18.02.1949
Neðri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekkert segja um þessa brtt. frá hv. þm. Ísaf. Ég held næstum, að hún sé óþörf og að það felist í ákvæðum frv., sem felst í henni. Þannig geri ég ráð fyrir, að á þetta yrði litið í framkvæmdinni og þá eins hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki. Annars vil ég taka fram í sambandi við ræðu þessa hv. þm., að það er ekki nema alveg sjálfsagt, áður en ráðizt er í framkvæmd þessa fyrirtækis, ef þetta frv. verður að lögum, að leitað sé beztu og fyllstu upplýsinga, sem hægt er að fá í þessum efnum. Ég er honum alveg sammála um, að nota beri sér til hins ítrasta allar þær upplýsingar, sem fyrir liggja í sambandi við Marshallaðstoðina, og færustu sérfræðinga á þessu sviði. Það er sjálfsagt að taka ábendingar hans fyllilega til greina. Ég vil geta þess, að mitt ráðuneyti hefur reynt að aðstoða sendiherra okkar í París, sem mest hvílir á af okkar fulltrúum í sambandi við Marshallaðstoðina, eftir föngum, svo að hann gæti lagt málin sem gleggst fyrir af okkar hálfu. En það hefur komið skýrt fram hjá stofnun Evrópu-Marshalllandanna í París, að nokkur tregða hefur verið á, að þeir mæltu með þessum framkvæmdum hjá okkur, og vilja margir vinna þetta verk, að koma upp slíkum atvinnufyrirtækjum. Nú þegar hefur af Íslands hálfu verið leitað tilboða í byggingu áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju frá Ítalíu, Frakklandi, Sviss, Englandi og Vestur-Þýzkalandi til samanburðar tilboðum, sem liggja að nokkru leyti fyrir frá Bandaríkjunum. Sömuleiðis hefur verið leitað tilboða á Norðurlöndum í þessar verksmiðjur, svo að allar upplýsingar liggi sem ljósast fyrir. Varðandi sementsverksmiðjuna skipaði ég nýlega sérfræðinganefnd til að ljúka undirbúningi málsins innanlands, og nýlega var hér á ferð sérfræðingur frá fyrirtækinu F.L. Smith & Co. í Kaupmannahöfn, sem hefur útibú í London og Bandaríkjunum og er eitt af öruggustu og þekktustu fyrirtækjum í heimi á sviði sementsframleiðslu og sementsverksmiðjubygginga. Samkomulag varð um það við þennan sérfræðing, að fyrirtæki hans tæki að sér hinar ítrustu rannsóknir á hráefni okkar til sementsframleiðslu með því að framleiða sement úr því, gæfi allar tæknilegar upplýsingar varðandi framleiðsluaðferðir og vélar og annað, sem þörf er á, gerði teikningu af verksmiðjunni og tilboð í hana, og munu allar þessar upplýsingar varðandi sementsverksmiðjuna brátt liggja fyrir, og eins verður farið að varðandi áburðarverksmiðjuna. Ég læt mér ekki nægja minna en fyllstu, ítrustu og ábyggilegustu upplýsingar, sem hægt er að fá, áður en ráðizt verður í þessa framkvæmd.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hverju ég svaraði, er ég kæmi til erlendra banka eða þeirra, sem úthluta Marshalllánum, og talaði fyrir tveimur fyrirtækjum, öðru, sem gæfi eina milljón í tekjuafgang, og hinu, er gæfi 30 milljónir í tekjuafgang. Hann spurði, hvernig ég gæti forsvarað það fyrir lánveitandanum að biðja um lán til þess fyrirtækisins, sem gæfi ekki nema einn þrítugasta af sér á við hitt. Ég skal nú segja hv. þm., að ég sé ekki, að allar dyr standi okkur opnar og það væri sama, hvað við bæðum um og færum fram á, við fengjum það allt. Mér skilst, að allar Marshallþjóðirnar hafi sótt um meira, en líkur séu til, að hægt sé að veita af aðstoðinni, þannig að ég get ekki ímyndað mér, að við mundum fá ótakmarkaðar óskir uppfylltar. Hins vegar mundi ég áreiðanlega verða spurður um það af lánveitanda, hvort við hefðum tryggt okkur markað fyrir framleiðslu þess risafyrirtækis, sem hv. 2. þm. Reykv. vill koma upp. Og mér yrði þá sennilega svarafátt og yrði sennilega að vísa þar um til hv. 2. þm. Reykv., og vona ég þá, að hann gæti forsvarað það, svo að orð hans yrðu tekin sem góð og gild vara.

Þá spurði hv. þm. í sambandi við það ákvæði frv., að áburðarsölu ríkisins er gert að kaupa áburðinn á kostnaðarverði, hvort það ætti að skiljast svo, að áburðarsalan væri skyldug til þess á hverjum tíma að kaupa áburðinn á kostnaðarverði, hvort sem það lægi undir eða yfir erlendu markaðsverði. Ég get sagt hv. þm., að ég hef litið svo á, að við værum bundnir við kostnaðarverðið, hvert sem markaðsverðið er. Ég veit ekki betur en að þetta sé svo í öllum löndum, sem framleiða áburð eða aðrar vörur, bæði til heimanotkunar og útflutnings. Eins yrðu Íslendingar að binda sig við framleiðsluverð áburðarins, þó að varan væri ár og ár boðin ódýrari erlendis. Það hefur iðulega komið fyrir, t.d. í Englandi, að selja hefur orðið vöruna úr landi fyrir neðan kostnaðarverð, en kostnaðarverðið hefur verið látið gilda í heimalandinu. Þetta hefur t.d. iðulega verið gert með sement í Englandi. Eins yrðum við að binda okkur við kostnaðarverðið, — ég sé ekki aðra leið fram úr því.

Hv. 2. þm. Reykv. endaði ræðu sína á áminningarprédikun til hv. Nd., meiri hl. n. og mín og bar okkur á brýn smásýni og hrósaði happi yfir því, að það hefði ekki fallið í okkar hlut að ákveða tölu togaranna, þegar fyrrv. stjórn gerði samninga um kaup á 30 togurum. Það var gott, að hann minntist á þetta, það gefur tilefni til að minna á, að hann svaf sjálfur á verðinum, á meðan hann var einn meðal þeirra æðstu manna, sem höfðu með innflutninginn að gera, og nóg var til af gjaldeyri. Það má kannske segja, að þá hafi verið leikur einn að koma upp slíku fyrirtæki, sem hann er nú að prédika um, en það var bara ekki gert. En þegar búið er að eyða öllu í þarft og óþarft og allt er á heljarþröminni, ef svo mætti segja, vegna þeirrar eyðslu, þá kemur þessi hv. þm. og heimtar, að þessar risaframkvæmdir séu settar á stofn, sem yrði þá eingöngu að vera með lánum, innlendum eða erlendum. Og nú ásakar hann þá menn, sem eru að reyna að koma þeirri framkvæmd á laggirnar, sem þeir þráðu, að gerð hefði verið, meðan nóg fé var fyrir hendi, en ekki var gert þá, m.a. fyrir vanrækslu þessa hv. þm. Hin stóru orð bitna því fyrst og fremst á honum sjálfum, sem mistókst svo hrapallega, á meðan hann átti tækifærin, að hann lét þau ganga úr greipum sér.