16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í D-deild Alþingistíðinda. (5400)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 2. þm. Reykv. virðist hafa eitthvað allt annað í huga með þessu þrætugjarna kvabbi sínu en það, sem stendur á þessu þskj. Hann hefur í orðum sínum látið falla ásakanir í garð hæstv. utanrrn. um ágengni inn á stjórnarsvið annarra. Í sömu andránni leggur hann áherzlu á, að þetta mál sé rætt áður en sá hæstv. ráðh. sé viðstaddur, sem ætti þá að svara til sakar. Það getur verið þægilegt frá hálfu hv. 2. þm. Reykv. að hafa þessa málfærslu, en mér finnst hún einkennileg, af því að hann hefur dregið fram í umr., að hér sé um einhverja sök að ræða hjá hæstv. utanrrh., og leggur mikla áherzlu á, að málið sé rætt og því svarað, án þess að hæstv. ráðh. sé viðstaddur. Ég ætla, að þetta sé nokkuð augljós þingræðisleg glompa hjá hv. þm. Í þingsköpum er gert ráð fyrir, að fyrirspurnum sé svarað, en ég sé ekki, að þau banni, að þeir, sem eiga að svara, fái tóm til athugunar og undirbúnings. Á þessari fyrirspurn hefur enginn óeðlilegur dráttur orðið og eðlilegt, að svör liggi ekki fyrir hendi. Það stappar nærri frekju af hv. 2. þm. Reykv. að fara fram á, að þingið taki þetta mál á dagskrá á morgun, þegar það liggur fyrir, að málið er ekki fullundirbúið enn. Ég veit, að hann er það greindur maður, að hann sér, að sá frestur er svo stuttur, að ekki væri hægt að láta fram fara nema mjög handahófslega athugun á öllum þessum liðum, og þeir snerta ekki heldur allir fjmrn., þótt sumir þeirra geri það.