07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

4. mál, hvalveiðar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið alllengi hér fyrir þinginu. Það var eitt af fyrstu frv., sem lögð voru fyrir, en hefur verið vanrækt og ekki afgreitt fram að þessu, þó ekki vegna þess, að ágreiningur hafi orðið um það, en með því að hér er um nauðsynlegt mál að ræða, þá er þess nú vænzt, að ekki verði dregið að afgreiða það lengur.

N. hefur rætt um þetta og er sammála um það. Hún hefur m.a. rætt við atvinnudeild háskólans, fiskideildina, um þetta og fengið hjá henni þær upplýsingar, er hún hefur álitið nauðsynlegar, einnig hef ég sem form. n., átt tal um þetta mál við skrifstofustjóra atvmrn., og hefur orðið samkomulag um að mæla með því, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum.

N. fékk erindi frá h.f. Hval, þar sem bent er á það, að vafasamt sé, hvort stuðla beri að því, að fleiri leyfisveitingar séu gefnar út. Þess utan hefur n. fengið svar frá Fiskifélaginu, en í erindi h.f. Hvals var mjög sneitt að því.

Eftir að hafa sett sig inn í þessi mál, þá leggur n. til, að frv. verði samþykkt, og vill jafnframt benda á, að nauðsynlegt er að gæta hófs um leyfisveitingar vegna hvalstofnsins og hættu á, að hann verði fyrir tjóni, með því að reisa of margar hvalvinnslustöðvar. Um það, hvort stöðvar á Íslandi gætu eytt stofninum eða orðið til verulegs tjóns fyrir hann, þá er rétt að benda á, að það eru fleiri þjóðir en Ís1endingar, sem þessar veiðar stunda hér í Norður-Atlantshafi, svo sem Norðmenn, Færeyingar og Kanadamenn o. fl., svo að það er ekki á valdi Íslendinga einna, heldur verður þetta að byggjast á samkomulagi milli allra þeirra þjóða, sem hér eiga hlut að máli. Árni Friðriksson taldi þörf á, að þetta væri samþ., og taldi, að fiskideildin ætti að leita samvinnu við aðra aðila, svo að tryggt væri, að ekki yrði sótt um of í stofninn. Eins og frv. er nú, þá er það mikið á valdi ráðherra, hvað mikið er gengið á stofninn, því að hann getur skv. 4. gr. bannað hvalveiðar á tilteknum svæðum, takmarkað veiðar við ákveðinn tíma árs, takmarkað heildarveiðimagn, veiðimagn ákveðins fyrirtækis, leiðangurs eða landstöðvar; takmarkað veiðiútbúnað o.s.frv., svo að segja má, að þó að leyfi sé veitt, þá er alltaf heimild til takmörkunar í 4. gr.

Þær breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru í fyrsta lagi, að aftan við 1. málsgr. 1. gr. bætist tveir málsl., er orðist svo. „Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar háskólans (fiskideildar). Ef báðar þessar stofnanir telja, að gengið sé of nærri hvalstofninum með nýjum veiðileyfum, skal umsókn synjað.“ Með þessu þykir það tryggt, að ekki séu veitt meiri veiðileyfi á hverjum tíma en svo, að ekki komi að sök, eftir mati ríkisstj. og þessara tveggja stofnana.

Þá leggur n. einnig til, að gerð verði breyting á orðalagi 2. gr. Þetta er sem sagt ekki efnisbreyting, heldur aðeins orðalagsbreyting. N. leggur til, að greinin orðist svo: „Erlend skip má ekki nota til hvalveiða nema með leyfi atvmrh. Skulu slík leyfi eigi veitt til lengri tíma en eins árs í senn. Eigi skal þetta þó skerða þau leyfi, sem þegar hafa verið veitt.“

Eins og gr. er nú, er þetta orðað þannig: „Til hvalveiða má einungis nota skip, sem atvmrh. samþykkir, að notuð séu. Leyfi til notkunar erlendra skipa skulu eigi veitt til lengri tíma en eins árs í senn. Eigi skal þetta þó skerða þau leyfi, sem þegar hafa verið veitt“. Það getur ekki staðizt, að atvmrn. þurfi að samþ. íslenzk veiðiskip, ef þau eru fyrir hendi.

Aðrar brtt. hefur n. ekki borið fram.

Ég vil taka fram, að í 6. gr. er talað um, að atvmrn. setji reglur um eftirlit með hvalveiðum samkvæmt lögum þessum og skuli þar gert ráð fyrir, að skipaðir verði opinberir eftirlitsmenn, er laun taki úr ríkissjóði. Það er skoðun n., að ekki sé þörf að gera þetta eftirlit að neinu fjárfreku bákni, heldur sé hægt að fela það sem aukastarf ákveðnum mönnum. Eftirlitið er tvíþætt, annars vegar eftirlit með veiðunum, að ekki séu veiddir ólöglegir hvalir, og hins vegar eftirlit með hvalskurðinum, einkum mat á því kjöti, sem notað yrði til manneldis. Hefur atvmrn. tilkynnt n., að sá hluti starfsins mundi verða falinn dýralækni, eins og hingað til hefur verið. Mun það vera samkvæmt reglum í öðrum löndum.

Hv. 1. landsk. geymdi sér rétt til að gera einhverjar brtt. víð 9. gr. í sambandi við launagreiðslur, en aðrir nm. töldu ekki ástæðu til þess. Gerir hann það þá, ef hann telur ástæðu til.

Hv. 6. landsk. gat ekki mætt við afgreiðslu málsins vegna veikinda og hefur því ekki tekið afstöðu til málsins.

Ég legg til fyrir hönd n., að málið verði samþ. með þeim breyt., sem fram eru bornar á þskj. 475, og vildi gjarnan óska þess, að hæstv. forseti sæi sér fært að flýta málinu úr þessu svo mikið sem hægt er, því að það er talið, að veiðar muni jafnvel hefjast um 25. þ. m., og verða l. þá að hafa hlotið staðfestingu.