09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í D-deild Alþingistíðinda. (5365)

935. mál, leiga á jarðhúsum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessi geymsluhús vildi ég upplýsa, að það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði og hafði eftir forstjóra Grænmetisverzlunar ríkisins, að hann vildi ekki taka þessi hús á leigu, og ég býst við, að ástæðan til þess sé sú, að hann hafi ekki viljað samþ. þann taprekstur, sem hann hefur gert ráð fyrir, að yrði á þessari leigu. Í sambandi við þetta vil ég spyrja hæstv. ráðh., hver verði endanleg ársleiga á þessum geymslum. Það var upplýst fyrir nokkrum dögum, að þær hefðu verið teknar fyrir 175 þús. kr. á ári auk rekstrarkostnaðar. Hversu mikill verður hann? Og hversu mikil tekjuvon er af þessum geymslum? Og hversu mikið verður tap ríkisins og grænmetisverzlunarinnar á þessu fyrirtæki? Það er ekki nema rétt, að gerð sé grein fyrir þessu, því að við erum svo vanir, að það, sem ríkið skiptir sér af, hafi tap í för með sér. Og þegar við erum að ræða um þennan samning, þá væri ágætt, ef hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um, við hve miklu tapi megi búast af þessum geymslum. En það er ástæða til, að forstjóri grænmetisverzlunarinnar hafi viljað vera laus við þetta fyrirtæki, hafi verið fyrirsjáanlegur taprekstur á því, og hann sem hygginn maður viljað biðja sig undan þeirri ábyrgð.