05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

13. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég ætla að svara þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls. Hv. þm. Barð. talaði um, að n. hefði ekki farið eftir sínum eigin reglum. Þetta er misskilningur, því að n. fór eftir þeim reglum, sem hún setti sér, þ.e.a.s. eftir reglum allshn. Ed. Það er ekki þar með sagt, að það séu reglur fyrir Alþingi í heild. Og þessar reglur setti n. sér meðal annars til að koma í veg fyrir, að málið dagaði uppl. Þm. ætti að vera minnisstætt, að mál hafa dagað uppi hér á þingi, og sú hætta er meiri, þegar senda þarf mál aftur til þeirrar deildar, sem hefur afgreitt það einu sinni.

Hv. þm. Barð. vildi bera þetta saman við veitingu ríkisborgararéttar með sérstökum l. nú á þessu þingi. Ég skal ekkert um það mál segja, því að ég tók ekki þátt í þeirri afgreiðslu, en hins vegar get ég vel hugsað mér, að þær aðstæður séu fyrir hendi, að nauðsynlegt geti verið að veita ríkisborgararétt á þann hátt, ef um einhvern kunnáttumann er að ræða, sem ríkið þarf á að halda, og ríkisborgararétturinn er skilyrði fyrir, að þessi maður taki þetta starf að sér, en slíkt verður að teljast til undantekninga. — Hitt legg ég áherzlu á, að ég tel, að ríkisborgararétturinn eigi ekki að vera flík, sem hægt sé að kasta af sér, þegar mönnum sýnist, og fara svo í eftir geðþótta.

Þá kem ég að 4. landsk., en hann var að spyrja um ástæðurnar fyrir því, hvers vegna þær umsóknir, sem nú liggja fyrir, hafi ekki verið teknar upp í frv. af nefndinni. Ég sé ekki, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram um þá konu, sem hann mælti með, að hægt sé að veita henni borgararétt, eftir því sem leiða má út frá 8. gr. laga um ríkisborgararétt, að hafi verið tilætlun löggjafans, til þess að komast hjá ágreiningi milli landa. Auk þess má segja um þessa konu eins og um síðari manninn hjá hv. þm. Barð., að engar formlegar umsóknir liggja fyrir, a.m.k., sem ég hef séð, og ekki vottorð þau, sem krafizt er. Ég hef spurt eftir slíku á skrifstofunni, en hef ekki séð annað en bréf frá Einari Ásmundssyni til hv. 1. þm. Reykv.

Þetta mál, um veitingu ríkisborgararéttar, hefur alltaf verið vandræðamál, og vil ég taka undir með hv. 2. þm. Árn., að nauðsyn ber til að setja fastar reglur um þetta, sem Alþ. víki ekki frá. En þegar ein stofnun hefur fullveldi vill það stundum verða svo, að hún víki frá reglum, sem hún hefur sjálf sett sér. Það er ekki, eins og hv. 3. landsk. sagði, með þessar giftu konur, að það væri af því, að þær væru ekki nunnur, að þær fengju ekki ríkisborgararétt, — en nunnunum var veittur borgararéttur af því, að þær fórna sér ókeypis fyrir sjúklinga hér, — heldur af því, að þær eru ófráskildar konur.

Út af fyrirspurn hv. 4. landsk. skal ég taka það fram, að sá maður, sem hann ber fram, var felldur í Nd., og sá n. enga ástæðu til að taka hann upp aftur, og mun ég ekki greiða honum atkv.