31.01.1949
Neðri deild: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

13. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Allshn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, hefur eytt allmiklum tíma til þess að setja sig inn í þau gögn, sem fyrir liggja, og hefur athugað allar umsóknir um ríkisborgararétt, sem borizt hafa, og jafnframt hefur frv. verið athugað sérstaklega með þeim till., sem í því felast. Í nál. á þskj. 289 er gerð grein fyrir afstöðu þess hluta n., sem tók þátt í afgreiðslu málsins. Einn nm. tók ekki nema að óverulega litlu leyti þátt í störfum n., og er ekki fyrir hendi vitneskja um það, að hve miklu eða litlu leyti hann er samþykkur till. n.

Ég þarf ekki að bæta miklu við þá greinargerð fyrir afstöðu n., sem í nál. felst. Aðalatriði málsins, sem ég vil vekja athygli á, er það, að nm. vilja viðhafa vissa varúð í veitingu ríkisborgararéttar. Ég held, að það sé framhald af stefnu, sem kom fram hér á Alþ. eftir síðustu styrjöld, en þá var meiri ásókn eftir ríkisborgararétti en áður. Kemur þetta fram í skjölum um þessi mál, sem hafa komið fyrir þessa d., að hvorki í n. né við afgreiðslu slíks máls hefur þótt nægja sem almenn regla, þótt uppfyllt væru skilyrðin um 10 ára búsetu. Ég hygg, að það hafi fyrst verið 1946, að afgreidd voru l. um ríkisborgararétt eftir lok síðustu styrjaldar. Allshn. vildi þá binda sig við það, að menn hefðu verið búsettir í landinu frá barnæsku eða væru af íslenzkum ættum. En aftur á móti hefur í framkvæmdinni verið gengið lengra í því að krefjast búsetu en ríkisborgaralögin gera ráð fyrir, en það eru 10 ár, ef menn eru af öðru þjóðerni. Nú hefur n. látið nægja, að uppfyllt væri búsetuskilyrðið skv. l., ef um er að ræða menn frá Norðurlöndum. Hins vegar eru svo aðrir umsækjendur, sem hafa verið búsettir hér lengur en 10 ár og uppfylla að öðru leyti skilyrðin fyrir veitingu ríkisborgararéttar, sem meiri hl. allshn. hefur samt sem áður ekki flutt till. um, að teknir yrðu inn á frv. Hins vegar hefur svo verið gengið skemmra varðandi þetta ákvæði, ef um er að ræða umsækjendur af íslenzkum ættum, og er þannig ástatt um 3 umsóknirnar á þessu frv. Þetta fólk er fætt af íslenzku foreldri og hefur sumt af því dvalið hér einhvern tíma áður, en enginn 10 ár samfleytt. Hv. Ed. hefur litið eins á mál þetta, því að hún var búin að taka þessa menn alla upp í till. sína til 3. umr., þó að málið yrði svo ekki afgreitt á því þingi. Nm. hafa hins vegar allir verið sammála um að áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja viðbótartill., sem fram kunna að koma og kynnu að fela í sér frávik frá þessum reglum, þó að við höfum orðið sammála um að taka þá stefnu, sem hér er farin. Ég vil aðeins bæta því við, að n. leggur til að strika nöfn 4 kvenna út af frv. Þannig er ástatt með þessar konur, að þær hafa verið íslenzkir ríkisborgarar, en hafa misst réttinn við að giftast erlendum ríkisborgurum og flytja af landi burt. En þessar konur eru komnar til landsins aftur og dvelja hér nú, sumar með mönnum sínum, en aðrar ekki. Hins vegar væri það svo, að þó að þeim væri veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, þá væri hann ekki haldbetri en svo, að þær mundu missa hann aftur, ef þær flyttu af landi burt, ef hjónabandi þeirra væri ekki slitið. Okkur fannst nokkuð laust í reipunum að veita ríkisborgararétt á þennan hátt, og þess vegna lögðum við til, að nöfn þeirra yrðu felld af frv. — Ég held svo, að ekki sé fleira, sem þarf að taka fram um þetta efni, nema sérstakt tilefni gefist til þess.