09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í D-deild Alþingistíðinda. (5388)

939. mál, embættisbústaðir dómara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það kemur fram í fyrirspurninni sjálfri, að aðeins er spurt um, hvað gert hafi verið í því efni, sem hér er um að ræða, frá og með árinu 1945. Þó var fyrir þann tíma í einstökum tilfellum keypt hús handa héraðsdómurum, þar sem sérstök ástæða þótti til vera. Ég hef þó ekki rakið það mál lengra en til ársins 1945, því að ekki er spurt um meira.

Fyrirspurn þessi er gerð um embættisbústaði dómara og er í 4 liðum.

Í fyrsta lagi er um það spurt, á hvaða stöðum ríkið hafi látið byggja eða hefja byggingu bústaða handa héraðsdómurum á árunum 1945–48, að báðum meðtöldum. Hefur í þessar framkvæmdir verið ráðizt á þremur stöðum: Í Neskaupstað, á Selfossi og Vik í Mýrdal.

Í öðru lagi er spurt um stærð og kostnaðarverð bústaðanna og hve miklu hafi verið til þeirra varið. Í Neskaupstað var bygging hafin 1946 á embættisbústað, og er byggingu lokið. Er byggingin ein hæð og kjallari, flatarmál 151 fermetri, rúmmál 906 rúmmetrar. Kostnaðarverð hefur orðið kr. 539.724,03, og er það greitt. — Á Selfossi var hafin bygging á embættisbústað á árinu 1946, og er byggingu bústaðarins lokið, en ekki gengið fyllilega frá reikningum. Byggingin er tvær hæðir og kjallari, aðalbygging, og ein hæð og kjallari, viðbygging, rúmmál alls 1.700 rúmmetrar. Áætlað smíðaverð er 560 þús. kr. Úr ríkissjóði hafa verið greiddar 200 þús. kr., en af sýslufélaginu 100 þús. kr., og er það framlag vegna afnota af salarkynnum í viðbyggingunni. — Í Vík í Mýrdal var hafin bygging embættisbústaðar á árinu 1947, og er byggingu ekki lokið. Byggingin er tvær hæðir og kjallari, flatarmál 126 fermetrar. Áætlað kostnaðarverð er 410 þús. kr., og hafa þegar verið greiddar úr ríkissjóði kr. 278.192,60.

Undir þessum lið þykir rétt að tilgreina skrifstofuviðbyggingu við embættisbústaðinn í Stykkishólmi samfara endurbyggingu á bústaðnum, sem er timburhús. Er aðgerðum þessum lokið. Viðbyggingin er ein hæð. Flatarmál 51,6 fermetrar. Brunabótamat 120 þús. kr. Hafa þegar verið greiddar úr ríkissjóði vegna aðgerða þessara kr. 73.367,92. Ógreiddar ca. 135 þús. kr. Um þennan embættisbústað er þess að geta, að hann var keyptur áður en lög heimiluðu að gera nokkuð í slíkum málum, en húsið var ófullnægjandi til þeirra nota, sem það var keypt.

Í þriðja lagi er spurt um kaup íbúðarhúsa handa héraðsdómurum á fyrrgreindu tímabili og óskað upplýsinga um stærð, kaupverð og hve miklu varið hafi verið til viðgerða á þeim. Slík kaup hafa verið gerð á fjórum stöðum. Á Húsavík var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir sýslumannsembættið í Þingeyjarsýslu, og er afsal gefið út 20. marz 1945. Kaupverð 70 þús. kr. Flatarmál hússins 110 fermetrar, rúmmál 990 rúmmetrar. Til viðgerðar á húsinu á árunum 1945 og 1946 var varið kr. 35.347,06. Í Bolungavík var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir lögreglustjóraembættið, og er afsal gefið út 20. marz 1946. Kaupverð 75 þús. kr. Til viðgerða hefur verið varið kr. 22.642,14. Húsið er steinsteypt, 45 fermetrar, tvær íbúðarhæðir, ris og kjallari. — Í Búðardal var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir sýslumannsembættið í Dalasýslu, og er afsal gefið út 14. febr. 1948. Kaupverð er kr. 134 þús. Húsið er steinsteypt, tvær hæðir og kjallari. Flatarmál ca. 89 fermetrar, rúmmál ca. 700 rúmmetrar. Viðgerð, framkvæmd á árinu 1948, hefur kostað kr. 73.749,02, þar af hafa verið greiddar 26 þús. kr. — Á Siglufirði var keypt íbúðar- og skrifstofuhús fyrir bæjarfógetaembættið, og er afsal gefið út 23. júní 1948. Húsið er steinsteypt, tvær hæðir, kjallari og ris og tvær útbyggðar forstofur. Flatarmál 116 fermetrar, rúmmál 1264 1/2 rúmmetri. Kaupverð 380 þús. kr. Til viðgerða hefur verið varið á árinu 1948 5 þús. kr. Um tvö þessi síðustu hús má taka fram, að kaupverð þeirra beggja var miðað við mat trúnaðarmanns valdstjórnarinnar á staðnum.

Í fjórða lagi er um það spurt, hvort ríkið hafi látið hefja byggingu íbúða handa hæstaréttardómurum. Svo er ekki. Hins vegar hafa tveir hæstaréttardómarar hafið byggingu íbúðarhúsa, þeir Gissur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson, sem miða að því að firra ríkið því að þurfa að standa í þessum byggingum sjálft.

Svo hljóðandi samkomulag hefur verið gert milli dómsmrn. og Gissurar Bergsteinssonar varðandi byggingu íbúðarhúss á lóðinni nr. 6 við Nesveg í Reykjavík:

„1. Ráðuneytið samþykkir, að húsið verði byggt fyrir reikning hæstaréttardómarans samkvæmt fjárfestingarleyfi nr. 2.156, útgefnu til ráðuneytisins 4. maí 1948.

2. Húsið sé byggt eftir uppdrætti húsameistara ríkisins, er hafi yfirumsjón með byggingunni og láti í té alla uppdrætti hússins án endurgjalds.

3. Ráðuneytið hlutast til um, að ábyrgð ríkissjóðs verði veitt fyrir eitt hundrað þúsund króna láni úr Lífeyrissjóði embættismanna og allt að sjötíu og fimm þúsund króna láni hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands eða annars staðar, en lán þessi hyggst hæstaréttardómarinn að taka til byggingar hússins.

4. Hæstaréttardómarinn veðsetur ríkissjóði húseignina með fyrsta veðrétti til tryggingar skaðleysi ríkissjóðs vegna ábyrgða samkvæmt 3. lið.

5. Meðan húsið er í smiðum, þó eigi lengur en næstu tvö ár, á ráðuneytið vegna ríkissjóðs að fá afsal fyrir húseigninni úr hendi hæstaréttardómarans gegn greiðslu stofnkostnaðarverðs hennar, enda verður húsið þá embættisbústaður hæstaréttardómarans, sbr. lög nr. 96 1947.“

Sams konar samningur hefur verið gerður vegna Jónatans Hallvarðssonar hæstaréttardómara.

Eins og menn sjá, var samið við þessa tvo dómara, Gissur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson, að ríkið byggi ekki yfir þá, heldur byggi þeir sjálfir yfir sig, en ríkið veiti þeim hliðstæða ábyrgð og þeir hefðu fengið, ef þeir hefðu verið í byggingarsamvinnufélagi, en þessir menn hafa ekki aðstöðu til þess.

Það þótti ekki ósanngjarnt, að ríkið greiddi fyrir því, að þessir menn gætu fengið sæmileg lán út á hús sín, en hlutur ríkissjóðs væri aftur á móti tryggður. Með þessu móti er ríkissjóður losaður við fjárútlát við að byggja yfir þessa embættismenn.

Ég vona, að þetta svar sé fullnægjandi.