24.01.1949
Efri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

14. mál, kyrrsetning og lögbann

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Því er þannig farið með þetta mál, að það hefur legíð nokkuð lengi fyrir þessari hv. d., og er í raun og veru nauðsynlegt að koma því til hv. Nd. Þegar málið var hér til 2. umr., hreyfði hæstv. dómsmrh. athugasemdum varðandi 6. og 7. lið á þskj. 159 og taldi, að í rauninni væri réttara, að frv. væri óbreytt hvað þá snerti. En aftur á móti álitum við nm. að athuguðu máli og leggjum til, að breytingar verði gerðar samkvæmt þessum liðum á frv. og þeim verði nú skotið undir atkvæðagreiðslu. Það er í raun og veru mjög lítill ágreiningur, sem um er að ræða, en þó töldum við þetta til bóta.

Hvað a-lið 6. brtt. á þskj. 159 viðvíkur, þá töldum við, að ef beðið væri um kyrrsetningu, jafnvel þótt sýslumaður eða fógeti synjaði þeirri beiðni, þá gæti sú beiðni orðið viðkomandi manni til miska, t.d. valdið lánstraustsspjöllum, þótt sýslumaður eða fógeti neitaði að framkvæma slíka beiðni. Því töldum við réttara að leggja til að þessi liður yrði samþykktur. — Varðandi b-liðinn held ég, að ekki séu skiptar skoðanir að ráði. Ef maður á að fá miskabætur fyrir lánstraustsspjöll, og ef hann fellur frá, áður en þær bætur eru greiddar, þá er eðlilegt, að um þær bætur fari eins og aðrar skaðabætur eða réttarkröfur, sem dánarbúið á rétt á.

Þá kem ég að 7. brtt, á þskj. 159, sem fjallar um það, að um bætur fyrir miska og lánstraustsspjöll sakir lögbanns fari eins og um slíkar bætur vegna kyrrsetningar. Við töldum, að varðandi lögbann gæti í raun og veru verið svipað ástatt og um kyrrsetningu, miski og lánstraustsspjöll væru lík í báðum tilfellum eða lítill munur þar á.

Ef ekki er talið líða á löngu, að hæstv. dómsmrh. komi aftur, ef hann er þá kominn af stað til útlanda, þá væri kannske rétt að bíða með afgreiðslu þessa máls, svo að honum gefist kostur á að eiga þar hlut að máli. En mér virtist hann ekki gera þessi atriði að neinu kappsmáli hér við 2. umr., og verður þá að skeika að sköpuðu um það, hvernig hv. d. afgreiðir málið. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. dómsmrh. hafi verið meira áfram um, að frv. þetta næði fram að ganga, en að þessi smáatriði yrðu til að tefja nokkuð fyrir því, og vildi ég því leggja til, að það yrði nú afgreitt, ef enginn hv. dm. hefur neitt á móti því. Ég læt því kylfu ráða kasti með þetta, ég veit ekki, hvort hæstv. dómsmrh. er farinn, en hann hefur a.m.k. ekki talað neitt við nefndina um þetta.