06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (5431)

167. mál, ríkisframlag til rekstrar nokkurra skóla

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessari fyrirspurn er fjmrh. ætlað að svara, og mun ég leitast við að leysa úr því, sem óskað er, eftir minni beztu getu. Svör mín eru miðuð við skólaárið 1947, og er reiknað út, hvað hver nemandi kostar ríkið á þessu skólaári, miðað við meðalkostnað á nemanda í þeim skóla, sem hann stundar nám við. Stofnkostnaður skólanna er ekki reiknaður með.

Meðalkostnaður við hvern nemanda við háskólann er 3.888 kr., við Menntaskólann í Rvík 2.500 kr., við Menntaskólann á Akureyri 2.600 kr., við bændaskólann á Hvanneyri 8.000 kr., við stýrimannaskólann 2.500 kr., við kennaraskólann 4.000 kr., við Eiðaskóla 2.700 kr., við Núpsskóla 1.000 kr., við Laugarvatnsskóla 1.300 kr., við Flensborgarskóla 1.700 kr., við Gagnfræðaskólann á Ísafirði 1.200 kr. Kvennaskólinn í Reykjavík er með 162 nemendur. Heildarkostnaður er 97.200 kr. Meðalkostnaður fyrir hvern nemanda er 600 kr. Húsmæðraskólinn í Reykjavík telur 90 nemendur. Heildarkostnaður er 60.302 kr. Meðalkostnaður fyrir hvern nemanda er 670 kr. Húsmæðraskólinn á Laugum hefur 18 nemendur. Heildarkostnaður 57.081 kr. Meðalkostnaður á nemanda 3.171 kr. Iðnskólinn í Reykjavík hefur 854 nemendur. Heildarkostnaður er 124.500 kr. Meðalkostnaður á nemanda er 145 kr.

Hér er víst fylgt þeirri röð, sem var í fyrirspurninni. Þess skal getið, að í þeirri skýrslu, sem ráðuneytið útfyllti, hefur ekki verið sundurliðaður kostnaður við háskólann eftir deildum, heldur tekinn í heild. Ef hv. fyrirspyrjandi óskar slíkrar sundurliðunar, t.d. fyrir sig sjálfan, er sennilega hægt að leggja hana fram. Ég skal játa, að mér var ekki afhent nein skýring á því, hvers vegna var ekki fylgt því fyrirkomulagi, sem í fyrirspurninni er, að taka hverja deild út af fyrir sig.

Af þessari skýrslu sést, að Iðnskólinn í Rvík hefur tekið langminnst fé á hvern nemanda úr ríkissjóði allra skóla þeirra, sem hér er um að ræða. Hins vegar það, að bændaskólinn á Hvanneyri er hæstur. Þegar tillit er tekið til aths., sem fylgir, um viðhaldskostnaðinn, er hann með um 8 þús. kr. á hvern nemanda. Þessu næst koma kennaraskólinn og Húsmæðraskólinn á Laugum. Aftur er svipaður kostnaður á nemanda í Núpsskóla, Laugarvatnsskóla, Flensborgarskóla og Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Og ekki er mikill munur á kostnaði á nemanda í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum á Akureyri og hins vegar Eiðaskóla.

Ég ætla, að með því, sem hér hefur verið fram talið, sé þessari fyrirspurn svarað. Læt ég útrætt frá minni hálfu um málið með tilvísun til þeirrar aths., sem ég beindi aðallega til hv. fyrirspyrjanda varðandi kostnað við hverja deild háskólans.