18.02.1949
Neðri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég skal strax geta þess, að ég get fyllilega fallizt á þær brtt., sem fram eru bornar af hv. meiri hl. landbn., enda hafði ég rætt við n. um þau atriði og gat þess sömuleiðis í umr. um málið við 2. umr. Þessi ákvæði, — eins og ég skýrði frá áður, — bæði um framlagið og einnig varnaglinn um vaxtaábyrgð ríkissjóðs af lánum verksmiðjunnar, verða frekast að skoðast sem leifar frá fyrri tímabilum þessa máls, þegar frv. um þetta efni voru flutt fram í þeirri stærð, eða réttara sagt smæð, að ekki var almennt trú á því, að svo litlar verksmiðjur gætu staðizt samkeppni við framleiðslu köfnunarefnisáburðar frá verksmiðjum, sem væru stærri og afkastameiri. En eftir að málið er komið á þann grundvöll, að hér er hugsað að reisa verksmiðju, sem er af svipaðri stærð og fjölda margar áburðarverksmiðjur úti í heimi, sem taldar eru fyllilega starfhæfar, og komið er inn á að keppa við verksmiðjur af sömu stærð, þá teljum við enga ástæðu til þess að óttast það, að þessi verksmiðja geti ekki orðið fyllilega samkeppnisfær við hinar aðrar verksmiðjur af sömu stærð. Þannig á það ekki að teljast nauðsyn á því að hafa þennan varnagla lengur í frv., þó að það sé ekki hægt að neita því, að það hefði verið meira öryggi fyrir stofnunina, ef hún hefði fengið þannig í hendur að nokkru leyti óafturkræft eigið fé eða fé, sem hefði verið létt vaxtabyrði af, því að ef þannig hefði verið ástatt, að ríkið hefði verið þess umkomið að leggja verksmiðjunni fram stofnfé, sem hún ætti og væri óafturkræft, þá væri aðstaða þessa fyrirtækis um ókomna framtíð allt önnur en án þess, þar sem hún hefði getað byggt sig upp af eigin fé í hvert skipti sem vélar hennar væru úr sér gengnar, en ekki þurft að taka þetta af rekstrinum. Hins vegar get ég fallizt á þessa brtt. Ég hef trú á, að þetta fyrirtæki, ef upp verður komið, geti staðið straum af þeim fjármunum, sem því væru fengnir í hendur, á venjulegum rekstrargrundvelli. En um það er ekki hægt að segja neitt með vissu. Enginn getur ábyrgzt slíka hluti, og þar af leiðandi get ég ekki gefið hv. 5. þm. Reykv. trú á því, að þetta sé fjárhagslega öruggt fyrirtæki, úr því að hann hefur ekki skapað sér hana sjálfur, — á sama hátt og ótrú hans dregur ekki úr huga mínum þær vonir, sem ég byggi í þessu máli, að fram kominni þeirri rannsókn, sem fram hefur farið, og ég vona, að svo verði það með aðra hv. þm.Hv. 5. þm. Reykv. taldi ólíklegt af reynslunni, og eiginlega af öllum ástæðum, að við Íslendingar gætum framleitt ódýrari iðnaðarvörur, en aðrar þjóðir. Það má náttúrlega ýmislegt um þetta segja og færa rök fyrir þessu máli hv. þm. En hér er á tvennt að líta. Fyrst og fremst á það, að við höfum rekið okkur á það, Íslendingar, þegar við ætlum að keppa við aðrar þjóðir, bæði um iðnaðarvarning og annað, að við stöndum því verr að vígi í þeirri samkeppni, sem sú framleiðsla, sem um er að ræða, byggist meira á mannkraftinum. Því fleiri menn og því fleiri hendur sem þurfa að vinna við fyrirtækin, því verr stöndum við að vígi í þessu efni vegna þess, hve okkar verðlag og kaupgjald er miklu hærra, en í öðrum löndum, sem við ætlum við að keppa. Þetta horfir hins vegar allt öðruvísi við, ef við eignumst tæki, sem eru mjög fullkomin að vélasamsetningu, þannig að vélaaflið vinnur meginhlutann af verkinu. Og þá er þetta komið inn á allt annað svið. Ég býst t.d. við, að ef við ættum að fara að keppa við aðrar þjóðir um prjónles, sem eingöngu væri prjónað í höndum, bæði hér heima og erlendis, þá yrðum við ekki samkeppnisfærir. Hins vegar er mér sagt, og ég hygg að það sé rétt, að búið sé að koma hér upp í landinu prjóniðnaði, sem vinnur svo automatískt, að það þurfi ekki nema fáar hendur til þess að stýra verkinu. Og mér er tjáð, að þessar fullkomnu prjónastofur séu algerlega samkeppnisfærar um þessa vinnu, vegna þess að vélar vinna ekkert verr hjá okkur, en annars staðar. Og nú er framleiðsla áburðar orðin ákaflega mekaniseruð, þannig að það þarf mjög lítið vinnuafl manna við þá framleiðslu. Og þetta eitt út af fyrir sig ætti að gefa okkur vonir um það, að við fengjum með þessu fyrirtæki möguleika til þess að geta orðið algerlega samkeppnisfærir við aðrar þjóðir, ef annað, sem við þurfum á að halda, er að sama skapi hentugt eins og vélasamsetning þessara verksmiðja. Og nú er það viðurkennt, að okkar aðstaða til raforkuvinnslu í þessu landi er þannig, að það eru mjög fá lönd, sem hafa jafngóða aðstöðu til þess að framleiða ódýra raforku eins og við Íslendingar höfum í okkar landi. Ég held, að í Norðurálfu sé ekkert land, sem standi okkar landi framar í þessu efni, nema Noregur. Og þess vegna er það þýðingarmikið, að við getum lagt fram og notað náttúrukraft, sem við ekki getum notað til annars og er að fullu samkeppnisfær við aðra náttúruorku, og notað þessa orku til þess að framleiða alveg samkeppnisfæra vöru. — Annað er á að líta einnig, að það er ekki alveg öruggt, að það verð, sem við höfum orðið að búa við undanfarið á áburði, sem við höfum keypt, og við e.t.v. verðum að búa við fyrst um sinn, sé framleiðsluverðið. Það er ekki sagt, að svo sé, en það vill nú oft verða svo, að ef þurrð er á vöru í heiminum og mikil eftirspurn, þá hafa þeir, sem valdið hafa yfir vörunni, mörg ráð til þess að leggja hærra verð á vöruna, en framleiðsluverðið eitt. Og á því getur byggzt sú niðurstaða í þeim athugunum og rannsóknum, sem hér hafa farið fram og leitt hafa í ljós, að við höfum líkur til að geta framleitt áburð með allmiklu lægra verði, en við höfum keypt hann fyrir á undanförnum árum. Og það er nokkurn veginn víst, að þessi niðurstaða byggist á þessu, að við höfum verið látnir greiða fyrir áburðinn miklu meira verð, en framleiðslukostnað. Þess vegna er það, að þó við gætum ekki framleitt áburðinn með lægri framleiðslukostnaði en aðrir, þá er þetta sjálfsögð sjálfsvörn og öryggi fyrir okkur að geta tryggt það, að íslenzkur landbúnaður geti fengið þessa nauðsynjavöru með kostnaðarverði, en ekki gróðaverði erlendra framleiðenda.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að sér virtist, að þeir, sem að frv. þessu standa, hafi sýnt það, að þeim væri álíka innanbrjósts og honum, og vantrú á þessu fyrirtæki gægðist fram í ákvæðum 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir óafturkræfu framlagi frá ríkissjóði til fyrirtækisins eða vaxtalétti, ef til kæmi, að samkeppni við erlend fyrirtæki sýndi, að á því þyrfti að halda. Það má kannske segja þetta — kannske að nokkru leyti. En ég hef svarað því áður, að þessi ákvæði í frv. eru meira leifar frá fyrri stigum meðferðar málsins. Og auk þess, ef ríkið ætti að kosta stofnsetningu þessa fyrirtækis, ef ætti að framkvæma þetta þannig, þá væri þetta æskilegt fyrir þetta fyrirtæki. Hins vegar geri ég fyllilega ráð fyrir því, eins og högum okkar er háttað nú, og geng að því vitandi vits, að ríkið á ekki kost á því að koma þessu fyrirtæki upp skuldlausu, því miður, og leggja því til óafturkræft reiðufé og að þess vegna sé ekki í annað hús að venda, en að leita lánsfjár til framkvæmdanna. Það er að vísu rétt, að aldrei verða höfð of mörg varnaðarorð um það að gæta hófs um að taka erlend lán, og dettur mér ekki í hug að neita því. En ég vil þó, að það séu undir öllum kringumstæðum athugaðar málsástæður. Og ef ég er öruggur í þeirri trú, að það fyrirtæki, sem lánsfé er fengið til að koma upp, verði arðbært fyrirtæki, og ef enn fremur liggur fyrir, að sú framleiðsla, sem það á að annast, sparar beint eða óbeint stærri gjaldeyrisupphæðir á fáum árum, en þarf að greiða fyrir þau erlendu lán, þá tel ég ekki aðeins forsvaranlegt, heldur sjálfsagt að taka þau lán, ef hægt er að fá góð lánskjör. Og það er það, sem liggur fyrir hér og er hverjum manni augljóst, að sá gjaldeyrir, sem ríkið hlýtur að spara á fáum árum við það að losna við að kaupa þessa áburðartegund, sem ekki er nú að fá nema erlendis frá, — ef við getum sparað þennan gjaldeyri alveg með vaxandi framleiðslu á næstu árum, þá er greinilegt, að þjóðfélagslega séð verður ágóði af slíku fyrirtæki. — Það hefur verið rætt um það hér áður, og þá í sambandi við annað mál, að það er einmitt fyrirhugað nú, að þau lán, sem Íslandi er álitið að standi til boða gegnum Marshalllögin, og er ekki um deilt, að eru mjög hagkvæm lán, hagkvæmustu lán, sem nokkurs staðar eru á boðstólum nú, — það er ætlazt til þess, að þeim verði m.a. varið til þessara framkvæmda og ýmissa svipaðra stórframkvæmda. Þannig að ef við höfum trú á þessu fyrirtæki og viljum koma því upp, þá tel ég óforsvaranlegt, að þessu máli verði ekki einmitt hrundið í framkvæmd nú, til þess að við getum orðið aðnjótandi að þessum lánum og þeim lánskjörum, sem bundin eru við Marshalllöggjöfina.

Ég skal ekki ræða við hv. 5. þm. Reykv. um hans brtt. Mér fannst hv. meiri hl. landbn. ganga þannig til móts við hann í þessu, að öruggt ætti að teljast, að það væri tryggt, sem þessi hv. þm. vildi tryggja, enda eru ákvæði þau í þessu efni, sem nú eru í brtt. hv. meiri hl. n., alveg sams konar og í samsvarandi löggjöf á öðrum sviðum, bæði í lögum um síldarverksmiðjur ríkisins og lögum um sementsverksmiðju, því að þar er alls staðar gert ráð fyrir því, að þegar Alþ. hefur ákveðið að leita eftir að fá lán til að reisa framkvæmdir, þá er ríkisstj. fengið þetta til fyrirgreiðslu og það lagt í hendur ríkisstj., og þá fjmrh., sem í hvert skipti á að hafa og hefur þessi mál í höndum sér. Og sennilega verður það alltaf svo, að hér starfar einhver ríkisstj., sem Alþ. treystir til að fara með slík mál. Og þá er það ekki meira vald, sem henni er fengið í fjármálum þjóðarinnar í þessu falli en öðrum. — Sem sagt, ég fellst fyllilega á brtt. hv. meiri hl. landbn. og óska, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þær.