16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í D-deild Alþingistíðinda. (5394)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er út af þessari tilkynningu hæstv. forseta, að þessari fyrirspurn, sem er beint til hæstv. ríkisstj., geti ekki verið svarað vegna fjarvistar helmingsins af hæstv. ríkisstj., sem nú er í Ameríku. Fyrirspurnin er borin fram fyrir það löngu síðan, að hæstv. stj. hefur haft þann frest, sem nægja á að lögum, og ég veit ekki til, að ekki sé hægt að afla þeirra upplýsinga, sem þar er beðið um, svo að það er hægt að svara af hálfu þess hluta hæstv. stj., sem enn sem komið er, er eftir á Íslandi. Ég álit, að meginið af þessum fyrirspurnum muni snerta fjmrn. Ég held því, að það ætti að vera hægt að fá upplýsingar um þetta mál, og ég legg ákaflega mikið upp úr því, að það sé gert. Ég vildi þess vegna fá þær upplýsingar, sem hægt er að gefa nú, og ef það er ekki hægt, vil ég fá að vita, hvaða upplýsingar það eru, sem þeir hæstv. ráðh., sem nú eru í Ameríku, sitja einir með, svo að aðrir vita ekki um það.