02.03.1949
Sameinað þing: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í D-deild Alþingistíðinda. (5310)

930. mál, bygging fornminjasafns

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur nú gefið Alþ. skýrslu sína í þessu máli, en ekki hefur komið fram, hve mikið sé ógreitt til arkitektanna. Nú, út af því eftirliti, sem verktakar hafa sjálfir tekið að sér, þá er það sýnilegt, að þeir hafa fengið þúsundir kr. fyrir þau störf. En hvað um það, þá er það ekkert eftirlit, að verktaki hafi laun fyrir að hafa eftirlit með sínu eigin verki. Út af þakgluggunum þá er gott, að þm. fái að vita, hvernig um þetta er búið. Aðalsalurinn er ljóslaus. Í byggingu sem þessari er venja að hafa svipmikinn og rúmgóðan inngang, en í þessu húsi er enginn, heldur er tröppum klesst á húsið móti austanvindátt. Er slíkt einsdæmi, auk þess sem tröppurnar eru ólöglegar. Frágangur og umbúnaður hússins er allur til skammar.