11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (5514)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. atvmrh. er ekki inni, og mælist til þess, þar sem ég þarf að víkja til hans máli mínu, að sent verði eftir honum. Þeir hv. þm., sem talað hafa af hálfu meiri hl., hafa fært fram þrjú atriði gegn till. minni hl. Í fyrsta lagi hafa þeir talið, að Sogsvirkjunin ætti að duga til þess að skaffa verksmiðjunni rafmagn. Í öðru lagi hafa þeir talið, að ekki mundi verða unnt að útvega fjármagn til 30 þús. tonna verksmiðju. Og í þriðja lagi hafa þeir svo talið þetta hættuspil af þeim sökum, að allt væri óvíst um markaði.

Ég skal nú taka þessi rök fyrir og svara þeim, hverju í sínu lagi, og því þá fyrst, sem þeir telja, að Sogsvirkjunin ætti að verða nægileg undirstaða. Ég býst nú við, eftir því sem ég heyrði á hv. þm. Skagf., að meiri hl. sé nú þegar að bila á þessari röksemd. Og það er raunar ekki að undra, þar sem forsendan fyrir henni er álit sérfræðinga, sem sjálfir hafa bilað á staðhæfingum sínum. Borgarstjórinn í Rvík var sjálfur látinn gefa yfirlýsingu um áramótin, sem sýnir þetta og styðst við umsagnir raforkumálastjórnarinnar um rafmagnsþörf bæjarins. Og það kom líka fram í ræðu hv. þm. Skagf., að ef til vill yrði að virkja þriðju virkjunina í Soginu til þess að sjá verksmiðjunni fyrir rafmagni. Það hefur verið minnzt á það, að ég held af hæstv. landbrh., að ófullnægð rafmagnsþörf í Rvík mundi e.t.v. stuðla að því, að hún yxi ekki eins ört og hún hefur gert á undanförnum árum. — Ég vildi nú heyra hv. þm. Suðurlandsundirlendisins lýsa því yfir, að á næstu 6 árum yrði ekki bætt við neinni linu á því svæði til neins staðar eða heim á nokkurn sveitabæ. Ég býst við, að ekki þýddi að fara fram á, að í næstu 6 ár væri neitað að veita nokkrum íbúa á Suðurlandsundirlendi rafmagn til viðbótar, enda væri það í hæsta máta ósanngjörn krafa. En það er þó ekki út í hött að athuga þetta, eftir því sem hér hefur komið fram í umræðum. — Það er annars leitt, að hæstv. atvmrh. skuli ekki vera viðstaddur, þegar þetta mál er rætt. Þess konar aðferðir ráðherra sýna það í fyrsta lagi, að ekki er um mikinn áhuga að tala fyrir málinu. Í öðru lagi sýna þær, að þeir óttast að verða að standa við það, sem þeir segja. Í þriðja lagi leiða þær svo til þess, að það verður að endurtaka sömu röksemdirnar oftar, en ella.

Hæstv. ráðh. sagði, að Rvík mundi ekki vaxa eins ört og fyrr á næstu árum, og taldi það æskilegt, að tæki fyrir þann vöxt. Ég hefði nú gjarna viljað ræða þetta atriði við hæstv. ráðh., ef hann hefði sýnt sig hér í deildinni, því að þessi ummæli koma sannarlega úr hörðustu átt, þar sem sú ríkisstj., sem hæstv. ráðh. á sæti í, gerir einmitt harðvítugar ráðstafanir til þess að auka sem mest vöxt Rvíkur. — Höfuðástæðan er sú, að atvinnuframkvæmdum er fyrst og fremst einbeitt að Rvík. Undirstaðan er togaraútgerðin í Rvík og í Hafnarfirði. Og sú pólitík er dyggilega rekin að láta lánsféð fara þangað, sem auðurinn er fyrir. Engir, sem minna mega sín, fá lán til að kaupa atvinnutækin og reka þau. Hjálp skulu þeir einir fá, sem ekki eru hjálparþurfi. Hinir stóru verða æ stærri — og Reykjavík verður enn stærri. Þessari pólitík hefur Landsbankinn aðallega staðið á, og Framsfl. á þingi ber þar sína sök. — Þessi regla hefur einu sinni verið brotin. Það var þegar nýbyggingarstjórnin ákvað að koma 10 togurum út á land, eftir þeirri grundvallarreglu, að atvinnutækin eigi að fara þangað, sem þörfin er fyrir þau. Þeim skyldi dreift út um land, þó að fólkið þar hefði engin efni á að kaupa þá, og þar með komust þeir ekki í hendur stórútgerðarinnar. Það hefur verið barizt gegn þessu af Landsbankanum og Framsfl., sem lagði til, að togararnir yrðu seldir þeim, sem gætu borgað þá. Hvað er hæstv. ríkisstj. að gera við hina 10 nýju togara? Málið er hjá fjhn., en hæstv. forsrh. hefur ekki fengizt til að mæta. Og nú er byrjað að ráðstafa togurunum til einstaklinga. Auðkýfingarnir fá tækin í hendur, en þjóðin hefur brýna nauðsyn fyrir þau, og þegar verið er að gera svona ráðstafanir, kemur það úr hörðustu átt að tala um að minnka aðstreymið til Rvíkur og að allir togararnir safnist þangað. Það mæla engar röksemdir með því, að vöxtur Rvíkur verði minni í framtíðinni en verið hefur. Það hefði verið gott, ef hæstv. atvmrh. hefði verið hér til að heyra, hvað hæstv. ríkisstj. er að gera til að auka atvinnulífið úti um land.

Till. hv. landbn. byggjast á blekkingum, þeim blekkingum, að nægilegt rafmagn sé hægt að fá frá Sogsvirkjuninni, en til þess að það sé mögulegt, verður að bíða eftir, að Sogsvirkjunin nýja komist í notkun. Það er svo sem eðlilegt, að hæstv. atvmrh. vilji ekki ræða þetta hér, en álasar minni hl. fyrir að vilja tefja málið. En hjá honum sjálfum verður að bíða eftir því, að Sogsvirkjunin komist upp. Þessi grundvöllur er því ekki til og blekking ein að samþ. till. hv. meiri hl.

Hæstv. atvmrh. kom að því í ræðu sinni, að það vantaði fjármagn til að byggja 30 þús. tonna verksmiðju, en hann nefndi ekki, hvernig ætti að afla fjár til litlu verksmiðjunnar eða 70 millj. kr. til Sogsvirkjunarinnar. Hvaðan koma þeir peningar? Er ef til vill verið að sækja um leyfi til Washington, eins og þegar verið var að sækja um leyfi til Dana til að byggja Ölfusárbrúna? Treystir hæstv. ríkisstj. sér ekki til að byggja 70 millj. kr. vatnsvirkjun án þess að leita til Washington? Síðan verður að virkja Sogið að nýju, og það kostar 50 millj., eða samtals 120 millj., sem er það sama og Urriðafossvirkjunin mundi kosta. Ég vil spyrja hæstv. atvmrh. hvort hann haldi, að auðvelt muni vera að fá að láni 45 millj. til að byggja verksmiðjuna og 70 millj. til að virkja Sogið og 50 millj. til að virkja Sogið að nýju til að byggja 7.500 tonna verksmiðju, sem tvísýnt er, hvort beri sig, og auk þess verður ríkið að greiða vexti af lánunum og tapið, ef eitthvað verður. Hvort ætli verði þá ódýrara að fá lán til að virkja Urriðafoss og reisa 30 þús. tonna verksmiðju eða ráðast í hitt? Og hvort ætli verði auðveldara að fá lán til að byggja litlu áburðarverksmiðjuna og virkja Sogið eða til hins, verksmiðju, sem gefur 30 millj. kr. tekjur á ári?

Það má leggja þetta fyrir hvaða fjármálamann sem er, og svarið verður hið sama, menn lána til þeirrar verksmiðjunnar, sem borgar sig, og þeir munu segja, að þeim lítist ekki á að lána til verksmiðju, sem ekki borgar sig og ríkið verður að gefa með. Ef menn halda, að þeir geti fengið 45 millj. kr. lán til verksmiðju, sem ekki borgar sig, þá ætti ekki að verða vandi að fá 125 millj. til verksmiðju, sem borgar sig. Ef samþ. verður með atkv. framsóknarmanna að byggja litlu verksmiðjuna, verða þeir að bera ábyrgð á því, ef hún verður ekki samkeppnisfær. Hæstv. atvmrh. hefur ekki trú á 30 þús. tonna verksmiðju, en ef hún væri byggð, væri ég óhræddur við að heimila íslenzkum bændum að kaupa áburð þar, sem þeir fengju hann ódýrastan, og þá þyrfti ekki að vera að skylda þá til að kaupa framleiðslu íslenzku áburðarverksmiðjunnar. Vilja menn síður trúa á slíkt fyrirtæki heldur en fyrirtæki, þar sem ríkið verður að borga undirballansinn? Hvað tímann snertir, sem tekur að koma þessari verksmiðju upp, þá tekur það 6 ár með virkjun Urriðafoss, en það er jafnsnemma og búið verður að virkja Sogið í þriðja sinn. Till. minni hl. eru því raunhæfari og traustari en hinar, sem ekkert verður úr.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, um markaði. Gert er ráð fyrir, að tonnið frá litlu verksmiðjunni kosti 1.541 kr., en 1.133 kr. frá stóru verksmiðjunni. Ég vil nú spyrja hv. þm., sem hér hafa talað, hvort þeir telji okkur samkeppnisfærari með 1.541 kr. verðinu eða 1.133 kr., og vil ég spyrja þá, hvort þeir teldu happadrýgra, ef Íslendingar færu að keppa á heimsmarkaðinum. En spursmálið þar er að komast sem allra lengst niður með verðið og að framleiðslukostnaðurinn verði sá minnsti, sem hægt er í viðkomandi landi. Ég mundi álíta tvísýnt að keppa með 30 þús. tonna verksmiðju á heimsmarkaðinum, en það er samt venjulegra, að betra er að selja, ef um mikið magn er að ræða og til langs tíma, og með 1.133 kr. verð á tonninu hefðum við mikið svigrúm hvað verð snerti, sem nálgaðist stóru hringana. — Þá hefur þeirri spurningu verið hreyft, hvort tryggt væri að fá markaði fyrir þessa vöru. Það er undarlegt, að hæstv. atvmrh. skuli spyrja, hvort við getum tryggt okkur markaði. Fyrir 2 árum var lagt fyrir hann, að Ísland reyndi að tryggja sér markaði erlendis, m.a. fyrir þessa vöru. Og nú spyr hæstv. ráðh., hvort markaðir hafi verið tryggðir. Hæstv. ríkisstj. lagðist á móti, að þetta væri gert, og hefur hindrað í tvö ár, að athugun færi fram á því, hvort við gætum hafið stóriðju. Það er hlægilegt, þegar hæstv. atvmrh. er að tala um aluminiumframleiðslu. Það var lagt til við hann fyrir 2 árum að koma upp stórvirkjun við Þjórsá, en var þá fellt. Og nú koma hinir sömu menn enn fram með það, að slíkt verði að drepa. Halda þeir, að samkeppnin verði minni eftir 10–15 á,r en eftir 6 ár? Hvers konar þekking er þetta? Ég álít mögulegt fyrir Íslendinga að koma sér upp markaði með stóriðjuvöru eftir 6 ár, og hef lagt til, að samið yrði við ýmis ríki, en hæstv. ríkisstj. hefur reynt að drepa slíkt niður. Bretar hafa gert samninga til margra ára við ýmsar þjóðir, t.d. Pólverja. Íslenzka ríkisstj. hefur látið slíkt hjá liða. Það þarf því nýja ríkisstj. til að framkvæma þetta. Hæstv. núverandi ríkisstj. hefur brugðizt skyldu sinni og svikizt um að athuga möguleika fyrir stóriðju hér á landi. Það er því alveg út í hött, þegar því er slegið föstu, að ekki sé hægt að leggja út í slíkt fyrr en kunnugt er um markaði, enda þarf ekki við slíkt að fást, ef samþ. verður að byggja litlu verksmiðjuna, en ef samþ. verður að byggja þá stóru, gegnir öðru máli. Fylgilið hæstv. ríkisstj. talar um, að vanti markaði. Hvar eru markaðir fyrir fisk þann, sem togarar þeir, sem koma hingað á árunum 1951–52, veiða? Hvar eru samningarnir um sölu á þeim fiski? Hví er hæstv. ríkisstj. að tala um, að óvarlegt sé að byggja verksmiðju til að framleiða svo auðselda vöru? Getur ekki verið, að þegar nýju togararnir koma, verði enginn markaður fyrir fisk þann, sem þeir veiða? Er þetta ekki hættulegt, ef farið er eftir kenningu hæstv. ríkisstj.? — Þegar ég kom með till. um að kaupa nýsköpunartogarana, þá var sagt, að slíkt væri þýðingarlaust, þar sem varla væri hægt að selja fiskinn úr gömlu togurunum. Það kann að hafa verið rétt, að ekki hafi verið auðvelt að selja úr þeim, en það stafaði af því, að þeir voru ekki samkeppnisfærir. En nýju, stóru togararnir eru samkeppnisfærir. Það getur borgað sig að leggja í nýja vöru, en borgað sig illa að vera með gamla, lélega og litla verksmiðju og gæti þá svo farið, að við stæðum í svipuðum sporum eins og þegar við urðum að byggja allt á gömlu togurunum, að það yrði álíka auðvelt að selja vöru litlu verksmiðjunnar eins og fiskinn úr gömlu togurunum 1944. En hvaða vöru geta Íslendingar verið öruggir með að selja? Ekkert er víst, að betra verði með aluminium, nema þá að brezki aluminiumhringurinn, sem var að athuga hér aðstöðu í fyrra, ætli að koma hér upp vinnslu. En ef við Íslendingar ætlum að halda áfram að flytja út vörur okkar, verðum við að skapa framleiðslu, sem er svo stórvirk, að við séum samkeppnisfærir á heimsmarkaðinum. Ég held þess vegna, að öll röksemdaleiðslan, sem kemur fram frá meiri hl. landbn. og hæstv. landbrh. viðvíkjandi markaðsmálunum, byggist á hugsunarleysi um þessa hluti.

Það er ekki hugsanlegt fyrir okkur að byggja eina litla verksmiðju og flytja út 3.000 tonn og byggja svo aðra litla aluminíumverksmiðju, t.d. 2.000 tonna og standa þannig með margar litlar verksmiðjur og engin væri samkeppnisfær, ef við yrðum fyrir harðri baráttu. Eina leiðin fyrir okkur er að einbeita okkur að stórvirkjunum og stórrekstri, sem er ódýrast. Af hverju stöndum við Íslendingar betur að vígi, en aðrar þjóðir hvað snertir togarana? Af því að við ráðum yfir nýjustu og beztu togurunum, og af því að við réðumst í að fá þá áður en jafnvel Englendingar þorðu að gera það, af því að við framleiðum nógu mikið, í nógu stórum stíl og erum nógu stórir aðilar. Hið sama mundi gilda með stóriðju, þegar við þorum út í hana. Ég vil þess vegna leyfa mér að halda því fram, að það sé öruggara fyrir efnahagslega afkomu okkar að leggja í stóra verksmiðju og það sé öruggara fyrir okkur til að geta skaffað íslenzkum bændum samkeppnishæft verð á áburði og sé jafnöruggt fyrir okkur, ef við förum af fullum krafti að leggja í virkjun Urriðafoss, að byggja 30.000 tonna áburðarverksmiðju eins og 10.000 tonna verksmiðju og treysta ef til vill á rafmagn frá hinni nýju Sogsvirkjun, sem yrði ekki starfhæf fyrr en 1955–56, þegar búið væri að virkja Sogið í þriðja skiptið, ef það yrði þá.

Hæstv. atvmrh, hélt því fram, að Norðmenn mundu skáka okkur í samkeppninni, því að þeir hefðu ódýr vatnsföll, sem væru virkjuð fyrir löngu síðan og þeirra vatnsföll lægju svo vel við virkjun. Það er rétt, að Norðmenn framleiða það 10 sinnum ódýrara, heldur en við. En ég kom aðeins inn á vatnsmagnið, ég var að benda á, að Íslendingar stæðu öruggara hvað það snertir að hafa nægilegt vatnsmagn í okkar ám. Eins og við vitum, voru Norðmenn í vandræðum s.l. sumar, vegna þess að þeir framleiddu minna rafmagn, en þeir höfðu reiknað með vegna þess, að árnar minnkuðu það mikið, að fossaaflið varð minna, en gengið var út frá, og Norðmenn hafa áhyggjur af því, að þeirra jöklar bráðni það mikið á hverju ári, að menn telja, að þeir fari að minnka. Þess vegna hafa Norðmenn þarna áhyggjur, sem við ekki höfum. Það, sem ég minntist á, hefur þess vegna hæstv. atvmrh. misskilið, þegar hann talar um, að framleiðsla Norðmanna mundi verða ódýrari en okkar. En jafnvel þó að Norðmenn framleiddu ódýrara en við, þá þýðir það ekki það, að þeir ætli að selja sína vöru á heimsmarkaðnum bara fyrir framleiðsluverð. Ég býst við, að Norðmenn framleiði nú áburð þannig, að hann kosti ekki meira, en hann mundi kosta hjá okkur með 30.000 tonna framleiðslu, eða 1.133 kr. tonnið, en þeir selja okkur hann bara á 2.280 kr. tonnið. Ég held þess vegna, að þær þrjár höfuðmótbárur, sem þarna er haldið fram, um Sogsvirkjunina, fjármagnið og markaðinn, fái ekki staðizt, en afleiðingarnar af þessari röksemd eru þær, að þá þýðir okkur Íslendingum yfirleitt ekki að hugsa um útflutningsframleiðslu, ef við treystum okkur ekki til að leggja í svona virkjun.

Út af fiskframleiðslunni vildi ég svo undirstrika það, sem hv. 8. þm. Reykv. hefur lagt mjög mikla áherzlu á, það er öflun útflutningsverðmæta. Ég sé ekki, að Alþ., sem gerir eins miklar kröfur til innflutnings eins og það gerir nú, geti verið þekkt fyrir að afgreiða annað eins stórmál og hér liggur fyrir, þ.e.a.s. till. um að byggja 30.000 smál. verksmiðju, á þann hátt að fella þessar till., en það þýðir sama sem að segja: Við ætlumst til þess, að innflutningur Íslendinga fari minnkandi á næstu árum, að menn neiti sér um fleira og fleira af því, sem Alþ. er búið að samþykkja áskoranir um að flytja inn í landið. Það, að fella till. um stóru verksmiðjuna, þýðir sama sem að ákveða, að landbúnaðarvélarnar skuli standa kyrrar 1955–60, að það skuli vanta benzín á jeppa- og vörubíla og það skuli banna að keyra fólksbíla á Íslandi, svo að við tökum einhver dæmi. Þegar við þurfum fyrir þá bíla, sem nú eru í landinu, yfir 30 millj. kr. til að borga benzín, varahluti og gúmmí, þá getum við hugsað okkur, hvernig það verður 1955–56 með þeim kröfum, sem Alþ. gengur í fararbroddi fyrir að gera nú. Þegar Alþ. gengur í fararbroddi um að heimta 750 jeppa, eins og samþ. var í sameinuðu þingi fyrir skömmu, þá verður það að hafa ábyrgðartilfinningu til þess að leggja grundvöll að slíkri útflutningsframleiðslu á næstu áratugum, að það sé hægt að borga þetta. Ef það er ekki meiningin að koma okkur í þá aðstöðu, að við verðum að betla gjafir erlendis til að geta lifað sæmilegu menningarlífi, þá eigum við að samþ. till. um 30.000 tonna áburðarverksmiðju, sem er jafnframt till. um að gera Ísland efnalega sjálfstætt, — till. um að framleiða útflutningsverðmæti til þess að forða okkur frá því að þurfa að vera að betla og biðja um að gefa okkur þær vörur inn í landið, sem Íslendingar vilja fá.

Að síðustu nokkur orð viðvíkjandi því, sem hér kom fram í umr., hver eigi að eiga þessa verksmiðju. Ég vil taka það fram, að það er mín skoðun, að ríkið eigi að eiga þessa verksmiðju. Sé því komið þannig fyrir, að þetta sé sjálfseignarstofnun, þá álít ég, að ríkið eigi að búa þannig um hnútana, að það fái gróðann af henni, eða a.m.k. ákveðið hlutfall af þeim gróða. Ég álít, að það eigi frá upphafi að hugsa þessa verksmiðju sem gróðafyrirtæki fyrir ríkið. Það er til lítils að barma sér yfir, að það verði að taka ríkistekjurnar af brennivínssölu, en koma aldrei fram með neitt, sem virkilega þýddi, að ríkið hefði stórkostlegar tekjur af eðlilegri framleiðslu. Ég held þess vegna, að svona áburðarverksmiðja eigi að vera eign ríkisins og tekjulind fyrir ríkið. Ég veit að vísu, að ríkið á stofnanir, sem eru stórkostlegar tekjulindir nú, en ríkið hefur fram að þessu ekki tekið tekjurnar af þessum stofnunum. Undanfarin ár hafa bankar ríkisins grætt 30 millj. kr. á ári, en ríkið hefur ekki tekið neitt af þessum tekjum, en barmar sér yfir því, að ekki sé hægt að skaffa peninga, ekki einu sinni í Sogsvirkjunina, 30 millj. til að borga innlend vinnulaun, en ríkið getur horft á, að einstakar ríkisstofnanir græða 30 millj. kr. á ári án þess að snerta við því. Svo er kvartað yfir fátækt, ekkert fjármagn sé til, hvergi sé hægt að fá peninga. Ég álít, að við eigum ekki að afgreiða þetta mál þannig, að það sé gert ráð fyrir því, að ríkið eigi að tapa á þessari framleiðslu.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta mál, en vil aðeins taka það fram, að ég álít, að þetta sé stærsta mál, sem fyrir þingið hefur komið í þetta skipti og jafnvel þótt lengra sé leitað. Ég álít, að það verði prófsteinn á skilning og framsýni þm., hvort þeir nú treysta sér til að samþykkja till. minni hl. í þessu máli eða ekki. Mér finnst leitt, að það skuli koma hér fram nákvæmlega sömu röksemdirnar á móti þessari till. um 30.000 tonna áburðarverksmiðju eins og kom fram á móti nýsköpunartogurunum um árið. Það er ákaflega leitt, að það skuli vera til enn þá, og það í ráðherrastólum, menn, sem ekkert hafa lært af því átaki, sem íslenzka þjóðin hefur gert í sínum atvinnumálum á undanförnum áratug. En það virðist mér að hlyti að verða dómurinn yfir þessu þingi. ef það fellir þessa till. um 30.000 tonna áburðarverksmiðju, að slíkt þing mundi ekki hafa borið gæfu til að stíga þau spor, sem stigin voru 1944–45, til að umskapa grundvöll fyrir okkar sjávarútveg, og veit þó þetta þing, að gjaldeyririnn, sem þjóðin lifir á nú, er til orðinn fyrir ákvörðun, sem tekin var 1944 um svipaða drauma, svo að ég viðhafi orð hv. 1. þm. Skagf., eins og þessir þm. vilja álíta, að þessi ákvörðun um 30.000 tonna áburðarverksmiðju sé nú.