09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

16. mál, áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Mér þykir það nokkur galli, að frsm. meiri hl. landbn. í þessu máli er hér ekki viðstaddur, en ég sé nú hér tvo aðra hv. þdm., sem sæti eiga í þeirri n., og vil vænta þess, að þeir taki til athugunar innan n. þetta atriði, sem ég ætla að minnast á, ef málið verður athugað þar milli umr., sem mér þykir ekki ósennilegt. Það, sem ég vildi minnast á, er 9. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir, að útsvar til sveitarsjóðs megi leggja á þessa áburðarverksmiðju. Ég tel nokkuð vafasamt, að ástæða sé til að hafa þetta í l., heldur ætti að undanþiggja verksmiðjuna útsvarsgreiðslum, eins og hún á að vera samkvæmt frv. laus við önnur opinber gjöld. Ég tel það fullvíst, að hvaða sveitarstjórn eða bæjarstjórn sem er í landinu mundi fúslega vilja fá þetta fyrirtæki í sitt bæjar- eða sveitarfélag, jafnvel þó að það hefði ekki rétt til að leggja á fyrirtækið útsvar. Vegna slíks rekstrar sem þessa verða aukin viðskipti á þeim stöðum, þar sem fyrirtækin eru, og um leið auknir möguleikar til útsvarsálagningar á fólkið, sem atvinnu hefur við verksmiðjuna. Þetta virðist mér, að ætti að nægja, þó að ekki sé lagt á fyrirtækið sjálft. Ég skal að vísu játa, að þetta ákvæði er í samræmi við það, sem mun hafa verið sett í l. um sementsverksmiðju, sem nýlega voru samþ. hér á Alþ., en yrði nú á það fallizt að nema þetta ákvæði burt úr frv., væri mjög auðvelt að breyta l. um sementsverksmiðju og setja þau að þessu leyti í sama horf. — Ég mun ekki að þessu sinni gera að umræðuefni önnur atriði frv., en vildi mælast til þess, að n. tæki þessa ábendingu til athugunar, fyrir 3. umr. málsins.