rúmlega 100 fermetrar, en gólf salarins um 320 ferm., svo að gluggaflötur er nálega þriðjungur gólfflatar. Þótt gluggarnir séu lóðréttir, en ekki á þaki, verður þarna góð ofanbirta, og er þetta fyrirkomulag ekki óalgengt á nýjum safnahúsum. Salurinn er nú allur dimmur neðan til sökum þess, að vinnupallar eru um allan salinn, svo að ekki sér til glugganna, og kann þetta að hafa villt einhverjum sýn. Um hliðarsalina má segja, að þakgluggar hefðu getað komið þar til greina, í stað glugga á veggjum. Óneitanlega virðist þó tryggilegra að geyma dýrmæta muni undir heilu þaki og steinsteyptu lofti heldur en stórum þakgluggum. sem auk þess eru vandfengnir nægilega góðir. Loftplatan styrkir mjög langveggi hússins, sem lítinn stuðning hafa af skilrúmum, og hún ber einnig hitunartæki og loftrásir. Venjulegir veggofnar þóttu ekki heppilegir, sérstaklega vegna fornminjanna. En þetta húsnæði er ætlað fornminjum síðar, þegar málverkasafnið eignast sitt eigið hús.“

Virðingarfyllst,

Alexander Jóhannesson.“