06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (5409)

160. mál, aðflutningar til Keflavíkurflugvallar o.fl.

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. 6. liður fyrirspurnarinnar á þskj. 442 mun heyra undir félmrn., það er að segja það, sem varðar, hvort Bandaríkjamenn hafi hér húsnæði á leigu. Sem svar við þessari fyrirspurn get ég vitnað til rannsóknar, sem farið hefur fram um húsnæði Bandaríkjaþegna hér í bænum. Var þessi athugun gerð vegna ummæla tveggja blaða og hlutaðeigandi blaðamenn látnir gefa þær upplýsingar, sem þeir byggðu málflutning sinn á. Héldu þeir því fram, að um væri að ræða sex hús í bænum, sem Bandaríkjaþegnar byggju í án leyfis. Við nánari athugun kom í ljós, að eitt þessara húsa er ekki til, eitt er eign konu, sem gift er Bandaríkjamanni, í tveimur þeirra hafa aldrei búið Bandaríkjamenn, eitt er notað til hótelrekstrar, og þar bjó Bandaríkjamaður í einu herbergi, og í einu bjó Bandaríkjamaður ásamt íslenzkri konu sinni og dóttur. Þetta er niðurstaðan í þessu máli, og hefur húsaleigunefnd ekki getað fengið betri upplýsingar.