05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

13. mál, ríkisborgararéttur

Ásmundur Sigurðsson. Herra forseti. Ég flyt brtt. á þskj. 459 um að taka inn í frv. fjórar íslenzkar konur, sem upphaflega voru þar, er frv. kom frá stj. Ég er hissa á því, að Nd. skyldi samþ. að taka þær út, það er undarlegt, ef það ættu ekki að vera nægileg rök, að stj. tók þær inn. Hv. frsm. meiri hl. kom að því í sinni ræðu, er hann flutti við 2. umr. fyrir nokkrum dögum, að þetta væri byggt á 8. gr. l. og að enginn maður, sem með l. er veittur ríkisborgararéttur, geti öðlazt hann fyrr en hann hafi sannað, að hann sé leystur frá fyrra ríkisfangi sínu. En fyrir tveimur árum var konu, sem eins var ástatt um og þessar, veittur ríkisborgararéttur. Hún var gift erlendis, en flutt hingað, og maðurinn erlendis. Ég hygg, að á þessu fordæmi hafi það verið byggt, að stj. tók þessar konur með í frv., þegar það var lagt fyrir Alþ.