11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

13. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 305, við það frv., sem fyrir liggur, um, að Eberhardt, Konstantin Alexander, iðnverkamanni hér í Reykjavík, verði veittur ríkisborgararéttur. Þessi maður, sem brtt. fjallar um, er fæddur 11. nóv. 1893 í Þýzkalandi. Hann kom til Íslands 3. júlí 1920, fór snögga ferð til útlanda vorið 1924 og kom aftur á sama ári, en fór enn fremur í verzlunarerindum til útlanda árið 1927 og kom þá aftur eftir mjög skamma viðdvöl á sama ári og var hér samfleytt til 5. júlí 1940, er hann var tekinn til fanga ásamt fleiri löndum sínum og fluttur til Bretlands, þar sem hann dvaldi öll stríðsárin. Hingað til landsins kom hann aftur 6. sept. 1947 og hefur dvalið hér síðan.

Þessi maður er kvæntur íslenzkri konu, 7. okt. 1933, og hefur dvalið hér svo að segja samfleytt í 20 ár, frá 1920 til 1940, er hann var tekinn til fanga og þá, af óviðráðanlegum ástæðum, slitin sundur dvöl hans hér á landi. Kona hans er að vísu látin, en hann hefur haft á framfæri sínu börn hennar. Ég hygg, að öll sanngirni mæli með því, að þessum manni verði veittur ríkisborgararéttur, og ég hygg einnig, að það sé ekki í ósamræmi við þær reglur, sem hafa verið látnar gilda um veitingu ríkisborgararéttar hér, þó að honum verði veittur þessi ríkisborgararéttur nú. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um þessa brtt., en vænti þess, að hv. þm. líti á allar málsástæður í sambandi við þessa brtt.