16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í D-deild Alþingistíðinda. (5397)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er nú svo með þessa fyrirspurn, eins og ég tók fram áður og eins og hæstv. fjmrh. hefur nú líka fallizt á, að meginið af þessum fyrirspurnum heyra undir fjmrh., en ekki undir utanrrn. eða flugmrn. Hins vegar hef ég orðið var við í sambandi við umr., sem áður hafa orðið í sambandi við þetta mál, að utanrrn. hefur beinlínis gripið inn í og skipt sér af því, sem heyrir undir fjmrn., sem sé tollafgreiðslu vara. Það urðu mjög langar umr. um þau mál hér á þingi fyrir rúmu ári síðan, og þess vegna hef ég haldið, að þegar spurningar eru lagðar fram um þessi mál, mundi vera hægt að afgr. þær nokkuð fljótt, vegna þess að hæstv. ríkisstj, mundi hafa nokkurt eftirlit með því vegna þess aðhalds, sem hún hefur fengið frá þinginu, hvernig þessum málum er háttað. Ég hef ekki lagt fram margar fyrirspurnir í þinginu, aðeins eina aðra en þessa. Mér þykir þess vegna dálítið hart, ef það er afsakað að fresta að svara á lögmæltum tíma svona fyrirspurn, vegna þess að embættismenn rn. séu svo önnum kafnir við að undirbúa svör við öðrum fyrirspurnum. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða, hvorki meira né minna, en efndir á þeim samningi, sem gerður var við stj. Bandaríkjanna 1946. Hæstv. stj. hefur einu sinni áður átt að standa reikningsskap fyrir framkvæmdina á þessum samningi, því að hún hafði í umr. hér á þingi lofað að láta fram fara þá rannsókn á málinu, sem við á, og eftir að hæstv. utanrrh. hafði farið hraklega út úr umr., þá greip hann til þess ráðs að neita að vísa málinu til n. og lét þar með viðhafa óþinglega meðferð á slíku máli. Og þegar ég nú ber fram fyrirspurn, sem aðeins er um einfaldar upplýsingar, upplýsingar, sem í raun og veru ætti að vera hægt fyrir fjmrn. að gefa, svo framarlega sem íslenzk l., sem fjmrn. og tollstjóri eiga að sjá um að framkvæma, eru ekki brotin eftir fyrirskipun frá utanrrn. Þá kann ég illa við að fresta slíkum fyrirspurnum fyrir það, að ráðh. séu staddir í Washington. Ég held, að það hefði verið skyldara að gera skil á, hversu vel þessi samningur hefur verið haldinn, en að fara að kynna sér, hvers konar nýja samninga ætti að gera við Bandaríki Norður-Ameríku.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta, af því að hann segir úr forsetastóli, að auðvitað yrði þetta mál tekið fyrir og því svarað, hvaða tryggingu hæstv. forseti hefur fyrir því. Ég sé ekki betur, en að ákvæði þingskapa séu alveg ákveðin viðvíkjandi þessum málum. Hæstv. ríkisstj. ber lagaleg skylda til að svara þessu máli. Ég er ákaflega hræddur um, að um það leyti, sem hæstv. ráðh. koma til baka frá Washington, þá muni þeir segja við þingið, að þeir séu með mjög þýðingarmikið uppkast með sér, sem þeir vilji, að þingið ræði, og ég er ákaflega hræddur um, að þeir muni reyna að koma sér hjá að svara þessari spurningu, sem hér hefur verið lögð fram viðvíkjandi Keflavíkurflugvelli. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hæstv. fjmrh. láti sína starfsmenn rannsaka þetta mál nú þegar, þann hluta af þessum spurningum, sem heyra undir fjmrn., þannig að hægt sé að svara þessu á morgun og taka málið á dagskrá þá. Ég vil beina til hæstv. forseta, hvort hann vill verða við því.