15.10.1948
Neðri deild: 4. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

4. mál, hvalveiðar

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. er veikur, og bað hann mig um að mæla nokkur orð fyrir þessu frv., svo að það kæmist nú fyrir hv. d. Ég tel, a.m.k. á þessu stigi málsins, að ekki þurfi að hafa um þetta langar umr., en þykir þó rétt, að málið gangi áfram til nefndar.

Eins og hv. d. er kunnugt, gerðist Ísland á síðastliðnu ári aðili að hinum alþjóðlega hvalveiðasamningi, en eftir að Ísland hafði gerzt þar aðili, þótti nauðsynlegt að fá nýja löggjöf í samræmi við þann alþjóðasamning, sem Ísland varð þátttakandi í. Frv. þetta er byggt á þessari nýju aðild Íslands í alþjóðasamningnum. Þar að auki var það svo, að löggjöf sú, sem áður var í gildi um hvalveiðar, frá 1928 og jafnvel 1896, var orðin nokkuð úrelt, og þótti nauðsynlegt að setja nýja löggjöf um þetta málefni, ekki hvað sízt vegna þess, að hafnar hafa nú verið á ný hvalveiðar hér við land með þátttöku íslenzks fyrirtækis, og hefur það þegar borið verulegan árangur.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. sjálft, er enda ekki málinu mjög kunnugur, en óska, að málið fari að lokinni þessari umr. til sjútvn., en tel víst, ef sú n. óskaði eftir frekari skýringum, að hæstv. sjútvmrh. mundi fúslega gefa þær skýringar og þá einnig við 2. umr. málsins, þegar frv. kæmi úr nefnd. Ég læt því nægja að þessu sinni að óska, að málið fari að lokinni þessari umr. til 2. umr. og sjútvn.