09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (5389)

939. mál, embættisbústaðir dómara

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir veittar upplýsingar. Annars er það svo, að ástæðan til þess, að menn þurfa meir en ella mundi að ónáða hæstv. ráðh. með fyrirspurnum af þessu tagi, er ekki sízt sú, að eins og við vitum er útgáfa ríkisreikninga síðari ára með allt öðrum hætti en hæfilegt getur talizt, þar sem nú fyrst er verið að leggja fyrir þingið fullendurskoðaða reikninga fyrir árið 1945. Ef betra lag væri á þeim málum, gætu menn í mörgum tilfellum sparað ómak bæði sér og þeim hæstv. ráðh., sem beðnir eru um slíkar upplýsingar.

Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh., eru l. um þessa framkvæmd tiltölulega ný, og eins og hann tók fram, að mér skildist, þá var gert ýmislegt af hálfu þess opinbera í þessum efnum, áður en l. komu fram. Annars kemur það fram í svari ráðh., að til þessara framkvæmda hefur verið varið á s.l. árum meira fé en heimilað hefur verið á fjárl., þótt það hins vegar sé ákveðið í l., að framkvæmdirnar skuli miðaðar við fjárveitingu á fjárl. Ég skal nú út af fyrir sig ekki neitt um það segja, en vil benda á, að einmitt í því, hve mikið hefur verið að því gert síðustu ár að verja fé úr ríkissjóði, án þess að gert sé ráð fyrir slíkum gjöldum á fjárl., er meðal annars að leita ástæðunnar fyrir því, í hvert öngþveiti ríkissjóður er kominn með fjármál sín. Það er ekki aðeins á þessu sviði, heldur er þetta eitt dæmi af ótal mörgum um það, að mikið hefur verið um framkvæmdir og mikið fé greitt án þess, að gert hafi verið ráð fyrir því á fjárl., og hygg ég, að ekki verði komið viðunandi lagi á fjárhagsmálin, nema hér verði breytt um stefnu og farið meir eftir ákvæðum fjárl. eftirleiðis en gert hefur verið nú um skeið.