04.02.1949
Neðri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Ég hélt, að frsm. meiri hl. mundi minnast á það, að í landbn. voru allir sammála um, að þetta væri hið mesta þjóðnytjamál í raun og sannleika, og einnig hitt, að undirstaðan væri raforkan. Leiðir skildust hins vegar fyrst og fremst af því, að ég hef álitið, að hér væri ekki nægilega séð fyrir þessu og stærri átaka væri þörf, enda ber samning frv. það með sér, að þetta hefur ekki verið tekið til greina. Gert er ráð fyrir að reisa 2.500 tonna verksmiðju. Öll n. telur þetta ekki koma til greina. En hugsunin er sú, að stærð verksmiðjunnar eigi að miða við rafmagn það, sem til hennar kann að fást frá Sogsvirkjuninni, og sé eigi unnt að fara lengra, en í frv. og nál. meiri hl. felst. Þetta álít ég, að sé ekki rétt. Allir þeir sérfræðingar, sem við þetta hafa fengizt, hafa látið uppi reikninga sína, hve mikið þurfi til verksmiðjunnar. Síðan slitnaði upp úr samstarfinu í n. hef ég svo fengið umsagnir manna, að eftir því sem virkjuninni mun miða áfram skv. áætlunum, þá muni hún ekki verða örari, en þörfin heimtar. Ráðið er því, þegar ráðizt er í svona stórt fyrirtæki og arðbært, að menn mega ekki vera smátækir, og þetta stórþrifafyrirtæki á að vera hlekkur í þróun stóriðjunnar hér á landi, og verður að ráðast í sérstaka virkjun, til þess að sá þröskuldur verði ekki í vegi hennar. Nú, — svo eru það þá rafmagnsmálin. Þau eru byggð sérstaklega upp fyrir þörf fólksins í kaupstöðum landsins. Þessi þróun er eigi örari en svo, að ævinlega hefur verið hungur eftir rafmagni frá Sogsvirkjuninni. Eftir að ríkið tók við virkjuninni, en því er ég eigi sammála að öllu leyti, er rétt að ætlast til þess, að það taki stóran þátt í kostnaðinum við iðnaðinn. Takmarkið er að gera stærri átök. Þetta er það fyrst og fremst, sem á að gera. Ég verð að játa það eins og hv. frsm. meiri hl., að ég hef enga tækniþekkingu á málinu, og verð ég því að tala út frá því, sem mér finnst eiga að gera skv. fyrirliggjandi reikningsáætlunum. En upphaflegur ágreiningur í n. spratt af orkuþörfinni. Ég hafði hugsað mér að bera fram brtt. um 50 –60 þús. tonna verksmiðju. Eftir upplýsingum frá raforkumálastjóra er ekki hægt að hafa verksmiðjuna stærri en 40 þús. tonna, og því lagði ég einmitt fram brtt. um 30–40 þús. tonn. Ég hélt í fáfræði minni, að Urriðafoss gæti staðið undir 6 sinnum stærri verksmiðju, en Sogið. Ef þetta er ekki kleift, er það sama og að leggja málið í gröfina, — ég endurtek það. Yrði farið að því, sem í frv. stendur, hlytu önnur fyrirtæki og aðrar iðngreinir að verða hart úti. Í frv. stendur, að fara eigi upp í 7.500 tonn. En áburðarverksmiðjunefndinni hefur eigi þótt taka því að reikna rekstrarkostnaðinn af 2.500 smál. verksmiðju. Nú hefur verið gerður reikningur yfir rekstur 5.000 smál. verksmiðju og annarrar 7.500 smál. Sýnir hann, að rekstur hinnar stærri er mun arðvænlegri, en hinnar minni og framleiðslukostnaður hennar er um 10% lægri. Með enn meiri stækkun verður svo rekstur verksmiðjunnar æ ódýrari, en sem svaraði lækkun rekstrarkostnaðarins við 2.500 tonna stækkun verksmiðjunnar. Eftir þessu lækkar framleiðsluverðið alltaf samkvæmt tölunum: Tonnið af köfnunarefni kemst niður í 1.133 kr. fyrir 30.000 smálesta verksmiðjuna úr 1.410 kr. fyrir 7.500 smálesta verksmiðjuna. Þetta, sem ég sagði, var gert til þess að fá samþykki hv. n. í málinu, en ég held, að málið verði eigi til eins mikilla þjóðþrifa og það liggur hér fyrir í heild sinni. Ég skrifaði raforkumálastjóra, Jakob Gíslasyni, bréf, og hann sendi aftur rafmagnsstjóra, Steingrími Jónssyni, fyrirspurnir varðandi málið. Ein spurningin var þess efnis, hvort markaður yrði fyrir allt rafmagnið frá nýju Sogsstöðinni, þegar hún væri tilbúin, án þess að áburðarverksmiðjan tæki nokkuð af því. Verður að treysta niðurstöðum hans, þar sem segir svo — með leyfi hæstv. forseta: „Vöxtur raforkunotkunar í Reykjavík var frá fyrsta rekstrarári, 1922, fram til 1936, meðan Elliðaárstöðin var ein, 7.5% á ári að meðaltali, sem hvert ár var hærra, en næsta ár á undan. Frá 1937, eftir að Sogsvirkjunin tók til starfa, til ársloka 1948 hefur vöxturinn verið að meðaltali nær 25% á ári. Meðalvöxtur frá 1922–1948 hefur verið 14% til jafnaðar, en það svarar til nærri 4-földunar á hverjum áratug. Ef því sami vöxtur verður áfram eins og meðaltalið hefur verið 1922–1948, er þörf á, að allt Sogið verði virkjað á einum áratug, enda þótt ekki komi til áburðarverksmiðja.“ Segir hann að endingu, að spurningunni megi tvímælalaust svara játandi. Þetta er svo mikilvægt atriði, að með þessu er fengið úr því skorið, að sé eigi beinlínis tekin upp ný virkjun, þá er þetta fyrst og fremst óframkvæmanlegt. [Frh.]