27.10.1948
Neðri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

16. mál, áburðarverksmiðja

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það má kannske segja, að litlu máli skipti, í hvaða nefnd málið fari, en í fljótu bragði virðist mér augljóst, að málið eigi að fara til hv. iðnn., því að hér er fyrst og fremst um iðnað að ræða. Hins vegar býst ég alls ekki við, að málið verði á nokkurn hátt illa komið hjá hv. landbn., en mér finnast öll eðlilegheit mæla með því, að málið fari til hv. iðnn, — Það leikur enginn vafi á því, hve nauðsynlegt er, að þetta mál nái fram að ganga, enda hafa menn séð nauðsyn þessa máls fyrr, og nokkur frv. hafa verið flutt í þessa átt, en þetta er fullkomnast og gerir ráð fyrir stærstri verksmiðju samkvæmt því, sem menn hafa þreifað sig áfram með reynslu og umtali um áburðarþörfina. En þó kemur mjög til álita, hvort frv. geri ráð fyrir nægilega stórri verksmiðju, því að þótt hún framleiði 7.500 smálestir á ári, þá verður það brátt of lítið. Hitt er annað mál, hvort við getum ráðizt í stærri byggingu, m.a. vegna þess að okkur skortir til þess raforku. En þótt verksmiðjan verði ekki nægilega stór, þá er lítil verksmiðja betri en engin. Það er kunnugt, að ræktun miðar ört áfram síðustu árin og það er ætlunin að halda áfram á sömu braut, sem m.a. má marka á hinni miklu eftirspurn eftir landbúnaðarvélum, svo að gera má ráð fyrir, að áburðarþörfin stóraukist á næstu árum. Annars er óþarfi að eyða mörgum orðum um þetta, en ég vildi óska þess, að athugaðir yrðu vandlega möguleikarnir á því að reisa verksmiðju, sem framleiddi meira en 7.500 smálestir á ári.

Þegar frv. um sementsverksmiðju var til umr. á síðasta þingi, þá var ákveðin till. um það, að verksmiðjan skyldi vera í Önundarfirði. En í þessu frv. um áburðarverksmiðju er engin till. um staðsetningu hennar. Hæstv. landbrh. sagði þó, að hún yrði að fá raforku frá nýju Sogsvirkjuninni, og er það augljóst, að verksmiðja, sem þarf 8–10 þús. kw. orku, getur ekki fengið hana annars staðar að. Verksmiðjan hlýtur því að verða einhvers staðar á Suðvesturlandi, því að ekki kemur til mála að kosta dýra háspennulínu langar leiðir að verksmiðjunni. Um staðsetningu kemur náttúrlega ekki til mála að metast á eða togast, heldur verður að hafa það eitt í huga, hvar verksmiðjan verði bezt sett, og hefur mér að athuguðu máli helzt dottið í hug Þorlákshöfn í Árnessýslu. Verksmiðja sem þessi þarf að hafa greiðan aðgang að góðri höfn, en í Þorlákshöfn er nú verið að byggja hafskipabryggju, og mun það verða jafnsnemma, eða á árunum 1951–52, að höfnin verður fær stórum skipum og Sogsvirkjunin verður komin upp til að knýja áburðarverksmiðjuna. Það er og fleira, sem mælir með Þorlákshöfn. Hún er tiltölulega nærri orkuverinu, svo að þangað verður stutt leiðsla. Þá hefur það þýðingu í sambandi við staðsetningu áburðarverksmiðju, að mikið af áburðinum sé notað ekki langt frá. En það er einmitt á Suðurlandsundirlendinu, sem áburðarþörfin er mest og ræktunarskilyrði bezt, og sparaðist þá langur flutningur á áburðinum. Flutningur milli hafna er ákaflega dýr, en undanfarið hefur flutningskostnaðinum verið jafnað niður á allan áburðinn, og er ekkert nema gott um það að segja, en ef áburðurinn verður fluttur á milli hafna á kostnað verksmiðjunnar, þá hefur það ekki lítið að segja, hvort flytja þarf kannske ekki nema 30% eða kannske 60–70%. Það skiptir miklu um verðið á áburðinum og rekstur verksmiðjunnar.

Nú mun einhver segja, að eðlilegast sé að reisa verksmiðjuna þar, sem nauðsynleg hráefni séu sem hendi næst. Vist er það, ef orkugjafinn og hráefnið er nálægt hvert öðru. Ég er ekki fróður um, hvaða efni eru nauðsynleg, en ég hef þó heyrt um þau tvö er mestu ráða, loft og vatn, og ég geri ráð fyrir, að með tilliti til hráefnisins sé um líkan kostnað að ræða, hvort heldur er austan fjalls eða vestan. En aldrei verður komizt hjá því að flytja áburðinn eitthvað til, og þá er nauðsynlegt, að verksmiðjan sé við góða höfn.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál, hvar verksmiðjan á að standa, verði vel athugað, og ég tel eðlilegt, að það verði gert áður en lögin verða sett. Ég hef fengið dálitlar upplýsingar um málið og eftir að hafa fengið þær og þar sem mér finnast öll eðlilegheit mæla með því, þá hef ég lagt til, að verksmiðjan verði staðsett á Þorlákshöfn. Ef ekki koma fram rök gegn því, þá mun ég flytja brtt. þess efnis ásamt kannske fleirum hv. þm. Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo stöddu.