07.02.1949
Neðri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu þessa máls, og ég vil segja, að ég er í aðalatriðum sammála þeim brtt., sem meiri hl. n. ber fram við frv.

Frá því fyrsta að við Íslendingar lögðum fram frv. um að koma upp áburðarverksmiðju, höfum við alltaf orðið sammála um að hafa hana æ stærri og stærri, eftir því sem við höfum hugsað málið lengur. Fyrsta uppástungan var 500 tonn, sú næsta mun hafa verið 1.200 tonn, þriðji áfanginn 2.500 tonn, og nú erum við komnir upp í að hafa lágmarkið 7.500 tonn. Byggist þetta á því fyrst og fremst, að fyrst þegar farið var að ræða þessi mál, var notkun hins erlenda áburðar svo lítil, að okkur hætti við að miða afköst verksmiðjunnar við það, sem þá var flutt inn. En þessi áburðarþörf hefur aukizt hröðum skrefum, og það hefur verkað á till. um stærð verksmiðjunnar, og nú er komið það langt, að gert er ráð fyrir að framleiða töluvert meira áburðarmagn en líkur eru á, að áburðarþörfin verði hér á næstu árum, afkastagetan er jafnvel áætluð allt að helmingi meiri, en áburðarþörfin. Nú er gert ráð fyrir, að við þurfum 2.500 tonn af köfnunarefnisáburði, en með aukinni ræktun er áætlað, að 1953–54 muni þörfin vera orðin 3600–4000 tonn og svo síhækkandi úr því. Það má því gera ráð fyrir því, að verði verksmiðjan sett hér upp fljótlega, þá þurfum við að flytja allmikið af framleiðslunni út fyrstu árin eða áratugina. Misjafnar skoðanir eru að vísu á því, hvort treysta megi á markaði fyrir köfnunarefnisáburð, en allar líkur benda þó til, að þörfin verði allmikil í næstu framtíð. Nefnd, sem vinnur að úthlutun áburðar í Ameríku, taldi, að köfnunarefnisáburðarþörfin væri einni milljón tonna meiri, en framleiðslan. En nú er þó fyrir dyrum mikil aukning á köfnunarefnisáburðarverksmiðjum á meginlandinu og talið, að köfnunarefnisáburðarþörfinni geti orðið fullnægt árin 1953–54, en þessar áætlanir eru byggðar á till. hinna ýmsu landa í sambandi við Marshall-aðstoðina, og víða eru slíkar áætlanir gerðar til hins ýtrasta, og má búast við, að ekki gangi alls staðar eins og áætlað er, svo að þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru líkur til þess, að áburðarþörfin verði allmikil fyrst um sinn. Þannig getum við verið allöruggir um nokkurn markað, a.m.k. fyrstu árin, sem verksmiðjan starfar, er við þurfum helzt á útflutningi áburðar að halda. Ég get því verið sammála hv. n. um að hækka hámark framleiðslunnar úr 7.500 upp í 10.000 tonn. Að ég setti ekki hærri tölu í frv., stafaði aðallega af því, að sú Sogsvirkjun, sem áformuð er, er ekki meiri en það, að hún geti gefið orku fyrir 7.500 tonna verksmiðju eða rösklega það, en nú er annar virkjunaráfangi áætlaður, sem mun gefa af því, sem nú stendur fyrir dyrum, svo að það má hugsa sér að byggja þannig, að nokkur hluti verksmiðjunnar sé miðaður við 10 þús. tonn, en t.d. vetnisvinnsluhlutann, sem er dýrasti hlutinn og auðveldast að bæta við, mætti miða við 7.500 tonn og reka hann þannig fyrstu árin, meðan verið er að leysa úr raforkuþörfinni, sem skapast við það, að verksmiðjan er sett inn á hina nýju virkjun Sogsins. — Um aðrar brtt. frá meiri hl. hv. n. get ég verið fáorður. Þær eru yfirleitt til bóta, a.m.k. sú síðasta, því að það ákvæði 8. gr., sem hún snertir, á ekki heima í frv., eins og nú er gert ráð fyrir, en var sett inn í frv., þegar ekki var gert ráð fyrir neinum útflutningi.

Þá vil ég gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 5. þm. Reykv. og þá aðallega varðandi 2. gr. frv., en orðalag hennar er m.a. á þá leið, að ef fjárveitingar samkv. fjárl. hrökkva ekki til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, þá sé verksmiðjustjórninni heimilt að taka það fé, sem á vantar, að láni með ábyrgð ríkissjóðs innanlands eða utan. Þetta þótti hv. þm. ógætilegt og of mikið vald fengið verksmiðjustjórn, og get ég verið honum sammála um, að svo megi líta á, að verksmiðjustjórn sé fengið ærið vald, en ákvæði eru þó í frv. um það, að til skuli koma samþykki ríkisstj., áður en verksmiðjustjórn hefst handa um þessa hluti. En ég get gengið til móts við hv. þm. um það að setja ákvæði inn í frv., sem skýrt taki fram, að samþykki ríkisstj. skuli áskilið, áður en þær ráðstafanir, sem ræðir um í 2. gr., eru gerðar, eins og það er háð samþykki ríkisstj., hvort verkinu skuli hleypt af stokkunum eða ekki.

Þá vil ég snúa mér ofur litið að aðalbrtt. frá hv. minni hl. n. og skal segja það strax, að út af fyrir sig játa ég, að það væri æskilegt, ef við Íslendingar sæjum okkur fært að ráðast í slík stórvirki, sem hv. minni hl. leggur til í sínum till., en þá um leið er málið komið á annan og nýjan grundvöll. Málið, eins og það er nú, er tilraun til þess að leysa aðkallandi vandamál landbúnaðarins svo fljótt sem auðið er. En með þeim brtt., sem fyrir liggja frá hv. minni hl., þá er málið fyrst og fremst orðið stóriðjumál, sem að vísu kemur landbúnaðinum að notum, og því verður ekki neitað, að áburðurinn yrði talsvert ódýrari fá svona stórri verksmiðju, en sá galli er á gjöf Njarðar, að allar líkur eru til, að málið geti tafizt um ófyrirsjáanlegan tíma, ef horfið væri að ráði hv. minni hl. Fyrst og fremst er þá um að ræða fyrirtæki, sem að áliti hv. minni hl. sjálfs mundi kosta á þriðja hundrað milljónir króna, og auk þess er gert ráð fyrir að virkja Urriðafoss, og þarf þá að kaupa til þess réttindi í Þjórsá, þannig að sýnt er, að gífurlegt fjármagn þarf til þess að framfylgja till. hv. minni hl. n. Gert er ráð fyrir í nál. hv. minni hl., að virkjun Urriðafoss og verksmiðjubygging á grundvelli þeirrar virkjunar mundi taka 6–8 ár, en sérfræðingur, sem ég hef rætt við, telur, að slíkar framkvæmdir mundu taka a.m.k. 10 ár, frá því að undirbúningur væri hafinn og þar til virkjun og verksmiðja væru upp komnar, og væri þó um óvenjulegan hraða í framkvæmdum að ræða. Ef því leið minni hl. er valin, þá er málinu frestað um 8–10 ár, og á meðan þurfum við að kaupa áburð erlendis frá og láta þar fyrir af hendi gjaldeyri í síauknum mæli. Til hins standa vonir með þeim undirbúningi, sem þegar er hafinn um viðbótarvirkjun Sogsins, að sú verksmiðja, sem frv. gerir ráð fyrir, geti verið tilbúin eftir 3–4 ár, svo framarlega sem fjármagn fæst til, en ef það reynist örðugt að fá fjármagn til að reisa verksmiðju fyrir 10.000 tonn með virkjun, sem þegar er undirbúin, hversu örðugt mun þá ekki verða að fá fjármagn til þess að reisa það tröllfyrirtæki, sem hv. minni hl. leggur til, að gert verði. Ef áburðarverksmiðja, eins og frv. gerir ráð fyrir, yrði komin upp eftir 3–4 ár, þá eru líkur til, að á næstu 5–6 árum væri hún búin að borga sig gjaldeyrislega, og er þá fengin undirstaða áframhaldandi starfsemi í þessum efnum, ef við treystum okkur til. En eins og ég benti á, er málið fært yfir á annan grundvöll með till. hv. minni hl. Hv. minni hl. leggur til, að hafizt verði handa um stóriðju til útflutnings aðallega, í stað þess að reisa minni verksmiðju til þess fyrst og fremst að fullnægja þörfinni innanlands, þar sem þó verði stuðzt við útflutning á umframframleiðslu fyrst í stað. Ég neita því ekki, að till. hv. minni hl. snerta eitt af stærstu málum okkar Íslendinga, sem sé það, að okkur takist að koma okkur upp stóriðju sem fyrst. Þótt við séum ánægðir með gæði okkar íslenzku moldar og bjartsýnir á auðlegð hafdjúpanna, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, að við eigum þriðju auðlindina, en það er sú mikla orka í fossum og hverum, og ef við erum menn til að nytja þetta land, þá verðum við að beina þessari orku til að þjóna framleiðslunni, og í framtíðinni munu þessar auðlindir fossa og hvera verða þriðji máttarstólpinn, sem þjóðlíf okkar hvílir á, í viðbót við hina tvo, er ég gat um áðan, en ég tel málið ekki nægilega undirbúið til þess að ákveða nú stóriðju og það endilega á áburði. Margt fleira kemur til greina, t.d. magníum og aluminium, og þarf þetta allt stórkostlegan undirbúning. Við þurfum að afla okkur sérfræðinga til að annast rannsóknir á því, á hvaða sviði við eigum helzt að beita okkur að stóriðju, hvað sé líklegast til árangurs og hvað líklegast til þess að tryggja öryggi í atvinnuháttum landsmanna. Það er því hæpið að leggja nú út í fyrirtæki, eins og hv. minni hl. leggur til, því að áður en það er gert, þarf einnig að tryggja örugga markaði fyrir framleiðsluna, því að það er grundvallaratriði til þess, að verksmiðjan geti borið sig. — Þegar ég mæli á móti till. minni hl., þá er það ekki af því, að ég sé andvígur þeirri stefnu, sem þar er tekin upp, en ég tel, að ekki eigi að nota þetta mál til að skjóta hugmyndinni um að reisa á allra næstu árum áburðarverksmiðju til hliðar og á frest, en með till. hv. minni hl. tel ég þeirri hugmynd komið fyrir kattarnef um ófyrirsjáanlegan tíma. Ég legg því til, að hv. d. sjái sér fært að ganga frá málinu eins og meiri hl. hv. landbn. hefur lagt til, en að ekki verði lagt út í það ævintýri, sem hv. minni hl. leggur til, og tel, að hefjast beri handa um alhliða rannsókn á verðmætum og auðæfum landsins og fá till. sérfræðinga um það, hvernig vandamálin skuli leyst. Ég skal geta þess, að ég átti tal við ungan og mjög efnilegan, íslenzkan verkfræðing, sem setzt hefur að úti í Ameríku. Hann er þar í mjög miklu áliti, og hefur hann lokið verkfræðinámi í ýmsum greinum, en hugur hans hefur staðið til Íslands eins og fleiri manna í hans aðstöðu. Þessi ungi maður sagði mér; að það væri sérstök námsgrein, sem kennd er við ameríska skóla, sem hann hefði áhuga á að kynna sér, en það er að rannsaka orku- og auðlindir hvers einstaks lands. Hvatti ég hann til að nema þessa grein og gerast síðan starfsmaður sinnar þjóðar og taldi, að honum yrði í því skyni veittur styrkur héðan að heiman. Hann vissi þá ekki, hvað hann mundi gera, og hef ég ekki fylgzt með honum síðan, en einhverja slíka rannsókn, sem hann gat um við mig, þurfum við, áður en Alþ. gengur frá því frv., sem bindur þjóðinni þyngri bagga, en hún áður hefur borið og gerir ráð fyrir framkvæmdum, sem óvíst er, hvort við erum menn til að leysa af hendi. Hins vegar, ef reist verður verksmiðja eins og hv. meiri hl. leggur til, þá er það verksmiðja, sem er algerlega frambærileg og samkeppnisfær að stærð, og þá erum við komnir á nauðsynlegan grundvöll. Og þegar búið er að reka slíka verksmiðju í nokkur ár, þá höfum við öðlazt nokkra þekkingu á verksmiðjurekstri, þannig að við getum byggt þar ofan á og tekið stærri skrefin síðar. Slík verksmiðja yrði góður skóli, sem við getum notað, á meðan við leitum frekari þekkingar, sem við síðar gætum notað til þess að koma upp verksmiðjurekstri í enn stærri stíl. - Ég vildi mæla með því, að d. sæi sér fært að standa með þeim till., sem hv. meiri hl. landbn. leggur hér til málanna.