27.10.1948
Efri deild: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

14. mál, kyrrsetning og lögbann

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er tími til þess kominn, að til séu hér á landi lög um kyrrsetningu og lögbann. Þær reglur, sem um það gilda, eru frá 17. öld, ásamt síðari viðbótum frá 18. öld og fyrri hluta 19. aldar. Þessi lög eru ekki miðuð við íslenzka staðhætti og geta ekki átt til hlítar við þá. Þar að auki eru þau óljós og ekki miðuð við nútímastaðhætti, þar sem þau eru svo gömul. Ég réðst því í að fá Einar Arnórsson dr. juris til að semja frv. um þessi efni, og liggur hér fyrir ávöxturinn af því starfi. Það er, eins og ég sagði, samið af dr. juris Einari Arnórssyni og hefur svo verið athugað af mér og öðrum, og loks af borgarfógetanum í Reykjavík, sem hefur mesta reynslu í framkvæmd þessara mála. Með þessu frv. eru bæði settar reglur, fært í nútímahorf og skorið úr um ýmis vafaatriði, sem áður hafa um þetta verið. Í því er ef til vill sitt hvað, sem deila má um og betur mætti fara, því að svo er með flest mannanna verk. En ég efast ekki um, að það sé mjög mikil bót frá því, sem verið hefur. Ég vona, að ég geti í næstu viku lagt fram frv. um nauðungaruppboð, og ef það nær fram að ganga ásamt þessu og frv. um meðferð opinberra mála, þá hygg ég, að muni vera komnar verulegar bætur á okkar réttarfar frá því, sem verið hefur. Hér er um tæknilegt frv. að ræða í raun og veru, sem hv. þm., að þeim ólöstuðum, munu ekki vera fróðir um né dómbærir á. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um einstök atriði frv. Það er flókið lögfræðilegt efni og naumast á færi annarra en lögfræðinga, sem staðið hafa í framkvæmd þessara mála eða kynnt sér þau fræðilega, að segja, hver hátturinn sé beztur um þessi efni. Ég vil því leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn., og ég álit rétt, að hún afli umsagnar sérfróðra manna um málið, til þess að það verði gaumgæfilega athugað. Ég skal játa, að þó að ég hafi í allmörg ár kennt þessi fræði við háskólann, er engan veginn svo, að ég vilji taka að mér að gera grein fyrir, hvernig öllu verður í þessu efni haganlegast fyrir komið.