18.02.1949
Neðri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Meiri hl. landbn. ber hér fram á þskj. 363 tvær brtt. Í fyrsta lagi er það brtt. við 2. gr. frv. Við 2. umr. hér í hv. d. komu fram brtt. við frv., bæði frá hv. minni hl. landbn. og sömuleiðis frá hv. 5. þm. Reykv., við þessa gr. Við í meiri hl. landbn. athuguðum þessar brtt. og höfum orðið ásáttir um að taka þær að miklu leyti til greina. Aðalbrtt. n. er fólgin í því, að síðari málsliðir gr. eru felldir niður. Það er fellt niður úr gr. það ákvæði, að ríkissjóður skuli greiða vexti af lánum þeim, sem áburðarverksmiðjan kann að taka, og sömuleiðis ákvæðið: „að því leyti sem það“ (þ.e. vaxtagreiðslan) „telst nauðsynlegt, til að verð á íslenzkum köfnunarefnisáburði verði sambærilegt við erlendan áburð.“ M.ö.o., það er fellt niður, að ríkissjóður eigi að greiða niður verð áburðarins frá verksmiðjunni, til þess að það verði ekki hærra, en á þeim köfnunarefnisáburði, sem hægt væri að fá frá útlöndum. Meiri hl. n. féllst á, að það væri óviðkunnanlegt að hafa þetta ákvæði í lögum,og brtt.er borin fram af meiri hl. n. út frá því sjónarmiði, að eðlilegt verði að teljast, að áburður, framleiddur hér innanlands, yrði ekki dýrari en sá, sem inn væri fluttur. Út frá því sjónarmiði féllst meiri hl. n. á það að fella þetta ákvæði niður, þó að hann hins vegar teldi ekki ástæðu til að gera brtt. um það að fyrra bragði, af því að þetta ákvæði var borið fram í stjfrv. því, sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir Alþ. Og að vísu væri nokkurt öryggi í slíku ákvæði fyrir landbúnaðinn, þó að við föllumst á, að rétt og réttlætanlegt sé að fella þetta niður.

Hv. 5. þm. Reykv. bar fram hér brtt. á þskj. 327 við 2. umr. málsins, þar sem hann er nú algerlega sammála þeirri brtt. meiri hl. landbn., sem nú liggur fyrir, um að fella niður seinni hluta 2. gr. En hv. 5. þm. Reykv. vill bæta aftan við 2. málsl. 2. gr. frv. orðunum: „ef Alþingi samþykkir lánsfjárhæðina og lánskjörin,“ þ.e. á þeim lánum, sem nauðsynlegt er fyrir verksmiðjustjórnina að taka til stofnkostnaðar verksmiðjunnar. Meiri hl. landbn. vill bæta inn í gr., að samþykkt ríkisstj. þurfi til þess, að verksmiðjustjórninni sé heimilt að taka slíkt lán. Þetta var ekki í upphaflegu gr. Þetta ákvæði er náttúrlega sjálfsagt, en hins vegar telur meiri hl. landbn. ástæðulaust að ganga lengra í þessu efni. Það verður að treysta hverri ríkisstj. á hvaða tíma sem er til að ganga ekki lengra í þessum efnum en hún veit, að hún hefur vilja Alþ. fyrir, enda mun þetta vera alveg hliðstætt við það, sem er í ýmsum lögum, t.d. þeim l., sem afgr. voru hér í fyrra um sementsverksmiðju. Og telur meiri hl. landbn. í þessu efni ekki ástæðu til að ganga lengra í þessum l. en þá var gert. Væntir meiri hl. n., að hv. 5. þm. Reykv. geti sætt sig við það, sem hér er orðið, því að svo langt hefur verið komið á móti hans brtt. hvað þetta snertir.

Þá er á sama þskj. frá meiri hl. landbn. brtt. við 9. gr. frv., þar sem talað er um skyldur verksmiðjunnar til skattgreiðslu. Hefur hv. minni hl. n. borið fram brtt. við 2. umr. málsins við 9. gr., eins og hún er í frv. nú, og var mælt fyrir þeirri brtt. á þeim grundvelli, að þar væri um lækkun að ræða, þar væri takmörkuð útsvarsskylda verksmiðjunnar til sveitarsjóðs. En það er hæpið, eins og sú till. er, að þar sé um lækkun að ræða. Þar gæti, eftir þeirri till., í mjög mörgum tilfellum orðið um hækkun á útsvari að ræða. Í frv., eins og það nú er, er þannig til orða tekið: „Aldrei má leggja á hana“ (þ.e. verksmiðjuna) „hærra útsvar en nemi helmingi af tekjuafgangi hennar eða 1/2% af kostnaðarverði framleiðslunnar ár hvert. Heimilt skal þó jafnan að leggja á hana útsvar, er nemi allt að 1/4% af árlegu kostnaðarverði framleiðslunnar.“ Nú vill hv. minni hl. n. fella niður úr gr., að nokkurt tillit verði tekið til tekjuafgangs verksmiðjunnar við álagningu útsvars, en hins vegar megi hækka útsvarið frá því; sem í frv. er gert ráð fyrir, í 1% af kostnaðarverði framleiðslunnar. Það liggur því í augum uppi, að hér gæti verið um allverulega hækkun að ræða á útsvari verksmiðjunnar frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., eins og það er nú. Og ef gr. er höfð í l. eins og hún er nú í frv. og ef tekjuafgangur verður mjög litill, verður útsvar verksmiðjunnar miklu minna en 1/2% af kostnaðarverði framleiðslunnar. Hér væri því eins líklegt, að um hækkun á útsvari verksmiðjunnar væri að ræða, ef brtt. hv. minni hl. n. yrði samþ. Hins vegar er meiri hl. landbn. á því, að rétt sé og sjálfsagt að takmarka mjög, að verksmiðjan sé skyld til að greiða útsvar. Það kom fram hér við 2. umr. það sjónarmið frá hv. þdm., að verksmiðjan skyldi vera alveg útsvarsfrjáls, og ég skal taka fram, að ég álit — og ég held, að sú skoðun sé ráðandi hjá meiri hl. n. — þetta vera rétt sjónarmið. Það eru svo mikil hlunnindi fyrir hvaða sveitarfélag sem er að fá til sín slíkt atvinnutæki með öllu því fólki og starfsemi, sem er í kringum það, sem fær tekjur til skattálagningar, að ástæðulaust er að skattleggja þetta fyrirtæki, eins og hugsað er, að það verði byggt upp hér. — Og með þetta allt í huga hefur meiri hl. n. lagt til, að brtt. á þskj. 363 yrði samþ., sem fer í þá átt, að það megi aldrei leggja hærra útsvar á áburðarverksmiðjuna, en nemi 1% af tekjuafgangi hennar, og vill alls ekki að neinu leyti miða útsvarið við kostnaðarverð framleiðslu verksmiðjunnar. Með þessu er náttúrlega mjög í hóf stillt um útsvarsskyldu verksmiðjunnar og það svo, að hér getur ekki verið um nema litlar upphæðir að ræða, nema um stórkostlegt gróðafyrirtæki sé að ræða, þannig að tekjuafgangur verksmiðjunnar fari að velta á milljónum kr., og væri þá ekki nema réttlætanlegt, að eitthvað gangi til opinberra þarfa af tekjuafganginum, þegar svo væri komið. Sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt. Hún gengur í sömu átt, en þó nokkuð miklu lengra en hv. minni hl. landbn. vildi leggja til með sinni brtt.

Þá vil ég taka það fram, að við 2. umr. málsins tók meiri hl. landbn. aftur brtt. sína á þskj. 246 við 4. gr. frv., þ.e. um það, hvernig stjórn verksmiðjunnar skyldi skipuð, og var það af því, að hv. minni hl. n. hefur borið fram á þskj. 312 brtt. í þá átt, að verksmiðjustjórnin skyldi skipuð 5 mönnum í stað þriggja eins og meiri hl. n. hefur lagt til. Ég vil taka fram, að meiri hl. n. hefur ekki séð sér fært að koma á móti hv. minni hl. n. hvað þessa brtt. snertir og heldur sér því við þá till., sem hér lá fyrir við 2. umr. málsins á þskj. 246 og óskar eftir því, að hún verði borin upp til atkv. hér. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni.