06.04.1949
Sameinað þing: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í D-deild Alþingistíðinda. (5466)

945. mál, kvikmyndahús háskólans

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Þetta er allglögg skýrsla, svo langt sem hún nær, og til bóta að hafa fengið hana. En það er óneitanlega mikill tilkostnaður, að ágóði skuli ekki vera nema 270 þús. kr., þegar tekjur eru 900 þús. kr. Enn fremur eru það allmikil aukalaun fyrir mann, sem er á fullum launum, auk rannsóknarstofunnar, að hafa 14 –15 þús. kr. fyrir þetta starf, enda hefur rektor átt þátt í því að breyta þessu og láta próf. Dungal hætta þessu starfi. Um það atriði, sem rektor vildi ekki svara, gerir ekki svo mikið til, því að það upplýsist vafalaust öðruvísi. Mér er kunnugt um og mun skýra borgurunum frá því, hve mikið þessi stofnun skaðar önnur kvikmyndahús með óhæfilegum yfirboðum. Þetta er athugavert fyrir hæstv. ráðh. og sýnir, hvernig ríkisrekstur notar skattfrelsi sitt til óleyfilegra yfirboða. — Ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir þessar upplýsingar og mun bæta við þær síðar.