16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í D-deild Alþingistíðinda. (5399)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Ég álit það ekki heppilegt, að það sé látið bíða í viku að svara þessari fyrirspurn. Það hefur verið tilkynnt í blöðum, að líklegt sé, að þessi helmingur ríkisstj., sem er í Ameríku, muni innan skamms koma heim með eitthvert samnings uppkast. Sem sé, þá má búast við því, að þeir muni vilja hraða þeim málum í þinginu, og ég þykist þekkja þá hæstv. ráðh., sem eru vestan hafs nú, svo vel, að ég þykist vita, að þeir muni ekki kæra sig um að ræða mikið Keflavíkursamninginn og framkvæmd á honum, meðan þetta samningsuppkast liggur fyrir þinginu. Það mun vafalaust verða sagt þá, að það liggi mikið á því máli, sem þeir koma með Ég vil því eindregið fara fram á það við hæstv. forseta, af því að hann hefur gert það áður um fyrirspurnir, að það verði haldinn fundur í Sþ. á morgun og að þessi fyrirspurn verði þá tekin fyrir og reynt, hvort ekki er hægt að fá hæstv. fjmrh. til að gefa þessar upplýsingar. Þetta eru einfaldar statistiskar upplýsingar, sem tollstjóri og skattstofan hljóta að hafa hjá sér, svo framarlega sem tollur hefur verið greiddur af þessum vörum. Ég vil því eindregið fara fram á, að þetta verði gert, ekki sízt vegna þess að hæstv. forseti hefur frestað fleiri málum, sem fyrir lágu, svo að svör fáist, áður en sá helmingur ríkisstj., sem enn er hér á landi, er floginn burt.