20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í D-deild Alþingistíðinda. (5485)

947. mál, stöðuveitingar við atvinnudeild háskólans

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Í sambandi við þær spurningar, sem hér liggja fyrir og heyra undir mitt ráðuneyti, hef ég leitað til atvinnudeildar háskólans og fengið svör við fsp. á þskj. 531. Þessum svörum fylgdi eftirfarandi bréf frá Pálma Péturssyni:

„Bréf yðar dags. 11. þ. m. móttekið. Vér leyfum oss hér með að senda yður svör við fyrirspurnum á þskj. 531.

Í sambandi við svörin er rétt að taka fram: 1) Fyrirspurn nr. 1 og 3 höfum vér leyft oss að svara í einu lagi, þar sem oss er ekki ljóst, hvernig á að skipta sérfræðingum stofnunarinnar í vísindamenn og fræðimenn, og höfum því svarað báðum spurningunum með því að telja upp þá sérfræðinga, sem vinna við hverja deild.

2) Vér höfum leitað umsagnar deildarstjóra viðvíkjandi spurningum nr. 5, og fylgir hjálagt svar þeirra, ásamt svari frá sérfræðingi Sig. Péturssyni.

Virðingarfyllst

Pálmi Pétursson.

Til atvinnumálaráðuneytisins, Reykjavík.“

Hér fara á eftir svörin:

Svar við 1. og 3. lið.

Iðnaðardeild: deildarstjóri Gísli Þorkelsson ráðinn 1946

aðrir Jón E. Vestdal — 1937

sérfræðingar Bjarni Jósefsson — 1937

Sig. Pétursson — 1937

Tómas Tryggvason — 1947

Óskar Bjarnason — 1945

Haraldur Ásgeirsson — 1946

Jóhann Jakobsson — 1946

Búnaðardeild:

deildarstjóri Halldór Pálsson — 1944

aðrir Björn Jóhannesson — 1945

sérfræðingar Áskell Löve — 1945

Pétur Gunnarsson — 1939

Ingólfur Davíðsson — 1937

Geir Gígja — 1937

Kristín Kristjánsdóttir — 1948

Fiskideild:

deildarstjóri Árni Friðriksson — 1937

aðrir Hermann Einarsson — 1945

sérfræðingar Jón Jónsson — 1947

Unnsteinn Stefánsson — 1948

Hr. bónda Jakob Líndal er greitt á vegum búnaðardeildarinnar styrkur til rannsóknarstarfa, grun Þar að auki við sameiginlega stjórn stofnunarinnar ritari, 2 skrifstofustúlkur, viðgerðarmaður og húsvörður.

Svar við 4. lið:

Skv. reikningi atvinnudeildarinnar fyrir árið 1948 var kostnaður sem hér segir:

Svar við 2. Lið.

Við iðnaðardeild vinna 1 aðst.m., 5 aðst.st.

— fiskideild - 2 - 4

— fjörefnarannsóknir 1

4 aðst.m. 9 aðst.st.

a) Laun skv. launaskrá, er fylgdi ársreikningi 1948

Fastráðið

starfsfólk Lausafólk

Iðnaðard. .............. kr. 3.20591.48 13957.80 — 334549.28

Búnaðard. .............. – 2.10900.00 7458.00 — 218352.00

Fiskid. ................ — 1.96133.26 8150.00 — 214283.26

Sam. kostn. ............ – 82468.75 5962.50 — 88431.25

Fjörefnar. .............. — 26000.00 — 26000.00

kr. 881621.79

b) Húsaleiga, ...................................................... 35330.00

rafmagn, gas, ljós ................................................26316.60

— 61646.60

c) Ferðakostnaður:

Fiskid. erl. ferðakostn. .......... … Kr. 23320.75

innl. .......................................... — 32220.08

55540.83

Búnaðard. erl. ferðakostn. ......... — 5100.08

innl. ....................................... — 28370.48

33470.58

89011.41

d) Annar kostn. skv. reikn. 1948:

Iðnaðard.: Gjöld .................... — 113924.03

Tekjur ................... — 223005.39

109081.36

Búnaðard.: Gjöld ................. — 111208.72

Tekjur ................. — 33584.87

77623.85

Fiskid.: Gjöld ..................... — 122039.87

Kostn. v/flutninga …………. — 88748.17

Hafrannsóknir .................. — 508646.28

Rekstrarhalli Hestsbúsins ................................ 719433.70

—————– Engeyjarbúsins ........................... 78103.59

- Úlfarsárbúsins .............................................. 24132.32

Fjörefnarannsóknir .......................................... 64278.91

Kostn. v/undirbúnings sem.verks 8778.07

Sam. kostn.:

Gjöld ................................................. — 84658.88

Tekjur af Happdrætti Háskóla Íslands — 103545.00

Tekjur af sparisjóðsinnst. ................. — 4995.03

23881.15

— 876543.32

Rekstrarhalli samtals kr. 1908823.12

Framlag ríkissjóðs 1948 ......................................... kr. 2031595.72

- ágóðahluti af happdrætti Háskóla Íslands.. 103545.00

- Matvælaeftirlitið ...................................... 86320.00

189865.00

Fasteignamat Engeyjar fært til jafnaðar….. 1841730.72

Mism. fasteignamats Eyrargötu 8, Siglufirði 51100.00

áhvílandi veðláns fært til jafnaðar……. 2350.00

1895180.72

Eignarýrnun á árinu 1948 ............................................ 13642.40

Kr. 1908823.12

Hér kemur svo svar iðnaðardeildar við spurningunni:

„Hefur orðið sýnilegur árangur af starfi deildarinnar eða einstakra vísindamanna, sem starfa þar, og í hverju er sá árangur fólginn?“

Verksvið iðnaðardeildar er fjölþætt, en í framkvæmd má skipta því í tvo meginþætti, þ.e.:

I. Rannsókn á aðsendum sýnishornum.

II. Sjálfstæð rannsóknarefni.

I. Rannsóknir á aðsendum sýnishornum hafa hingað til krafizt meginhluta starfskrafta deildarinnar. Þessar rannsóknir eru fyrst og fremst þjónusta í þágu iðnaðarins og annarra verklegra framkvæmda í landinu. Hinn sýnilegi árangur af þessum rannsóknum kemur að jafnaði ekki almenningi fyrir sjónir, og verða þær því að metast eftir þörfinni fyrir slíkar rannsóknir og hvernig henni er fullnægt. Stöðugur vöxtur iðnaðar og annarra verklegra framkvæmda undanfarið gerir vaxandi kröfur til þessa hluta starfseminnar. Eftirfarandi flokkun á aðsendum sýnishornum getur gefið nokkra hugmynd um nauðsyn og gildi þessara rannsókna:

1. Almennar efnarannsóknir:

a) Fóðurefnarannsóknir, gerðar fyrir búnaðardeild í sambandi við fóðurtilraunir og fóðureftirlit eða fyrir tilraunastöðina á Sámsstöðum í sambandi við ræktunartilraunir o.fl.

b) Efnarannsóknir á útflutningsafurðum, svo sem síldarmjöli, síldarlýsi og fiskimjöli til útflutnings. Þess er jafnaðarlega krafizt í samningum, að vottorð frá opinberri efnarannsóknarstofnun fylgi hverjum farmi.

c) Vatnarannsóknir, ýmist á vatni til neyzlu eða iðnaðar. Deildin hefur m.a fylgzt með ketilvatni varastöðvarinnar við Elliðaár frá byrjun hennar.

d) Rannsóknir á eldsneyti, benzíni og smurningsolíu, sem hafa vaxandi þýðingu vegna flugsins og aukins vélakosts í landinu.

e) Rannsóknir fyrir yfirvöldin í sambandi við sakamál og slysfarir.

f) Ýmsar rannsóknir, svo sem á hráefnum til iðnaðar, salti, frostvara á bíla o.fl., verzlunarvörum, auk ýmiss konar ráðgjafastarfsemi.

2. Gerla og mjólkurrannsóknir. (Sjá greinargerð Sig. Péturssonar.)

3. Matvælarannsóknir. Varðandi matvælarannsóknir, sem framkvæmdar eru vegna matvælaeftirlitsins, verður að vísa til landlæknis eða heilbrstj.

4. Byggingarefnisrannsóknir.

a) Rannsókn á möl og sandi til byggingar. Byggingarefni með röngum hlutföllum á milli kornastærða eru óheppileg eða óhæf til notkunar. Einföld rannsókn gefur til kynna, hvers konar efnum eigi að blanda saman til þess að fá þau góð.

b) Prófun á brotþoli steinsteypu. Með stöðugu eftirliti með brotþoli steypu má koma í veg fyrir, að of veikt sé byggt.

c) Rannsókn á bindiefnum til byggingar og vegagerðar.

d) Rannsókn á steinefnum til byggingar og vegagerðar.

e) Rannsókn á einangrunarefnum.

f) Ráðgjafastarfsemi í þágu byggingariðnaðarins.

5. Jarðfræðirannsóknir.

a) Borkjarnarannsóknir fyrir jarðboranir ríkisins, einkum í sambandi við boranir eftir heitu vatni og gufu.

b) Jarðfræðilegar rannsóknir í sambandi við jarðgöng við Sogsvirkjunina.

c) Jarðfræðileg ráðgjafastarfsemi.

Il. Sjálfstæð rannsóknarefni:

1. Innlend einangrunarefni.

Kerfisbundnar mælingar á einangrunarhæfileika og styrkleika innlendra einangrunarefna. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa verið notaðar við framleiðslu á einangrunarefnum hér.

2. Manneldisrannsóknir.

Auk matvælarannsókna vegna heilbrigðiseftirlitsins hefur iðnaðardeild gert efnarannsóknir á matvælum fyrir manneldisráð, og voru niðurstöður þeirra notaðar við rannsókn á mataræði Íslendinga.

3. Neftóbaksgerð.

Árið 1940 voru í iðnaðard. gerðar tilraunir með vinnslu neftóbaks, er líktist neftóbaki frá Brödrene Braun, með þeim árangri, að sama ár var hafin framleiðsla á innlendu neftóbaki að fyrirsögn forstjóra iðnaðardeildar. Stríðsárin var allt neftóbak framleitt hér á landi, og eftir stríðið var því haldið áfram, þar sem bæði líkaði íslenzka neftóbakið betur en það innflutta og var ódýrara. Líklegt er, að beinn hagnaður ríkissjóðs af neftóbaksgerðinni frá byrjun hafi numið milljónum króna, auk mikils gjaldeyrissparnaðar.

4. Hraðfrystur fiskur.

Ýmis vandamál í sambandi við fiskfrystingu og geymslu á hraðfrystum fiski hafa verið tekin fyrir og rannsökuð eða leyst í samvinnu við fiskmatið.

5. Hvera- og laugavatn.

Kerfisbundnar rannsóknir á hveravatni hafa verið framkvæmdar á vatni úr nær öllum helztu hverasvæðum landsins. Niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir í handriti að skýrslu iðnaðardeildar fyrir árið 1945–1946.

6. Kennsla við háskálann.

Árin 1937–46 var kennsla í efnafræði framkvæmd af forstjóra iðnaðardeildar, auk annarra starfa við deildina.

7. Mórannsóknir.

Víðtækar rannsóknir hafa verið gerðar á hitagildi og öskuinnihaldi í mó sunnan- og vestanlands. Rannsóknir þessar voru gerðar fyrir Rannsóknaráð ríkisins.

8. Sementsverksmiðja.

Undirbúningur að byggingu sementsverksmiðju hefur verið framkvæmdur af starfsmönnum iðnaðardeildar. Í því sambandi vísast til grg. með frv. til l. um sementsverksmiðju s.l. ár.

9. Lýsisherzluverksmiðja.

Undirbúningur að byggingu lýsisherzluverksmiðju var fyrst hafinn í iðnaðardeild. Árið 1947, er sá undirbúningur var allvel á veg kominn, var stjórn Síldarverksmiðja ríkisins falið að halda honum áfram. Gögn öll varðandi þetta mál voru þá afhent stjórn síldarverksmiðjanna.

10. Biksteinn.

Bráðabirgðaathugun hefur farið fram á því, hvort biksteinn finnist hér á landi, og hefur hann fundizt á Austurlandi. Undirbúningur er hafinn að rannsókn á magni hans og útbreiðslu næsta sumar. Biksteinn getur orðið mikil útflutningsvara, ef nægilegt magn finnst og er aðgengilegt.

11. Heklurannsóknir.

Efnarannsóknir voru gerðar á ýmiss konar gosefnum úr síðasta Heklugosi. Hafa m.a. fengizt allgóðar upplýsingar um, hvernig flúor breiðist út af völdum gossins. Niðurstöður verða birtar ásamt öðrum gögnum, sem aflað hefur verið um þetta gos.

12. Niðursuðumat.

Frjálst mat á niðursuðuvörum til útflutnings hefur verið framkvæmt á meiri hluta þeirra niðursuðuvara, sem fluttar hafa verið út síðan í ársbyrjun 1948.

Atvinnudeild Háskólans,

lðnaðardeild.

Gísli Þorkelsson.

Gerla- og mjólkurrannsóknrir.

A) Aðsend sýnishorn 15/9–31/12 1948:

8.679 sýnishorn, mest vegna mjólkureftirlitsins. Um árangur þeirra rannsókna vísast til þeirra, sem eftirliti þessu stjórna.

B) Sjálfstæðar rannsóknir. Helztu viðfangsefni:

1. Rannsakaður gerlagróður skyrsins, gerður hreinræktaður þéttir til skyrgerðar og skyrgerðaraðferðir endurbættar.

2. Fundin orsök að málmbragði að gerilsneyddu mjólkinni í Reykjavík.

3. Gerðar efnarannsóknir á íslenzkri kúamjólk og fylgzt með breytingum á efnasamsetningu hennar í heilt ár.

4. Gerðar athuganir á kalsíum- og fosfórmagni í íslenzku kúafóðri með tilliti til sjúkdóms í kúm, er einkum gerði vart við sig í Eyjafirði.

5. Prófaðar ýmsar aðferðir við votheysgerð, m.a. reynt að bæta í heyið mysu og maís.

6. Rannsakaður gerlagróður í nýveiddum þorski og síld. Niðurstöður rannsóknanna hafa verið birtar í skýrslum iðnaðard. 1938–1944 og í eftirtöldum ritgerðum:

Die Milshwirtschaft auf Ísland (MolkereiZeitung Hildesheim 52. nr. 17 1938).

Málmbragð af mjólk (Freyr 34. bls. 110. 1939). Die Míkroben im islöndischen Speisequark

(skyr) (Vorratspflege und Lebensmittelforschung Band III, S 122. 1940).

Um skyr og skyrgerð (Freyr 35. bls. 146. 1940). Kalzium und Phosphor im Futter isländischer Milchkühe (Greinar II, 2., Afmælisrit Vísindafélags Íslendinga 1943).

Votheysgerð (Tímarit V.F.Í. 28. ár. bls, 46. 1944).

Gerlar í fiski (Ægir bls. 242. 1944).

Saltkærir gerlar valda skemmdum (Tímarit V.F.Í. 31. ár. bls. 11. 1946).

Die Herkunft der Milchsäurelangstäbchen des isländisehen Speisequarks (Acta Naturalia Islandica Vol. I, No. 5. 1946).

Votheysgerð (Freyr 42, bls. 251. 1947). Gerlarannsóknir á nýjum þorski (Tímarit V.F. Í. 32. árg. bls. 72. 1948).

Sigurður Pétursson.

(sign)

Búnaðardeild. Svar við spurningunni: „Hefur orðið sýnilegur árangur af starfi deildarinnar eða einstakra vísindamanna, sem starfa þar, og í hverju er þá fólginn sá árangur?“ Það er ekki unnt að gefa fullnægjandi svör við þessari spurningu nema með langri ritgerð, því að viðfangsefni deildarinnar eru svo fjölbreytt. Reynt verður hér að stikla á helztu atriðunum.

Með l. nr. 64 frá 1940, um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins, er búnaðardeildinni ætlað að vinna að eftirtöldum verkefnum: Jarðvegsrannsóknum, jurtakynbótum og frærannsóknum, jurtasjúkdómarannsóknum, fóðurrannsóknum og fóðurtilraunum, búfjárkynbótum og búfjársjúkdómarannsóknum. Með l. um tilraunastöð háskólans í meinafræði voru búfjársjúkdómarannsóknirnar leystar frá búnaðardeildinni.

Þótt atvinnudeild háskólans væri vígð 1937, tók búnaðardeildin lítt til starfa fyrr en á árunum 1944 og 1945. Aðeins einn sérfræðingur réðst að deildinni 1937 og annar 1939, sá fyrrnefndi til að annast rannsóknir á jurtasjúkdómum og sá síðarnefndi til þess að vinna að fóðurtilraunum og fóðurrannsóknum. Á árunum 1944 og 1945 réðust svo að deildinni þrír sérfræðingar í eftirtöldum greinum: búfjárkynbótum, jarðvegsrannsóknum, jurtakynbótum og frærannsóknum. Auk þess var skordýrafræðingur fluttur frá fiskideild til búnaðardeildar árið 1945 og hefur unnið þar síðan Þessir sérfræðingar hafa allir komið að tómum kofunum, ef svo mætti að orði komast. Alla aðstöðu og áhöld til tilraunastarfsemi og vísindaiðkana vantaði í fyrstu. Alþ. og ríkisstj. hafa sýnt málefnum stofnunarinnar mikinn skilning og veitt fé til uppbyggingarstarfseminnar smátt og smátt. Hefur því skapazt smám saman allgóð vinnuaðstaða fyrir flestar greinar þeirrar starfsemi, sem deildin á að hafa með höndum, og er hún nú allvel búin tækjum. En það hefur tekið sérfræðinga deildarinnar mikinn tíma að skapa þessa vinnuaðstöðu með því að fá tæki í rannsóknarstofurnar og koma upp tilraunabúum o.fl. o.fl.

Viðfangsefni búnaðardeildarinnar eru flest þess eðlis, að það þarf að vinna að þeim í mörg ár áður en endanlegar niðurstöður koma í ljós. Allar ræktunartilraunir jurta og dýra eru í þessum flokki. Annar flokkur viðfangsefnanna er þannig, að árangur kemur í ljós á fáum árum, t.d. ýmsar fóðurtilraunir o.fl. Þriðji flokkur viðfangsefnanna gefur hins vegar hagnýtan árangur þegar í stað, t.d. ef erlent meindýr berst til landsins með vörum og tekst að hindra útbreiðslu þess, eftirlit með fóðurvörum o.fl.

1. Jurtasjúkdómarannsóknir.

Árið 1947 kom út á vegum búnaðardeildar ýtarleg skýrsla um niðurstöður á rannsóknum á jurtasjúkdómum og vörnum gegn þeim, sem unnið hefur verið að við deildina á árunum 1937–1946, Rit landbúnaðardeildar A-Flokkur Nr. 2.

Árangur þessara rannsókna er meðal annars í því fólginn, að fengizt hefur þekking á því, hvaða jurtasjúkdómar eru til í landinu á helztu nytjajurtum, hve útbreiddir þeir eru, hve miklu tjóni þeir valda og hvort þeir eru gamlir og landlægir eða nýkomnir til landsins. Enn fremur hafa verið gerðar tilraunir með varnir gegn þessum sjúkdómum, bæði með notkun lyfja og með því að finna með tilraunum ónæmustu afbrigði jurtanna, t.d. kartöflunnar.

Rannsóknirnar hafa leitt í ljós:

A. Að þótt margir jurtasjúkdómar séu hér í landinu, þá eru þeir mun færri en t.d. í nágrannalöndum okkar. Er því ástæða til þess að herða á eftirlitinu með innflutningi jurta, enda hefur það verið gert fyrir atbeina deildarinnar.

B. Jurtasjúkdómar valda hér verulegu tjóni á flestum nytjaplöntum.

C. Flestir sjúkdómar á útijurtum eru útbreiddir um allt land, en aðrir, t.d. kálmaðkur og kálæxli, eru á takmörkuðum svæðum.

D. Á innijurtum eru ýmsir sjúkdómar, sem aðeins gætir innanhúss, og eru þeir aðallega bundnir við gróðurhúsin.

Varnir gegn kartöflusjúkdómum.

A. Gerðar hafa verið rannsóknir á notkun varnarlyfja gegn kartöflumyglu og fundinn heppilegasti úðunartími, með þeim árangri, að draga má úr tjóninu úr 20–40% niður í 1/2–2%. Þessi vörn gerir kartöfluræktina margfalt öruggari atvinnugrein en ella og getur sparað þjóðinni stórfé á mygluárum. Ýmis kartöfluafbrigði hafa reynzt mun ónæmari fyrir þessari skæðu veiki en önnur.

B. Varnir gegn stöngulveiki hafa reynzt í því fólgnar að nota ósjúkt útsæði og taka stöngulsjúk grös burt úr görðum.

Varnir gegn sjúkdómum á rófum og káli.

A. Rannsökuð hafa verið ýmis varnarlyf gegn kálmaðkinum. Varptími kálflugunnar hér á landi hefur verið rannsakaður og annað í sambandi við lifnaðarhætti hennar, sem nauðsynlegt er að vita í sambandi við varnir gegn henni. Úðun á blómkáli minnkar skemmdirnar úr 90% í 1.–5% og á hvítkáli úr 50% í 0–2%. Nú er verið að reyna D. D. T. lyf gegn þessum vágesti.

Varnir gegn sjúkdómum, í gróðurhúsum. Varnir hafa verið reyndar gegn ýmsum sjúkdómum í gróðurhúsum, t.d. gegn rótarormum með allgóðum árangri. Einnig hafa verið reyndar ýmsar varnir gegn sjúkdómum jurta og trjáa í skrúðgörðum, með góðum árangri.

Sérfræðingur deildarinnar í jurtasjúkdómum hefur einnig unnið mikið starf við leiðbeiningar í þessum efnum. Hann hefur meðal annars ritað 20–30 leiðbeinandi greinar um jurtasjúkdóma og varnir gegn þeim í blöð og tímarit og flutt marga fyrirlestra í útvarp um þessi mál. Einnig hefur hann ritað bókina „Plöntusjúkdómar,“ er búnaðardeildin gaf út, og ásamt skordýrafræðingi deildarinnar ritað bókina „Jurtasjúkdómar og meindýr“, sem gefin var út af deildinni 1947. Hann hefur einnig unnið mikið að grasafræðirannsóknum.

11. Skordýrarannsóknir.

Skordýrafræðingur hefur unnið við búnaðardeildina síðan 1945. Hefur hann í því sambandi lagt sérstaka stund á að rannsaka útbreiðslu og skaðsemi ýmissa meindýra meðal skordýranna, sem valda tjóni á gróðri, í matvælum, á fatnaði, húsgögnum, húsum, í innfluttum trjáviði, og skordýra, sem ásækja fólk, svo sem veggjalýs, húsflugur og fleiri þess konar dýr, sem eru hættulegir smitberar. Skordýrafræðingurinn hefur þráfaldlega stöðvað útbreiðslu skaðsemdarskordýra áður óþekktra hér, sem borizt hafa til landsins. Þannig hafa 9 trjábukkategundir, en það eru skaðsemdarbjöllur í trjáviði, enn ekki náð útbreiðslu hér á landi, því að þeim hefur stöðugt verið útrýmt strax og þeirra hefur orðið vart. Nú síðast fyrir skömmu kom trjáviður hingað til lands morandi af bjöllutegund, svo nefndum blóðbæk, og varð að grípa til gasbrælu til útrýmingar. Á sama hátt hefur útbreiðsla á skaðsemdardýrum í matvælum, fatnaði o. fl. verið stöðvuð strax og þeirra hefur orðið vart, svo að þau hafa ekki náð að ílendast hér. Þar á meðal eru 3 .tegundir af tínusbjöllum, sem eru stórskaðlegar og auk þess ertubjöllur, hrísgrjónabjöllur o.fl.

Einnig hefur skordýrafræðingur deildarinnar stöðugt haft á hendi leiðbeiningastarfsemi fyrir almenning varðandi skaðsemdarskordýrin og varnir gegn þeim. Hann hefur í því sambandi haldið mörg útvarpserindi, skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og ritað bækur, svo sem bókina „Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim“, og ásamt með magister Ingólfi Davíðssyni skrifað bókina „Jurtasjúkdómar og meindýr“, eins og áður er frá sagt.

Áður en skordýrafræðingurinn tók til starfa við búnaðardeildina, vann hann á vegum fiskideildar, einkum að rannsókn á dýralífi og átu í vötnum hér á landi. Hefur hann skrifað ritgerðir og bækur um þær rannsóknir.

111. Fóðurrannsóknir og fóðurtilraunir.

A. Gerðar hafa verið meltanleikarannsóknir á mörgum sýnishornum af íslenzku heyi með misjafnri verkun, til þess að finna fóðurgildi þess. Var það nauðsynlegt vegna þess, að fóðurgildi heys hér á landi er allt annað en í nágrannalöndum okkar og nauðsynlegt að vita um gildi heysins vegna allra leiðbeininga um fóðrun búfjár hér.

B. Gerðar hafa verið ýmsar fóðrunartilraunir, sem meðal annars hafa leitt eftirfarandi atriði í ljós:

1. Sannazt hefur, að hægt er að fóðra nautgripi og sauðfé eingöngu á íslenzku votheyi með jafngóðum árangri og þótt þurrhey væri gefið. Er þetta þýðingarmikil staðreynd, sem áður var óþekkt og bændur trúðu ekki á.

2. Sannazt hefur með fóðrunartilraunum, að mjög mikil síldarmjölsgjöf handa sauðfé hefur ekki spillandi áhrif á heilbrigði ánna né afkvæmanna, en sú hjátrú var mjög ríkjandi, að mikil síldarmjölsgjöf gæti verið hættuleg heilbrigði fjárins og jafnvel orsakað fósturlát og lambadauða. Fjölþættar tilraunir með síldarmjöl handa sauðfé eru enn í gangi hjá deildinni.

3. Tilraunir með mismunandi magn af síldarmjöli í fóðri handa mjólkurkúm leiddu í ljós, að mikil einhæf notkun síldarmjöls í fóðrið olli því, að smjörfitan varð eðlisverri en ella. Smjörið varð mjög laust í sér og með óeðlilegu bragði. Hins vegar hafði síldarmjöl í hæfilegu hlutfalli við kornmat í fóðurblöndu handa kúnum engin skaðleg áhrif á gæði smjörsins.

4. Tilraunir hafa verið gerðar til þess að ganga úr skugga um, hvort það svaraði kostnaði að gefa ám kjarnfóður síðustu viku meðgöngutímans til viðbótar við það, sem talið er gott eldi. Niðurstöðurnar urðu þær, að það svaraði varla kostnaði. Nú er unnið á hliðstæðan hátt að því að rannsaka, hvort ekki svari kostnaði að ala ær síðustu vikur meðgöngutímans, sem hafa verið laklega fóðraðar yfir veturinn.

5. Gerð hefur verið samanburðartilraun á venjulegu votheyi og hinu svo kallaða A.I.V. votheyi sem fóðri handa mjólkurkúm. Reyndist A.I.V. votheyið betra.

6. Rannsakað hefur verið, hvort hægt væri að sanna, að bráðadauði í kúm gæti orsakazt af óheppilegum fóðurefnum, t.d. of mikilli síldarmjölsgjöf eða einhverjum óheppilegum næringarhlutföllum í fóðrinu. Ekki var hægt að sanna, að slíkt væri fyrir hendi.

7. Unnið hefur verið síðustu árin að rannsókn á súgþurrkun heys. Hafa þær rannsóknir leitt í ljós, að aðferð þessi hefur marga góða kosti. Hægt er að fullþurrka hálfþurrt hey með óupphituðu lofti, en með því að hita loftið má ná betri árangri.

8. Síðustu 2 árin hefur deildin haft eftirlit með öllum fóðurblöndum, sem framleiddar hafa verið hér á landi, og tryggt þannig kaupendum vörugæðin.

Margar greinar um niðurstöður þessara rannsókna hafa verið birtar í búnaðarblaðinu Frey á undanförnum árum, og er nú verið að búa undir prentun ýtarlega skýrslu um þessar rannsóknir og tilraunir og niðurstöður þeirra.

IV. Jurtakynbætur og frærannsóknir.

Þessi starfsemi hófst við búnaðardeildina á árinu 1945, en starfið var fyrst í stað í molum

vegna jarðnæðisleysis og vöntunar á vinnuskilyrðum yfirleitt.

Hafizt hefur verið handa með fjölþættar rannsóknir í þessari grein, en flestar tilraunirnar þurfa að standa yfir árum saman áður en fullvíst er um niðurstöður þeirra. Því verður að líta svo á, að sá árangur, sem enn hefur, fengizt, sé fremur vísbending, en fullnaðarniðurstöður.

Starfsemi sérfræðings deildarinnar í jurtakynbótum og frærannsóknum má skipta í eftirfarandi liði:

A) Rannsókn á túnjurtum.

1. Gerðar hafa verið samanburðartilraunir á 43 hvítsmárastofnum frá ýmsum löndum á norðurhveli jarðar. Þær hafa þegar leitt í ljós, að einungis þeir stofnar, sem ættaðir eru frá Norður-Skandinavíu og vesturhéruðum Skotlands og Wales, þola íslenzkt veðurfar. Einn þessara stofna, S. 100 frá Aberystinyth í Wales, virðist bera af.

2. Reyndir hafa verið 34 erlendir stofnar af rauðsmára. Þeir hafa allir reynzt óheppilegir fyrir íslenzkt veðurfar. Skástir hafa reynzt nokkrir stofnar frá Norður-Svíþjóð og Finnlandi.

3. Samanburðartilraunir á túnsmára (Alsíkursmára) hafa sýnt, að þessi stórvaxna smárategund muni þrifast hér mun betur en rauðsmári. Sænski stofninn Svea alsikeklöve virðist bera af öðrum.

4. Tilraunir með „humallusernur“ benda til, að þessi belgjurt geti orðið hér að töluverðu gagni á túnum og beitilöndum, sé hægt að sá henni árlega eða annað hvert ár.

5. Tilraunir með notkun lúpína til þess að auka frjósemi í jarðvegi hafa leitt í ljós, að ýmsir Norður-Evrópiskir stofnar af hinni eitruðu einrænu lúpínu þrífast hér vel og einnig sænskur stofn af eiturlausri lúpínu.

6. Gerðar hafa verið samanburðartilraunir með 18 stofna af skriðlingresi frá ýmsum löndum. Þeir hafa allir reynzt illa, en stofn frá Norður-Svíþjóð þó skást. Skriðlíngresi hefur verið hér í flestum fræblöndum, en það er þýðingarlaust, aðeins til að kasta gjaldeyri, a.m.k. þangað til fundizt hefur betri stofn eða stofnar:

7. Af hundgresi hafa verið reyndir 45 stofnar frá Norðurlöndum, Englandi, Kanada og víðar. Bezt hafa reynzt stofnar frá Englandi og einn stofn frá Nýja-Sjálandi og einn stofn frá Svíþjóð. Þetta gras er ágætt fóðurgras, en hefur ekki verið ræktað að ráði hér á landi og því mikilvægt, ef hægt er að finna heppilega stofna af því fyrir íslenzk skilyrði.

8. Af loðvingli hafa verið reyndir 15 stofnar og reyndist einn stofn langbeztur.

9. Reyndir hafa verið 30 stofnar af hávingli. Þrír þeirra hafa þolað bezt íslenzkt veðurfar; einn frá Wales og 2 frá Svíþjóð.

10. Af túnvingli hafa verið bornir saman 25 erlendir stofnar. Þola þeir allir illa íslenzkt veðurfar og þola því ekki samanburð við íslenzkan túnvingul.

11. Gerðar hafa verið samanburðartilraunir með 45 stofna af rúggresi. Aðeins tveir þessara stofna þola íslenzkt veðurfar.

12. Sextíu stofnar af vallarfoxgrasi af norður- og suðurhveli jarðar hafa verið reyndir. Aðeins einn þeirra, frá Norður-Svíþjóð, þolir svo vel veðurfarið, að hægt sé að mæla með honum til ræktunar hér.

13. Af vallarsveifgrasi hafa verið reyndir 52 erlendir stofnar víðs vegar að. Þrífast þeir allir hér og bera flestir fræ. Margir þeirra koma til greina við túnrækt hér, en þó virðist kynbættur stofn bera af þeim öllum.

14. Reyndir hafa verið 15 stofnar af hásveifgrasi bæði frá Bretlandi og Norðurlöndum. Þeir hafa allir reynzt vel, og því er sama, hvort fræið er flutt inn frá Skandinavíu eða Bretlandi. — Reyndir hafa verið 48 stofnar af faxgrasi. Reyndist einn þeirra, sænskur stofn, langbeztur. Er hann notaður við sandgræðslu. Sextán stofnar af háliðagrasi hafa verið reyndir frá Norðurlöndum og Bretlandi. Reyndust þeir allir sæmilegir, en finnskir stofnar samt bezt.

Aðstaða hefur verið ill til þess að gera samanburðartilraunir með fræblöndur, en nokkrar blöndur hafa þó verið reyndar. Virðist árangurinn benda í sömu átt og í nágrannalöndum okkar, sem sé, að hafa þurfi í sömu blöndu tegundir, sem blómgast á sama tíma, og bezt sé að hafa fáar tegundir í hverri blöndu, gagnstætt því, sem gert er hér á landi. Einnig virðist rangt að hafa eina og sömu blöndu fyrir allan jarðveg, eins og hér er gert.

Gerðar hafa verið ýmsar rannsóknir á þeim túnjurtum, sem vaxa villtar hér á landi. En sökum skorts á aðstæðum og aðstoðarfólki hefur enn ekki verið hægt að gera fjöldarannsóknir með kynbætur innlendra grasastofna, sem þó er bráðnauðsynlegt. Rannsóknir hafa leitt í ljós, að á Íslandi vaxa að jafnaði stofnar með hærri litningatölu (chromosomtölu), en í Suður-Skandinavíu, og oftast eru þeir skyldastir stofnum í Englandi, Norður-Noregi og heimskautalöndum Kanada og Grænlands. Virðist því nauðsynlegt, þegar grösin eiga í hlut, að fá fjölda úrvalstegunda frá þessum löndum til reynslu við kynbætur íslenzku grasanna.

Í sambandi við íslenzk grös er vert að geta þess, að gerðar hafa verið talsverðar rannsóknir á ýmsum íslenzkum villigrösum til að leiða í ljós, hvort þær hafa verið rétt ákvarðaðar, þar eð grunur lá á um rangar greiningar á nokkrum þeirra. Ein þeirra tegunda er melgrasið, sem margir hafa gert sér vonir um, að kynbæta megi frekar. Var álitið, að hér væri sama tegund og í Vestur-Evrópu, en hún hefur 56 litninga, og þá væri ástæðulaust að reyna að kynbæta það með rúgi eða hveiti. Við rannsóknir hjá deildinni s.l. ár á fjölda eintaka víðs vegar að af landinu kom í ljós, að sú meltegund, sem hér vex, er ekki sú sama og í Evrópu, heldur grænlenzk eða amerísk tegund, sem hefur aðeins 28 chromosom eða litþræði. Ef aðstaða væri fyrir hendi, mætti reyna að kynbæta hana með víxlfrjóvgun hveitis eða rúgs, sem hafa 28 eða 14 chromosom eða litþræði, og tvöfalda síðan chromosomtöluna. Má þá búast við að fá fjölæra sandjurt, sem gæfi af sér gott korn.

Hafizt hefur verið handa með kynbótaúrval úr þeim erlendu stofnum, sem bezt hafa reynzt hér. Verður lítið hægt að aðhafast í þessu efni nema fá gróðurhús til umráða og aðstoðarfólk vegna þessa starfs.

Reyndir hafa verið 97 stofnar af kartöflum frá Evrópu og Ameríku og þarf að reyna miklu fleiri, því að komið hefur í ljós, að stofnar, sem aldrei hafa verið notaðir hér áður, bera af.

Lítils háttar tilraunir hafa verið gerðar með ræktun berjarunna, en enginn árangur af þeim tilraunum liggur enn fyrir. Gerðar hafa verið tilraunir með nokkra stofna af eplatrjám á vegum deildarinnar í gróðrarstöðinni á Akureyri, og virðast þær ætla að gefa betri árangur, en búast mátti við.

Tilraunir með jarðarber hafa leitt í ljós, að þau eru ræktanleg hér, eins og í öðrum norðlægum löndum.

Deildin hefur gengizt fyrir því, að hér hafa fengizt heppilegir smáragerlar undanfarin ár. Reyndir hafa verið nokkrir jurtahormónar til þess að eyða með illgresi, án þess að nytjajurtirnar saki, með þeim árangri, að allar líkur eru fyrir því, að þau geti eytt fjölmörgum illgresistegundum úr túnum og görðum, t.d. sóleyjum og fíflum. Árið 1945–46 hófst í U.S.A. stórframleiðsla á hormónum, sem fyrirbyggja spírun matarkartaflna, þótt geymdar séu við stofuhita. Tilraunir hér við deildina 1946–48 hafa sýnt ágætan árangur, en lyf þetta hefur enn ekki fengizt innflutt, þótt það geti minnkað efnatap í kartöflunum um 10–25% og mundi því spara þjóðinni stórfé.“

Þá er hér skrá yfir ýmis rit, sem birt hafa verið frá deildinni, og hleyp ég yfir það.

Þá kem ég að kaflanum um jarðvegsrannsóknir og les nú skýrsluna áfram.

„Starfsemi á þessu sviði mætti skipa í tvo flokka.

a) Rannsóknir og leiðbeiningar varðandi áburðarnotkun, meðferð lands og hvaða land skuli tekið til ræktunar, þ.e. rannsóknir, sem eru „hagnýtar“ þegar í stað.

b) Rannsóknir á eðli íslenzks jarðvegs, sem í eðli sínu eru fyrst og fremst vísindalegar, en verða þó að teljast einnig „hagnýtar“, þar eð þær eiga að gefa grundvallarupplýsingar um eðli íslenzks jarðvegs.

Unnið hefur verið að:

a) Sýrufarsrannsóknum, er einkum hafa haft verulega þýðingu varðandi gróðurhúsarækt. Nokkrar dreifðar áburðartilraunir hafa verið gerðar á túnum, og hafa þær undirstrikað ágalla í áburðarnotkun, er hafa átt sér stað. Sérfræðingur í jarðvegsrannsóknum hefur svarað fyrirspurnum bæði munnlega og skriflega, er borizt hafa varðandi ræktun lands, gróðurhúsarækt og áburðarnotkun. Hann hefur haldið nokkur erindi í útvarp og skrifað nokkrar greinar um þessi mál. Viðað hefur verið að allmiklu af jarðvegssýnishornum víðs vegar að af landinu og gerðar á þeim kerfisbundnar og allyfirgripsmiklar efnagreiningar og eðlisrannsóknir. Er þetta mjög tímafrekt verk og enn á byrjunarstigi. Hefur enn ekki þótt ástæða til að birta niðurstöður þessara rannsókna. Að dómi sérfræðings deildarinnar í þessum fræðum verður þessi þáttur þýðingarmesta rannsóknarviðfangsefni jarðvegsrannsókna á komandi árum.

Af sérstökum verkefnum má nefna: Rannsóknir á notagildi fljótandi ammoníaks sem áburðar. Þessum rannsóknum er enn ekki lokið, en í þær hefur þegar verið lögð allmikil vinna.

Athuganir á að hita jarðveg með heitu vatni til útiræktunar matjurta. Gaf þessi tilraun fremur neikvæðan árangur. Það má geta þess, að sérfræðingur í jarðvegsfræðum hefur unnið að athugunum og undirbúningi varðandi áburðarverksmiðju á vegum atvinnumálaráðuneytisins og í því sambandi farið til Norðurlanda og Ameríku.“

Þá kemur að búfjárkynbótum og er það aðallega varðandi kynbótabúið á Hesti. Þar sem því hefur verið svarað hér áður, er því sleppt hér.

Þá kemur svar frá fiskideildinni við sömu spurningu, og les ég það einnig upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskideildin hefur það tvíþætta verkefni með höndum

1) að fylgjast sem bezt með vexti og viðgangi fiskistofnanna frá ári til árs og ástandinu í sjónum yfirleitt og

2) að taka fyrir aðkallandi vandamál útvegsins vegna.

1) Einn árangur af rannsóknarstarfi deildarinnar er sá, að við getum nú sagt um stærð og að nokkru leyti göngur sumra íslenzku fiskistofnanna á árunum síðan deildin tók til starfa. Aðrar menningarþjóðir vita vel skil á slíkum hlutum hjá sér, en hér mundi að mestu standa ófyllt og opið skarð, ef fiskideildarinnar hefði ekki notið við. Á þennan hátt er byggður grundvöllur undir framtíðarrannsóknir og fiskveiðar komandi kynslóða. Rannsóknir á síld hafa leitt til þess, að nauðsynlegt þótti að gerendurskoða allt, sem við vissum um þennan fisk. Árangurinn varð sú kenning, að síld gengi milli Noregs og Íslands. Sú kenning var fyrst rökstudd, en hefur nú verið sönnuð með merkingartilraunum.

2) Af ýmsum rannsóknum, sem teknar hafa verið upp, hefur fengizt margvíslegur árangur, þótt margt af honum hafi enn þá lítt eða ekki verið hagnýtt.

a) Fundin voru grálúðumið, þar sem 1.200 fiskar veiddust á einum togtíma.

b) Bent hefur verið á, að samkvæmt rannsóknum á aflamagni og sjávarhita virðist 6.5–7.5 stiga heitur sjór við botn vera heppilegastur hrygnandi þorski.

e) Fundin voru ný karfamið við Austurland, er gáfu um 9 smálestir karfa á togtíma.

d) Sýnt hefur verið fram á miklar þorskgöngur á vorin til Grænlands, út af sunnanverðum Vestfjörðum.

e) Með starfi sínu tók fiskideildin hinn öflugasta þátt í undirbúningi að friðun Faxaflóa og átti þannig drjúgan þátt í, að Alþjóðahafrannsóknaráðið mælti einróma með því, að flóinn yrði friðaður (1946).

Áður en sérstök veiðimálastjórastaða var stofnuð, lét fiskideildin vatnarannsóknir til sín taka.

a) Samdar voru tvær ritgerðir, önnur um Blöndu, en hin um Ölfusá-Hvítá, að lokinni rannsókn, er gerði fært að leiðbeina með útsetningu seiða.

b) Sannað var, að „murtan“ í Þingvallavatni er sérstakt afbrigði bleikju, en vex ekki úr murtustærð og verður að bleikju.

Árni Friðriksson.“

Svo mörg eru þau orð. Ég hygg, að í þessu langa máli megi finna allmikið af þeim upplýsingum, sem spurt er um í fyrirspurninni, og verð ég að láta þetta nægja sem svar.