06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í D-deild Alþingistíðinda. (5455)

943. mál, olíutankar á Keflavíkurflugvelli

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Um þau atriði, sem fyrirspurnin fjallar um, hefur mér borizt eftirfarandi skýrsla frá flugráði, dagsett 29. marz s.l.:

„1. Fram að 1. sept. 1947 var benzín í eigu bandarísku ríkisstj. á geymunum á Keflavikurflugvelli. Samkvæmt samningi milli eiganda benzínsins og olíufélagsins Intava tók sá síðarnefndi að sér að afgreiða það á flugvélar, er um völlinn fóru. Umboðsmenn Intava var Hið íslenzka steinolíufélag. Um þann 1. sept. 1947 var látið benzín á geymana, sem var eign Olíufélagsins h.f., og hefur félag það síðan haft á hendi afgreiðslu flugbenzíns til allra flugvéla, er um völlinn hafa farið. Sérstakur samningur er milli Esso Export Corporation og bandarísku ríkisstj. um það, að það félag eða umboðsmenn þess hér (OIíufélagið h.f.) afgreiði benzín á allar flugvélar á vegum bandarísku ríkisstj., er um Keflavíkurflugvöll fara.

Ætlazt er til, að Olíufélagið greiði leigu eftir geymana frá þeim tíma, að þeirra eigið benzín var látið á þá, þ.e. frá 1. sept. 1947.

2. Alls eru 12 benzíntankar við flugvöllinn. 11 þeirra eru nothæfir. Samtals taka þeir tankar, sem nothæfir eru, um 2.600 tonn af flugbenzíni.

Eigi hefur enn verið greidd nein leiga eftir tankana, en samningar standa yfir um hana. Ég skal skjóta því hér inn í skýrsluna, að enn hefur ekki alveg verið gengið frá, hve há leigan verður, en þegar er búið að greiða nokkra tugi þúsunda upp í það, og mun ég upplýsa það, ef hv. þm. óskar eftir því.

3. Þar eð ofangreindir 12 tankar eru allir í einu kerfi og aðeins ein leiðsla frá þeim til sjávar, er ekki hægt að láta fleirum en einum aðila í té afnot þeirra. — Hér vil ég bæta því við, að flugmálastjóri hefði helzt viljað skipta þessu niður, svo að fleiri félög hefðu getað haft afnot af þeim.

Olíuverzlun Íslands h.f. hefur nýlega komið fyrir 50 tonna tanka á flugvellinum og mun afgreiða af honum á flugvélar, ef sérstaklega er óskað eftir benzíni frá því félagi.

5 hráolíugeymar eru einnig við flugvöllinn, og eru þeir notaðir undir brennsluolíu Bandaríkjamanna þar á staðnum.

Fylgiskjal endursendist.

F. h. flugráðs

Haukur Claessen.

Til flugmálaráðuneytisins.“

Ég hygg, að ég geti ekki svarað þessu betur á þessu stigi málsins, þ.e. um leiguna, en vona að geta upplýst hv. þm. um það, ef hann óskar þess sérstaklega.