09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í D-deild Alþingistíðinda. (5382)

938. mál, þjóðartekjur af útgerð 1947

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Þessari fyrirspurn er beint til hæstv. sjútvmrh., en áður hafði ég beint sams konar spurningu til hæstv. landbrh. varðandi þjóðartekjur af landbúnaði, og þær tekjur, sem hér er um að ræða, eru brúttó-tekjur af sölu erlendis, sem ég hef sundurliðað þannig:

a. Fyrir fisk, veiddan af togurum.

b. Fyrir bátafisk.

c. Fyrir síld.

Þá er í öðrum liðnum spurt um tekjur af lýsissölu, og að lokum, hve mikið áætla megi, að hafi þurft að greiða úr landi þetta ár fyrir útgerðarvörur fyrir togara, vélbáta á fiskveiðum og vélbáta á síld, svo sem olíu, kol, salt, veiðarfæri og varahluti í skip og báta, þar með taldar viðgerðir erlendis.

Svörin við þessum spurningum ættu að geta verið bending um það, hver tilkostnaðurinn sé, og ég get tekið það fram í þessu sambandi, að því hefur varla verið veitt nægileg athygli, hvað þorskveiðarnar eru miklu stöðugri, en síldin nú á undanförnum árum. Flestir bátarnir hafa eingöngu stundað síldveiðar á sumrin og hafa yfirleitt alltaf verið reknir með tapi, en bátar þeir, sem stundað hafa þorskveiðar á sama tíma, hafa yfirleitt borið sig sæmilega. Um þetta ætti fyrirspurnin að geta gefið nokkuð glögg skil, þegar hæstv. ráðh. hefur svarað.