23.04.1949
Efri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

13. mál, ríkisborgararéttur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég lagði inn brtt. á þskj. 362, a- og b-lið, um að ríkisborgararéttur yrði veittur tveimur persónum. Stafl. b hef ég tekið aftur, en vildi minnast á stafl. a, þar sem farið er fram á, að María Anna Elise Meinert, fædd 6. des. 1901 í Þýzkalandi, fái ríkisborgararétt. Hún er búin að vinna hér verzlunarstörf í ellefu eða tólf ár og hefur verið hér heimilisföst allan tímann — ég held, að hún hafi einu sinni farið af landi burt á þessu tímabili. Ég var nokkuð við það riðinn, er hún sótti, og það var að vissu leyti mér að kenna, að skjölin voru ekki komin svo fljótt til dómsmrn. sem skyldi, og því verð ég að flytja þessa brtt. Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja. Ég veit ekki, hvort n. hefur kynnt sér þetta, en vona, að hún sjái, að engir meinbugir eru hér á ferðinni.