05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

13. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þótti ræða hv. þm. Seyðf. allundarleg. Það kom fram, að n. fylgdi ekki settum reglum, heldur veitti aðeins þeim mönnum borgararétt, sem hún teldi feng í að fá til landsins. Hann taldi m.a., að nunnurnar fórnuðu sér hér ókeypis, og taldi því feng í því að fá þær hingað, og skyldi þeim því veittur borgararéttur. Ég hygg, að þær fórni sér ekki algerlega, — eða hefur hv. þm. aldrei legið á Landakoti? En þetta mat er alveg óþolandi, ekki sízt þegar á einum degi eru haldnir 6 fundir hér í Alþ. til að veita mörgum mönnum ríkisborgararétt hér, sem engin skilyrði höfðu til að öðlast hann, en samt sem óður greiddu flestir hv. þm. því atkv., af því að það var álitinn fengur fyrir íslenzka ríkið að fá þá fjölskyldu, sem ef til vill kemur aldrei. Það var talað um, að sá Þjóðverji ætti að vera embættismaður, en ég veit ekki annað en því hafi verið lýst yfir, að hann yrði ekki embættismaður stjórnarinnar. En það var látið í það skína, að hann mundi koma með nokkra tugi þús. dollara til landsins, sem koma sjálfsagt aldrei heldur. — Hv. þm. Seyðf. sagði, að n. hefði ekki brotið reglu sína, en ég verð þá að segja, að verkin eru önnur en orðin. Ef þeir ætluðu að halda sinni stefnu, þá bar þeim skylda til að leggja til, að allir, sem ekki fullnægðu reglu n., væru felldir. Þá hefði verið hægt að taka þá alvarlega, og þá hefðu þeir einnig átt að fella þessa þýzku fjölskyldu. En segjast hafa ákveðna reglu og fylgja henni svo ekki, en það er á mati hvers einstaks nefndarmanns, hverjir séu hæfir til að vera íslenzkir ríkisborgarar, það er áhæft. Þá kom það fram í nál., að það er ekki þetta, sem ræður afstöðu n. Það er það, að þeir eru hræddir um, að frv. dagi uppi, — en því má það ekki daga uppi, ef svo margir eru í frv., sem þeir vilja ekki veita borgararétt? Eða er álit þeirra á hinum svo mikið, að þeir vilja þeirra vegna brjóta þá reglu, sem þeir hafa sjálfir sett, til þess að veita þeim ríkisborgararétt? Ég er alveg sammála þeim, sem hér hafa talað um að veita íslenzkum konum, sem glatað hafa réttindum sínum, aftur íslenzkan ríkisborgararétt. Ég tel það hneyksli, ef þeim er neitað um slíkt, ef þær sækja um það, þó að þær séu giftar í útlöndum. Og með sumar þeirra mun svo háttað, að þær fái ekki skilnað fyrr en þær hafa fengið þessi réttindi. Það hefur verið borið fram, að þær séu ekki íslenzkir ríkisborgarar, en eðlilega verða þær það þá fyrst, er þetta hefur verið samþ. og er hlægilegt að bera slíka röksemd á borð fyrir þm. Ég get sagt hv. þm., að hér er einn ágætur maður, sem ég hefði gaman af að sjá, hvort þeir vildu neita um ríkisborgararétt, þótt hann hafi um stund verið brezkur ríkisborgari. Eða eru þetta nokkur rök? Ég tel það smán, ef Alþ. vill ekki veita þessum konum borgararétt, ef þær æskja þess, og ég get ekki verið með í slíku og vil heldur, að frv. falli, heldur en greiða atkv. á móti slíkum brtt. Hv. frsm. sagði, að það hefði verið allt annað með þýzku fjölskylduna, því að henni hefði verið veittur borgararéttur með sérstökum lögum. Eru þetta ekki líka sérstök lög? Hvers konar málafærsla er þetta hjá hæstaréttarmálaflutningsmanni? En þýzka fjölskyldan var tekin í tölu íslenzkra borgara, án þess að nokkrar upplýsingar lægju fyrir um hana, og svo koma þessir menn og gagnrýna það, að Íslendingum sé aftur veittur sá réttur, sem þeir hafa misst vegna rangsleitni laganna. Hv. þm. sagði, að aðalástæðan fyrir því, að síðari maðurinn á brtt. frá mér hefði ekki verið samþ. í n., hefði verið sú, að ekki hefðu legið fyrir formlegar upplýsingar um hann. Hvar voru formlegu upplýsingarnar, þegar samþ. var að veita þýzku fjölskyldunni borgararétt? Ef þær hafa ekki verið fyrir hendi, hvaða heimild hafði þá n. til þess að neita þá ekki? Eða var það af því, að annar var milljónamæringur, en hinn átti ekkert? Er það matið? Ég get ekki fallizt á, að sú muni vera skoðun hv. þm. Og í 4. gr. laga um ríkisborgararétt, segir: „Engum má veita ríkisborgararétt, nema hann færi sönnur á það, að hann hafi aldrei orðið sekur um neitt það athæfi, sem hér á landi eða í heimalandi hans er talið svívirðilegt að almenningsáliti.“ Þetta er hægt að sanna með einu skeyti, og skal ég gera það. Og heyrir það vart undir, að ekki megi samþ. skírteinið hér, því að í lögunum segir, að enginn fái borgararétt, fyrr en hann hafi sannað, að hann sé laus við hið fyrra ríkisfang. Með því móti er gefinn frestur frá því, að Alþ. hefur samþ. veitingu ríkisborgararéttarins, og þangað til hann hefur öðlazt gildi með undirskrift forseta, að fengnum fullnægjandi sönnunum fyrir ónýting hins fyrra ríkisfangs. Hitt er annað mál, að nauðsynlegt er að endurskoða lögin. 1., 2., og 3. gr. fjalla um, hvaða kröfur séu gerðar til þeirra, sem um ríkisborgararétt sækja, og 4. gr. um, hvernig menn fái hann. Og væri eðlilegast, að um þetta væru settar fastar reglur og forseti gæti svo veitt réttindin, svo að ekki þyrfti að fá álit þeirra manna, sem meta pundið og kílóið í hverjum umsækjanda eða hvort þeir eigi vini á Alþ. eða hversu marga dollara eða mörk þeir eigi, og taka síðan afstöðu eftir því; það verði því ákveðið í lögum og á valdi forseta, hverjir verði íslenzkir ríkisborgarar. Þessar umræður hér á Alþ. um veitingu ríkisborgararéttar ár eftir ár eru reginhneyksli, sem ekki er þolandi.

Út af fyrirspurn frá hv. 3. landsk. skal ég upplýsa það, um manninn undir a-lið á þskj. 456, að ég var beðinn að flytja hann af því, að umsókn hans kom of seint til nefndarinnar. Hann er starfsmaður á Álafossi, og er ég honum ekki persónulega kunnugur, en vottorð frá sóknarpresti hefur verið lagt fyrir allshn. Um hinn manninn, KarI Johan Heinrich Svensson, er það að segja, að hann kom hingað 1936 og er bróðir konu Friðþjófs Johnsens á Patreksfirði og hefur alltaf starfað þar. Hann fékk að ganga hér laus öll stríðsárin. Nefndin hefur ekki fengið útfyllta þá skýrslu, sem hv. þm. Seyðf. taldi nauðsynlega. En ég get hvenær sem er fengið skeyti um það frá sóknarprestinum, hvernig hann hafi reynzt, og ég veit, að þetta er prýðismaður. Ég álít, meðan lögunum er ekki breytt, að sjálfsagt sé að veita öllum þeim, sem sækja og dvalið hafa hér tilskilinn tíma, borgararétt, ekki sízt eftir það fordæmi, sem gefið hefur verið hér í þinginu nýlega. Hvaða upplýsingar lágu fyrir um þýzku fjölskylduna, og samt var það mál hespað í gegnum þingið á sex fundum á einum degi? Þá sagði enginn af hv. þm. orð til að gagnrýna þær aðgerðir, þó að deilt sé um þessa menn, sem allir hafa reynzt prýðilegir þegnar, á meðan þeir hafa dvalið hér. Ég mun því greiða atkv. með öllum brtt. og tel enga ástæðu til að forðast að samþ. þær á þeim grundvelli, að þá þurfi frv. að fara til Nd., þegar tillit er tekið til þess, að sams konar frv. var afgr. í báðum d. á einum eftirmiðdegi.