27.10.1948
Neðri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Rang. harmaði það, að í frv. skyldi ekki vera ákveðið, hvar áburðarverksmiðjuna skyldi reisa. Ég vil taka það fram, að það er með vilja gert að binda það ekki í frv., heldur fela væntanlegri n. eða stjórn verksmiðjunnar að ákveða það á sínum tíma í samráði við atvmrh. Ég skal þó geta þess, að staðsetning var töluvert athuguð af þeirri n., sem falið var að athuga slíkt. Ég átti sæti í þeirri n. Ég gerði þær athuganir með þeirri tilfinningu og ósk, að þær niðurstöður sýndu, að hagkvæmara væri að staðsetja þessa verksmiðju annars staðar en í Reykjavík, vegna þess eins, að mér er ljóst, að fullkomin þörf er að fá meira samræmi í atvinnulíf þjóðarinnar en nú er, þar sem þróunin virðist miða í þá átt, að meginhluti þjóðarinnar ætli að setjast að á einum stað. En eftir að búið var að ræða og rannsaka þetta mál, gat ég ekki neitað þeirri staðreynd; að það sýndi sig, að verksmiðja eins og þessi hlýtur að byggjast á Sogsrafmagni, vegna þess að það er gert ráð fyrir því, að mikill hluti af raforkunni verði næturorka, afgangsorka, sem hvergi er til í eins ríkum mæli og út frá Sogsvirkjuninni eða virkjun, sem hefur yfir að ráða ekki minni raforku en Sogið. Þess vegna komst ég að þeirri niðurstöðu, að það væri heppilegast að staðsetja þessa verksmiðju þar, sem hægt er að ná til Sogsrafmagnsins. Það sýndi sig einnig, eftir nákvæma athugun, að heildarframleiðslukostnaðurinn mundi verða minnstur hér í nágrenni höfuðstaðarins. Er þá t.d. að athuga, að ef verksmiðjan er í nágrenni við stóran bæ, eru meiri líkur til, að hægt sé að komast hjá því að byggja sérstakan bæ fyrir starfsmenn, en það mundi auka stórkostlega útgjöld við þessar framkvæmdir, í staðinn fyrir að geta gripið til manna, sem búsettir eru á svæðinu, eins og gæti komið til mála í nágrenni Akureyrar og Reykjavíkur. En það var hins vegar, eins og ég hef tekið fram, ákveðið að setja ekki neinn ákveðinn stað inn í frv. til þess að losna við togstreitu innan hæstv. Alþ., sem mundi geta orðið til þess að tefja málið um of, og einnig til þess, að væntanleg stjórn eða nefnd gætu athugað það mál til hlítar, ef eitthvað nýtt gæti komið fram, sem breytti hinni fyrri niðurstöðu. Hv. þm. talaði um, að hægt væri að flytja hráefnið hvert sem væri. Það er að vísu rétt, því að það er ekkert annað en vatn og loft og svo rafmagn, en fleira mun þó koma til greina.

Hv. 2. þm. Reykv. ræddi aðallega um stóriðju í sambandi við þetta mál, og hans hugleiðingar eru út af fyrir sig alveg réttar. Það er ekki nokkur vafi á því, að við þurfum að taka þau mál fyrir fljótlega og hvernig við eigum að skapa okkar innanlandsatvinnurekstur og útflutningsatvinnurekstur með fossaaflinu og iðjumöguleikum í landinu, og það er stórmál út af fyrir sig, en ég held, að það stangist ekki við þetta frv. Ég hugsaði töluvert um þessa hlið málsins, áður en ég ákvað þá stærð á verksmiðjunni, sem ég legg hér til.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að sá galli væri á meðferð þessa máls, að það væri ekki hugsað samhliða um raforkuframkvæmdina, raforkuþörfina og áburðarþörfina. Þetta er ekki rétt hjá honum, vegna þess að raforkuþörfin, raforkuframkvæmdin og áburðarþörfin er bundin saman í þessu frv. Þær raforkuframkvæmdir, sem fyrir liggur að gera á næstu árum og við verðum að reyna að sjá okkur fært að gera, er fyrirhuguð virkjun á Soginu, sem áburðarverksmiðjustærðin hefur verið sniðin eftir. Hitt er svo annað, hvað stóriðju snertir, það mál höfum við ekki rannsakað enn þá, en ég hef aðeins aflað mér upplýsinga um það, hvað mundi þurfa langan tíma til þess að virkja meginhluta af Soginu, og hef ég fengið þær upplýsingar, að þótt við byrjuðum í dag á slíkum framkvæmdum og undirbúningi væri hraðað eins og hægt væri, þá tæki það að minnsta kosti 10 ár að fullvirkja Sogið, þannig að ef við ættum nú fyrst og fremst að byrja á athugunum og rannsókn í þessu sambandi og síðan á framkvæmdum, þá mundi það taka alltaf 15 ár, þar til komið væri á fót verulegri stóriðju. Og þessar framkvæmdir og verksmiðjur þeirrar raforku mundu kosta um 500 millj. kr., og auk þess mætti búast við, að þyrfti að byggja allstóra borg á þessu svæði, sem hér hefur ekki verið gert ráð fyrir í sambandi við þessa virkjun. Ég held þess vegna, að þetta séu tvö óskyld mál. En aftur á móti ef við nú reisum þá verksmiðju, sem hér er um að ræða, en byrjuðum í dag að rannsaka möguleika fyrir stóriðju, þá mun áburðarverksmiðjan vera langt komin að borga sig, þegar stóriðjuframkvæmdin er orðin að veruleika.

Ég er fyllilega sammála hv. 2. þm. Reykv. í því, að við þurfum fljótlega að snúa okkur að því að rannsaka möguleika fyrir stóriðjurekstri í sambandi við fossaaflið á Íslandi, en við getum hins vegar ekki beðið með að reisa þessa verksmiðju, nema okkur til stórtjóns, þangað til þeirri rannsókn er lokið, og við erum svo mikil börn á því sviði, sem að slíkri iðju lýtur, sem eðlilegt er, að ég álit mjög heppilegt fyrir okkur að afla okkur reynslu með þeim byrjunarframkvæmdum að reisa þessa áburðarverksmiðju, sem gert er ráð fyrir með þessu frv.

Ég þakka þær undirtektir, sem þetta frv. hefur fengið hér í hv. d. Það má telja það gott fyrirheit um afgreiðslu málsins, að 3 n. þingsins skuli keppast um að fá það til sín. Ég trúi hverri n. sem er fyrir málinu, en ég vil þó heldur leggja til, að málið fari, eins og venja hefur verið, til hv. landbn. Hins vegar vil ég mælast til þess, að hvor n. sem fær málið til meðferðar hafi samráð við iðnn. og þá einnig við fjhn. um þau atriði málsins eins og hér hefur verið bent á.