04.02.1949
Neðri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

16. mál, áburðarverksmiðja

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að ganga fram fyrir skjöldu og tala á undan minni hl., en mun aðeins tala örstutt. En það, er veldur því að ég kveð mér hljóðs, er þetta. Án þess að frv. sjálfs sé gætt né heldur, hversu gott má þykja að ákveða, að framleiða skuli áburð hér á landi við kostnaðarverði, þá eru í frv. athugaverð atriði, sem hæstv. ríkisstj. ætti að bera fram brtt. um. Annars mun ég bera fram brtt. við 3. umr. Ég vil nefna t.d. ákvæðið í 2. gr. frv., sem er á þessa leið: „Ef fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hrökkva ekki til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, er verksmiðjustjórninni heimilt að taka það fé, sem á vantar, að láni með ábyrgð ríkissjóðs innanlands eða utan.“ Ég skil það ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. getur lagt til, að valdið yfir skuldum ríkisins erlendis sé tekið úr sínum höndum og lagt í hendur einhverrar n. Ég held, að hér hafi verið farið að af miklu fljótræði, og vil því beina því til hæstv. ráðh., þess er málið kemur undir, að hann endurskoði þetta fyrir 3. umr. Ef hann er þessu hins vegar ekki sammála, mun ég flytja brtt. um að nema burt úr frv. ákvæðið um heimild þessarar n. — Fleira er í frv., sem ég vil gera aths. við. Ég vil t.d. benda á, að í 5. gr. er sömu n. fengið vald í hendur til þess að ákveða, hvar verksmiðjan skuli reist. Ég kann illa við, að Alþ. afsali sér valdi um slík fyrirtæki og feli það sérstakri n., er skuldbinda megi ríkið. Ég sé, að hæstv. ráðh. er genginn út. Ég hygg, að hann sé viðriðinn þetta mál. Nei, fyrirgefið. Ég sagði þetta af því, að hæstv. samgmrh. hefur faglega þekkingu á málinu sem verkfræðingur, hvað kostnaðinn snertir. En þá beini ég orðum mínum til hæstv. landbrh., því að ég veit, að undir hann koma þessir hlutir, að hann taki þetta til athugunar, og vil ég helzt ekki þurfa að fara að bera fram brtt. Er betra, að þetta komi frá hæstv. ráðh. sjálfum, og ég vænti þess. Það er ekki hægt að fela einni n. milljónaútgjöld ríkisins. Því síður er hægt að taka þá ákvörðun úr hendi Alþ., hvort ríkið skuli safna skuldum erlendis, og vísa henni til n. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. sé sömu skoðunar í þessu. Ég veit, að hver sá maður, er væri ráðh., mundi kjósa menn með þá ábyrgðartilfinningu í n., að engin hætta þyrfti að vera á ferðum.