11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Það hefur ekkert komið fram í ræðum þeirra, sem skipa meiri hl. landbn., um það, að raforkan frá Soginu mundi vera nægileg til að reka 10 þús. smáI. verksmiðju, og þess vegna er málið á sama stigi og þegar frv. kom fyrst frá ráðh. og hann ætlaði að reisa 3 þús. smál. verksmiðju með rafmagn frá Laxá, þegar viðbótarvirkjunin væri komin til framkvæmda.

Hv. frsm. meiri hl. hélt að vísu nokkuð öðru fram í ræðu sinni, en það, sem n. klofnaði nú aðallega um, var orkuspursmálið. Fjarstöðu og söluerfiðleikum hefur líka verið borið við. En engin mótbára hefur komið fram gegn því, að þetta fyrirtæki væri því arðvænlegra sem það er stærra. En eins og ég tók fram, er með frv. aðeins miðað við þann þrönga stakk að fylla innlendu þörfina. Á hitt bæri þó fremur að líta í þessu máli, sem e.t.v. er alvarlegast, en það er sú gjaldeyrisöflun, sem landbúnaðurinn þarf alltaf að fá í vaxandi mæli. Og ég hugsa, að þetta sé jafnvel lífsspursmál fyrir landbúnaðinn. Af þeim mönnum, sem mest hafa haft með þetta að gera, hefur í því sambandi miklu fremur verið reiknað með áburðarframleiðslunni heldur en t.d. framleiðslu á magnesíum og hún talin ein hin tryggasta með tilliti til sölu á erlendum markaði. En nú standa sakir þannig, að með allri þeirri nýju vélatækni, sem risin er upp í landinu, verður afleiðingin sú, að gjaldeyrisþörfin eykst mjög að sama skapi. Það er t.d. núna endalaust verið að skora á innflutningsyfirvöldin að gefa frjálsan innflutning á varahlutum í vélar. Og ég er viss um, að áskoranir í því efni eiga eftir að berast frá öllum búnaðarsamböndunum. En til þess að geta mætt þessum þörfum og kröfum þarf aukinn gjaldeyri til landbúnaðarins. Þann gjaldeyri þyrfti hann að geta lagt til sjálfur. Það er augljóslega rangt, að ein tegund framleiðslunnar hafi sérréttindi á kostnað annarra atvinnuvega. Allir verða að hafa jafnan rétt. Og þörf sína á gjaldeyri til þess að endurnýja og auka við vélakost sinn getur landbúnaðurinn leyst með áburðarverksmiðju, sem skapað getur gjaldeyri. Og þörfin er brýn, — þörfin á viðhaldi vex stöðugt. Og það þarf hvorki bóndi né neinn annar að ætla sér að láta bilaða vél ganga, nema með því að bæta það, sem brotið er eða úr sér gengið. Og meðan jafnmikil vöntun er á slíkum hlutum, get ég ekki skilið þessa afstöðu, að vilja fleygja frá sér þeim verðmætum, sem þarna skapast, því að engin framleiðsla yrði okkur raunverulega verðmætari en þessi. Það er ekki hægt að nytja jörðina endalaust án þess að láta eitthvað í staðinn, og víða um heim er hún farin að gefa minni afrakstur vegna rányrkju, svo að jafnvel horfir sums staðar til landauðnar. Og ef til vill verður áburður í náinni framtíð eftirsóttasta varan á heimsmarkaðinum, svo að það er eitthvað annað, en hér sé um óvissa markaðsvöru að ræða. Vitandi það, að hver orkueining þýðir í mörgum hlutum sparaðan gjaldeyri, þá mundi ég skoða þetta sem mesta framfaramál. Það er spurning, hvort þetta mundi spara meiri olíu og kol eða innfluttan áburð. Og það er ábyggilegt, að þetta mundi skapa sveitunum mörg þægindi, sem sveitafólkið yrði annars að vera án. Og jafnframt gæti það orðið til þess, að bæirnir hefðu meiri getu til að notfæra sér rafmagn og þau þægindi, sem það skapar.

Við umræður meiri hl. n. um þetta mál hefur allt verið miðað við það að hlaða ofan á fyrstu till., sem kom fram, og það sjónarmið ráðið að skera þessu þann þrönga stakk að miða við, hvað hægt væri að reisa minnsta áburðarverksmiðju, til þess að hún bæri sig. Þetta sjónarmið verður að hverfa og hitt sjónarmiðið að skapast: Hvað getum við reist stóra verksmiðju? Og íslenzkir bændur verða að eiga þann stórhug, að þeir hiki ekki við að hrinda fram þessu hagsmunamáli landbúnaðarins.