18.02.1949
Neðri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

16. mál, áburðarverksmiðja

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. meiri hl. landbn. hefur borið fram brtt. við 2. gr. á þskj. 363, þar sem gert er ráð fyrir, að numið verði í burtu, að ríkissjóður greiði vexti af lánsfé til verksmiðjunnar. Ég get lýst ánægju minni yfir þessari brtt., því að mér skilst, að hér komi fram trygging fyrir því, að ekki verði lagt út í þetta, nema tryggt sé, að fyrirtækið verði sæmilega fjárhagslega öruggt. Eins og framhald af þessari brtt. vil ég leyfa mér að benda á, að í 8. gr., eins og hún nú er, er gert ráð fyrir í síðasta málsl. fyrri málsgr., að í hinu áætlaða kostnaðarverði skuli reikna með nauðsynlegum og lögákveðnum tillögum í fyrningasjóð og varasjóð verksmiðjunnar. Ef nú er gert ráð fyrir, að verksmiðjan standi undir lánum eftir breyt. þá, sem lögð er til í 2. gr., þá virðist vanta, að þegar tiltekinn er kostnaður áburðarins, sé einnig reiknað með nauðsynlegum vöxtum og afborgunum lána. Ég fyrir mitt leyti tel nauðsynlegt, að þessu sé breytt, og leyfi mér að leggja fram brtt., sem ég vil leyfa mér að lýsa hér, með leyfi hæstv. forseta. Breyt. er á þá leið, að í 8. gr. bætist það ákvæði, að við ákvörðun kostnaðarverðs skuli tekið tillit til vaxta og afborgana. Breyt. er ekki önnur en sú, að skýrar er tekið fram það, sem mér virtist, að hafi verið meining hv. n. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir, að fé, sem ríkissjóður kann að veita til áburðarverksmiðjunnar, standi áfram óafturkræft né heldur vextir af því, heldur einungis af lánum samkv. 2. gr. Ég tel raunar, að það sé ætlun hæstv. atvmrh. og hv. meiri hl. n., að þessu sé hagað svo, en tel rétt að taka þetta fram í l. til samræmingar öðrum l., t.d. um síldarverksmiðjur. Ég vona því, að hæstv. atvmrh. og hv. meiri hl. geti fallizt á þetta.

Ég gat þess við 2. umr., að nauðsynlegt væri að fá verkfræðilega aðstoð og sérfræðinga, sem boðið er með Marshallaðstoðinni. Hæstv. atvmrh. tók vel í þetta, og ég ítreka þá ósk við hæstv. ríkisstj., að hún reyni sem fyrst að nota sér þá sérfræðilegu aðstoð, sem boðin er með Marshallhjálpinni. Það leikur ekki á tveim tungum, að Bandaríkjamenn standa mjög framarlega í vatnsvirkjunum og eiga færari sérfræðinga en aðrar þjóðir. Ég tel því, ekki sízt í sambandi við skýrslu frá raforkumálastjóra og rafmagnsstjóra Reykjavíkur, að nauðsynlegt sé nú þegar að fá umsögn bandarískra verkfræðinga, bæði um vatnsvirkjun og þessa áburðarverksmiðju. Og ég vil, að þetta verði gert strax. Ef til vill kæmi þá í ljós, að stærð sú, sem Alþ. hefur hugsað sér á verksmiðjunni, sé ekki sú rétta, og þá treysti ég því, að hæstv. ríkisstj. leiti til Alþ. um breytingu á því. Ég hef enga verkfræðilega möguleika til að dæma um, hvort þetta er sú rétta stærð. Ég ítreka því við hæstv. atvmrh., að hann snúi sér í þessum efnum til réttra aðila, bæði um vatnsvirkjunina og verksmiðjuna. Við höfum notað Marshallaðstoðina til að byggja síldarverksmiðju hér við Faxaflóa, og þó að það hafi verið nokkuð umdeilt, leikur það vart á tveim tungum, að það verður heppilegra og kostar minna, en flytja síldina til Siglufjarðar. Þá höfum við fengið dollara fyrir fisk, sem seldur hefur verið til sterlingspundssvæðisins. En hvorug þessi ráðstöfun er stórt skref í þá átt, sem er meginmarkmið Marhallaðstoðarinnar, að byggja upp framtíðaratvinnuvegina hér, og þurfum við þar að taka stærri skref. En ég ber það traust til hæstv. ríkisstj.,að ég veit, að hún mun nota Marshallaðstoðina svo sem til er ætlazt. En mér er nær að halda, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki sinnt þessum málum svo sem þurft hefði. Ég ber hið mesta traust til sendiherra okkar í París, sem mjög hefur verið við þetta mál riðinn, en ég tel mjög hæpið, að ríkisstj. hafi veitt honum þá aðstoð, sem þurft hefur. Ýmsir færir menn hafa verið með sendiherranum, en enginn festst við það, unz nú ungur námsmaður, sem lært hefur í Ameríku. Flestar þjóðir hafa sent sína færustu menn til Marshallráðstefnunnar og verja miklu fé í því skyni. Ég hef nýlega séð í dönsku blaði eftir Bull fyrrv. forsrh., að sá mikli árangur, sem Danir hafa náð í að byggja upp hjá sér atvinnuvegina, sé Marshallaðstoðinni að þakka og nauðsynlegt sé að fylgjast sem bezt með öllu, til að aðstoðin komi að sem mestu gagni. Ég vil því ítreka áskorun mína frá 2. umr., að hæstv. ríkisstj. noti væntanlega sérfræðingahjálp frá Bandaríkjunum í öllum efnum, er mega verða til að byggja upp framtíðaratvinnuvegi vora. Í þessum tilmælum er ekkert vantraust falið á þá menn, sem hafa kynnt sér þessi mál. En hitt er alkunn staðreynd, að betur sjá augu en auga, og þó að við eigum marga góða verkfræðinga, þá hafa þeir ekki þá menntun, þekkingu og reynslu, sem sumir amerískir verkfræðingar hafa.