21.02.1949
Neðri deild: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Mér kom á óvart, að hv. 1. þm. Skagf. skyldi vera svona ofsafenginn í sinni ræðu. Ég á öðru að venjast af honum, sérstaklega að hann skyldi koma með bein ósannindi í sinni ræðu. Ég mun nú skýra sálfræðilega, hvers vegna honum varð þetta á. Ég þekki hann það vel, að ég veit, að hann hefur ekki ætlað sér að gera það.

Hv. þm. sagði, að ég hefði í ræðu hér í þinginu haldið því fram, að það væri bráðnauðsynlegt að kaupa 75–100 togara.(StgrSt: Ég sagði ekki, að það hefði verið í þinginu.) Jæja, hvar sem það var. Þetta átti að sanna, hvað ég væri mikill ofsatrúarmaður. Hvernig stendur á, að hann finnur upp að búa þessa tölu til og vera svo kominn með hana upp í 100, áður en hann lýkur máli sínu? Í ræðu, sem ég hélt hér upphaflega í þinginu og varð talsvert umtöluð, hélt ég fram, að við ættum að kaupa 20–30 togara. Fyrir það var ég kallaður skýjaglópur. Þá var ekki búið að finna upp orðið „ofsatrúarmaður“. En þessi till. þótti mesta fjarstæða, og ég var skammaður fyrir hana. Framsfl. þótti enn þá vitlausara, þegar ríkisstj. var mynduð 1945 upp á að kaupa þessa 30 togara. Framsfl. gagnrýndi það á allra handa máta, og sá, sem Framsfl. mest trúði á í landinu og situr nú til að stjórna öllum fjármálum þjóðarinnar, hann sagði þetta hreina flónsku. Nú eru þessir menn sannfærðir um, að þetta var ekki ofsatrú, heldur raunhæf og eðlileg þróun, þó að það þætti skýjaborgir og ofsatrú í fyrstu. Þess vegna finnur hv. 1. þm. Skagf., að það þýðir ekki að segja, að það hafi verið ofsatrú að kaupa 20–30 togara, og þess vegna segir hann, að þeir hafi átt að vera 90–100. Svona fjarstæður skapast út af nauðsyninni í pólitískum áróðri. Hv. 1. þm. Skagf. mætti líka minnast þess, að þegar togararnir voru keyptir, flutti Sósfl. brtt. um, að heimildin væri hækkuð upp í 50. Sú till. var felld af hv. 1. þm. Skagf. og öðrum, sem styðja hæstv. núverandi ríkisstj. Það hefði vafalaust verið mjög hagkvæmt fyrir Íslendinga að kaupa árið 1945 50 togara, en ekki 30. Hæstv. núverandi ríkisstj. gerði árið 1948 ráðstafanir til að kaupa 10 togara. Þá komu stuðningsmenn hæstv. núverandi stj. auga á, að það hefði verið skynsamlegra að kaupa fleiri togara en 30 árið 1945, því að það hefur valdið þjóðinni tugmilljónakróna gjaldeyristapi. Sá ruglingur á tölu togaranna, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Skagf., mun vera þannig til kominn, að í áætlun nýbyggingarráðs er gert ráð fyrir, að árið 1951 ætti helzt að vera til í landinu 75 togarar, gamlir og nýir. Hitt er aðeins tilbúningur, sem hann bætir við, þar sem hann er að gera mér upp orð, sem ég hef aldrei sagt.

Ég er þá búinn að rekja allt, sem sagt hefur verið um tölur í þessu sambandi, og þar með eru allar röksemdir hv. 1. þm. Skagf. hrundar, því að röksemdir hans voru á þá leið, að af því að ég hefði viljað kaupa 90. togara, þá væri vitlaust að byggja 30 þús. smál. áburðarverksmiðju, en ekki 10 þús. smál. Ég tek þetta sem mark um það, að meira að segja þeir af hv. meiri hl. landbn., sem af mestri stillingu hafa rætt þetta frv., hafi komizt nokkuð út úr jafnvægi. Ég kenni því um, að þeir séu farnir að efast um réttmæti skoðana sinna. Ég hef aldrei haldið fram, að þeir hafi ekki viljað gera það réttasta. Hitt er ég hræddur um, að þeir hafi ekki gert sér nægilega mikið far um að sjá, hvað réttast er.

Hæstv. landbrh. hefur svarað fyrirspurn minni um það, hvort bændur væru bundnir við kostnaðarverð. Hann sagðist ætlast til, að íslenzkir bændur borguðu kostnaðarverð af að framleiða áburðinn. Þetta þýðir, að miðað við 10 þús. smál. verksmiðju eiga þeir að borga 1.544 krónur á tonnið, eða 400 krónum meira, en þeir mundu borga samkvæmt útreikningunum um 30 þús. smál. verksmiðjuna, því að þar er gert ráð fyrir 1.133 kr. á tonnið. M.ö.o., hæstv. atvmrh. álítur, að það eigi að skylda íslenzka bændur til að borga áburðinn 400 kr. hærra verði hvert tonn, en hægt er að framleiða hann fyrir með stærri verksmiðjunni. Með því að samþ. minni verksmiðjuna er verið að samþ. 2 millj. kr. skatt á bændur, miðað við stærri verksmiðjuna. Mér þætti nú vænt um að heyra, hvort bændur ættu sjálfir að borga þetta eða það á að velta því yfir á neytendur og reikna með því, þegar landbúnaðarvörur eru verðlagðar, ef fylgt verður áfram svipuðu kerfi og gert hefur verið nú að undanförnu. Og svo framarlega sem það er gert að velta því yfir á neytendur, þá verður það til að auka á dýrtíðina og hækka verð á landbúnaðarafurðum, en ef ríkið borgar afurðirnar niður, þá verður það að borga þennan verðmismun á áburðinum. Þetta væri gott að fá fram.

Þá skal ég koma að því, sem mér virtist hv. 1. þm. Skagf. draga í efa, hvort þessi útreikningur, að stærri verksmiðjan væri svo miklu ódýrari tiltölulega, væri réttur. Ég vil leyfa mér að leggja áherzlu á, að hæstv. atvmrh. og frsm. meiri hl. vildu athuga samanburðinn og útreikningana hjá hv. minni hl., þar sem lagður er til grundvallar útreikningur frá sérfræðingum hæstv. ríkisstj. Stofnkostnaður stærri verksmiðjunnar er reiknaður 125 millj. kr., en þegar reiknað er með 5.000–7.500 smál. verksmiðju, er reiknað með, að 5.000 smál. verksmiðjan kosti 38 millj. kr., en 7.500 smál. verksmiðja kosti 44,4 millj. kr. M.ö.o., það er reiknað með, að 2.500 tonna aukning úr 5.000 smál. kosti 6,4 millj. kr. Og þó að við reiknum með, að hver 2.500 smál. viðbót upp í 30 þús. kosti 6,4 millj., eða öll viðbótin 57,6 millj., þá kostar 30 þús. smál. verksmiðja samt ekki nema 102 millj. kr. Nú er það gefið mál, að viðbótin kostar ekki nálægt því svona mikið. Áætlunin um 125 millj. er því allt of há, svo framarlega sem 5.000 smál. verksmiðja kostar 38 millj. kr. og 7.500 smál. verksmiðja kostar 44,4 millj. Samkvæmt því,sem þar er lagt til grundvallar, gæti slík verksmiðja aldrei farið yfir 100 millj., en þar er áreiðanlega reiknað of hátt. Í öllum sínum kostnaðarútreikningum reiknar meiri hl. með nákvæmlega sömu upphæðum, þ.e.a.s. engu nema vinnulaunum og að einhverju leyti skrifstofukostnaði, og er sú áætlun, sem liggur til grundvallar hjá minni hl., miklu raunhæfari, en áætlun verkfræðinganna. Þetta hefur líka komið greinilega fram í öllum þeim undirbúningsrannsóknum, sem gerðar hafa verið um þessa hluti. Ég held, að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að reyna að gera okkur grein ýrir, hvað muni borga sig fyrir okkur í þessum efnum.

Hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni, að úr því að ég hefði svona mikinn áhuga fyrir þessu máli, væri undarlegt, að ég skyldi ekki hafa komið þessu í gegn, þegar ég var hér hæstráðandi til sjós og lands. Ég hef nú aldrei verið hæstráðandi til sjós og lands. Ég vil aðeins geta þess, að þegar ég var í nýbyggingarráði, treysti ég mér ekki til þess að koma með neinar uppástungur um þá ofsatrú, sem nú er verið að bera mér á brýn. Þegar ég kom með till. um 20–30 togara, þóttu það skýjaborgir. Það þurfti að sýna þjóðinni, að það, sem menn kölluðu skýjaborgir, væri ákaflega raunhæft. Annað höfuðatriðið í þessu máli var það, að svo framarlega sem þessu fé, sem við þá höfðum til ráðstöfunar, væri varið til kaupa á tækjum til að veiða fisk, þá vorum við á sviði, þar sem við þekktum okkur, þar sem við vissum, að þýddi að tala við landsmenn almennt um að leggja í þessa hluti og grípa til þess nógu fljótt. Með þessum 30 togurum einum væri hægt að skapa gjaldeyri, er nota mætti sem grundvöll að stórframkvæmdum og stóriðju síðar meir. Þetta voru ráðstafanir, sem hægt var að tala við þjóðina um, meira að segja stórútvegsmenn. Áburðarverksmiðjumálið var hins vegar á því stigi, að deilan stóð um það, hvort byggja ætti á þeim grundvelli, að verksmiðjan gæti framleitt 1.200 tonn á ári eða 2.500 tonn, og öll sú hugsun, sem var í þessu máli 1945–46, miðaðist við það að stíga þetta skref, sem okkur finnst nú svo hlægilega lítið. Stórhugur Framsfl. var á þeim tímum ekki meiri en það hvað nýsköpun snerti, að í hæsta lagi var hægt að draga úr því hugsun um 1.200–2.500 tonna verksmiðju. Nú hefur stórhugur þessara manna vaxið svo mikið, að ekki þykir nú tækt að tala um minna en 10.000 tonna verksmiðju, og hefðu það einhvern tíma verið kallaðar skýjaborgir. En væri þetta mál hugsað nógu vel og brotið til mergjar og athugaðir allir möguleikar í því sambandi, mundi árangurinn af slíkri rannsókn verða sá, að 30 þúsund tonna verksmiðja væri ekki aðeins æskileg, heldur líka nauðsynleg fyrir útflutningsframleiðslu íslenzku þjóðarinnar. — Ég lagði hugmyndir mínar um þetta fram fyrir þessa hv. deild og ráðh., nokkru eftir að þessi stj. tók við völdum, — hugmyndir um stóriðju á ýmsum sviðum og þar á meðal áburðarverksmiðju. Hefði það verið tekið til greina þá, hefði unnizt tveggja ára undirbúningstími til rannsóknar á þessum hlutum. Hefði ráðh. og ríkisstj. hans og meiri hl. þessarar d. þá samþ. þá till. mína að fela fjárhagsráði þessi mál, þá væru upp undir það tvö ár, sem þetta ráð væri búið að starfa að því að rannsaka þetta. Mér finnst þess vegna hart að heyra nú þær skoðanir af þingbekkjum, að nú fyrst eigi að fara fram algerð rannsókn á þessu, þar sem niðurstöður af þeirri rannsókn ættu að liggja fyrir okkur nú. Og það eru einmitt sömu mennirnir sem felldu rannsóknartill. mína fyrir tveimur árum, sem tala nú um þessa rannsókn. Þetta lýsir vantrú frá þeirra hálfu á því stóra máli, sem hér liggur fyrir, en ekki ofsatrú þeirra á möguleikum, sem þarna voru til.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á fjármagnið í þessu sambandi, og í sama orðinu og hann álasar mér fyrir, að ég hafi ekki notað peninga, sem til hafi verið á árunum, til þess að byggja áburðarverksmiðju, finnst mér hann nú kinnhesta sjálfan sig, því að í sömu andrá fer hann sjálfur að tala um Marshallfé. Ég veit nú ekki betur, en þetta Marshalllán sé 250 millj. kr., og ég veit ekki betur, en að hæstv. ríkisstj. geti ráðið því, hvernig hún notar þessa peninga, ef hún á annað borð tekur þá að láni. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh.: Hefur ekki hæstv. ríkisstj. athugað, hvernig á að nota þetta fé á skynsamlegan hátt? Á að nota það í bíla og jeppa eða sem undirstöðu fyrir framtíðarmál Íslands, stóriðju á Íslandi? Þessi hæstv. ráðh. álasar mér fyrir það að hafa átt þátt í, að ekki væru notaðir peningar til þess að byggja áburðarverksmiðju. Hvað verður þá sagt um þessa ríkisstj. eftir svo sem tvö ár, ef hún situr þá enn að völdum og eyðir 250 millj. án þess að leggja grundvöll að nokkrum nýjum stóratvinnuvegi á Íslandi, sem gæti staðið undir atvinnulífi landsmanna með því að skapa útflutningsverðmæti. Það ætti að setja þetta fé í það að skapa stóriðju á Íslandi, og ef við getum haft rafmagnið, sem þarf til þessarar iðju, nógu ódýrt, getum við keppt við hvaða þjóð sem er. Ef þessu tækifæri er sleppt, erum við að sleppa einhverju því bezta tækifæri, sem Íslendingar hafa fengið til þess að nota þetta fé á skynsamlegan hátt. — Hins vegar lít ég svo á, að hægt sé að skapa stóriðju á Íslandi án Marshallhjálpar. Ég álit mögulegt að fá erlend lán til þess að byggja upp fyrirtæki, sem ég álít, að gætu orðið hin gróðavænlegustu. Ég álít, að íslenzka þjóðin geti af eigin rammleik komið þessu upp með því að spara við sig. Ég álit, að atvinnutæki hennar nú séu það stórvirk, ef þau eru látin ganga og slík skemmdarverk ekki unnin sem nú er gert, að við séum fyllilega menn til þess að spara fyrir okkur 30–40 millj. kr. í 6 ár til þess að leggja grundvöll að virkjun Urriðafoss og áburðarverksmiðju.

Þá spurði hv. frsm. meiri hl. landbn., hvort hægt væri að fá þetta fjármagn. Ríkisstj. hefði enn sem komið væri ekki lagt fram nein skilríki fyrir því, hvar hún ætlaði að fá 144 millj. Mér sýnist nú, eftir því sem ég heyri, að það séu næstum enn þá meiri örðugleikar fyrir það lán, sem þarf fyrir innlent kapítal, en hið erlenda. Ég svara þessu með þeirri spurningu, sem ég bar fram í fyrri ræðu minni: Ef menn vilja fá fjármagnið þannig, hvort eru þá meiri möguleikar á, að einn bankastjóri vilji lána fjármagn til verksmiðju, sem gefur af sér 3–4 millj. kr. á ári, eða til verksmiðju, sem gefur af sér 40 millj.? Þessu hefur ekki verið svarað. Ég veit, að þessir menn, hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. Skagf., þekkja það vel inn í verzlun, að þeir sjá, að auðveldara er að fá lán til hluta, sem hægt er að sýna fram á, að borgi sig vel.

Það er nú mjög vaxandi stemning fyrir því, að rannsaka þurfi þessi mál meir, og er sérstök áherzla á það lögð, að leita þurfi til erlendra sérfræðinga í þessum efnum og spyrja þá. Ég vil viðvíkjandi því segja, að það er allmikil spurning, um hvað við ættum að spyrja erlenda sérfræðinga. Það gæti svo sem verið nógu gott að spyrja þessa menn um ýmsa hluti. En að því er snertir sjálft höfuðatriðið, atvinnulíf þjóðarinnar, held ég, að okkur væri hollast og við værum færir um að taka sjálfir okkar eigin ákvarðanir. Enn fremur verðum við að athuga, hvort þeir sérfræðingar, sem við kunnum að leita til, séu ekki að einhverju leyti bundnir hvað hugsun og hagsmuni snertir. Ef t.d. hæstv. ríkisstj. ætlar að tala við Samvinnunefnd Evrópuþjóðanna, þá á hún á hættu að mæta þar sérfræðingum, sem vilja koma í veg fyrir, að við komum upp áburðarverksmiðju. Við eigum því ekkert að spyrja erlenda sérfræðinga um það, hvort við eigum að leggja í áburðarverksmiðju, heldur eigum við að spyrja: Hvað gefur svona verksmiðja mikinn arð hjá ykkur? Ef við spyrjum bandaríska sérfræðinga um það, hvort vit sé í því að leggja í 10 þúsund tonna verksmiðju, þá mundi þeim finnast það hlægilegt. Þeir mundu ekki láta sér detta í hug að byggja minni en 30 þúsund tonna verksmiðju. Ameríkumenn hugsa í miklu stærri einingum en Evrópubúar, og þess vegna hafa þeir komið upp sinni stóriðju, sem yfirburðir þeirra byggjast á. En Evrópuríkin vernda iðnað sinn með því að loka sig inni með tollmúrum. Við Íslendingar eigum um tvennt að velja: Annaðhvort að miða áburðarframleiðsluna við innanlandsmarkað, en það mundi valda því, að áburðurinn yrði dýr og lífsafkoma bænda versnaði, nema þá að kostnaðinum yrði velt yfir á almenning og lífsstandard hans lækkaður. Hitt er að reka stóriðnað og flytja út áburð, og það er það eina, sem gildir, og þá þýðir ekki að leita álits neinna Marshallsérfræðinga. Hv. þm. Ísaf. skoraði á hæstv. ríkisstj. að snúa sér til „réttra aðila“, eins og hann orðaði það, og meinti með því sérfræðinga Marshallaðstoðarinnar. Ég álít þá ekki hina réttu aðila. við verðum sjálfir að ákveða, hvernig við ætlum að byggja upp okkar atvinnulíf. Marshallsérfræðingar mundu segja, að hér ætti engin áburðarverksmiðja að vera og engir togarar, því að þeir vilja ekki, að Íslendingar keppi um markaði við aðrar þátttökuþjóðir. Þeir eru á móti þróun atvinnulífsins á Íslandi. Hv. þm. Ísaf. talaði um, að nú bæri að leggja grundvöllinn að framkvæmdalífi landsmanna. Þetta kemur sannarlega úr hörðustu átt, því að hvað hefur hann gert þau tvö ár, sem hann situr í fjárhagsráði, sem er einmitt stofnun, sem byggja á upp okkar atvinnulíf. Hann hefur ekkert gert og að því er virðist ekkert hugsað um þetta, því að ekki hefur örlað á neinum hugmyndum frá fjárhagsráði um það, hvernig Íslendingar ættu að lifa í framtíðinni. Og það er ekkert annað en uppgjöf, ef á að bera það undir erlenda sérfræðinga, hvernig atvinnulífi okkar skuli háttað. Það er eins og þegar við ætluðum að byggja brúna á Ölfusá og þurftum að leita til Danakonungs. Við erum raunverulega orðin nýlenda, ef við þurfum að spyrja útlent þing um það, hvort við megum byggja svo eða svo stóra verksmiðju. Við eigum sjálfir að skapa hugmyndirnar, aðeins að leita til erlendra sérfræðinga um konkret upplýsingar. Við höfum reynslu af því að skírskota til erlendra sérfræðinga um það, hvað gera skuli í okkar atvinnulífi. Þegar við ætluðum að kaupa 30 togara 1945, þá var talað við útgerðarmenn, og þá sögðu þeir við okkur: „Enskir togaraeigendur ætla að bíða eftir verðfalli til þess að endurnýja flota sinn. Því skyldum við ekki gera það líka?“ Þeir gátu sem sagt ekki hugsað sér annað en taka Englendinga sér til fyrirmyndar. En við héldum því fram, að bezt væri að hefjast handa þegar um endurnýjun togaraflotans, og það gerði ríkisstj. góðu heilli, og býst ég við, að nú nagi enskir útgerðarmenn sig í handarbökin fyrir að láta Íslendinga verða á undan. Það sýndi sig sem sé, að ekki borgaði sig að spyrja Englendinga um, hvað við ættum að gera. Því held ég, að ef við færum nú að láta aðra segja okkur fyrir verkum, að það mundi fátt gott hafa í för með sér fyrir okkur. Við verðum að hafa dug til að berja fram hugmyndir okkar gagnvart t.d. Englendingum, Dönum, Norðmönnum og Frökkum. Þar erum við að tala við stóriðjuþjóðir, og við skulum ekkert vera hræddir við að segja þeim, að við ætlum að keppa við þá um áburðarframleiðslu, hvað sem þeir segja. En út af öllum þessum bollaleggingum um að leita til erlendra sérfræðinga, þá þætti mér vænt um að fá upplýst, ef hæstv. ríkisstj. hugsar sér að taka á næstu árum 200 milljóna króna lán í Bandaríkjunum, eins og upplýst er, hvort hæstv. ríkisstj. fær þá sjálf að ráðstafa því fé. Ég vænti þess, að till. um það verði lagðar fyrir Alþ. til afgreiðslu og að fjárhagsráð geri nauðsynlegan undirbúning til þess, að féð megi verða notað til að skapa grundvöll nýs atvinnurekstrar á Íslandi. Enginn slíkur grundvöllur fólst í þeirri áætlun, sem hæstv. forsrh. lagði fram í vetur. Þar var aðeins tínt saman eitt og annað, allt í gamla stílnum, en ekkert, sem boðaði nýjan, stórfelldan atvinnurekstur. Alþ. á kröfu á að fá að vita, hvernig ríkisstj. ætlar að ráðstafa þessu láni, og fá að vita, hvort Íslendingum leyfist yfirleitt að ráðstafa því að eigin geðþótta. Mér þykir vænt um, að hæstv. atvmrh. hefur tekið vel í þá hugmynd, að hér ætti að risa upp stóriðja í sambandi við stórfelldar vatnsvirkjanir. Hæstv. ráðh. finnst þetta bara svo fjarlægt. En þetta er ekki fjarlægt. Ef við ætlum að taka þetta stóra lán, hvað er þá nær en nota peningana til þess að virkja Þjórsá og leggja grundvöllinn að íslenzkt stóriðju? Og ef við sleppum þessu tækifæri, kemur það ekki strax aftur, nema við leggjum hart að okkur og spörum af fremsta megni. Ég held því, að við eigum að ræða þetta mál og rannsaka það til hlítar.

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ofsatrú mín birtist í því, að ég héldi, að stór áburðarverksmiðja bjargaði öllu, að þó að ég berjist fyrir að koma slíkri verksmiðju upp, þá sé ég ýmislegt annað, sem okkur má koma að gagni. En sköpun stóriðju á Íslandi er hlutverk næsta áratugs, eins og byltingin í sjávarútveginum var hlutverk þess áratugs, sem nú er að enda. Hins vegar er það fjarstæða, að ég sjái ekki annað en áburðarverksmiðju. Í maí 1947 lagði ég til, að ríkisstj. og fjárhagsráð létu athuga hér möguleikana á bæði áburðarvinnslu og aluminiumvinnslu, enda þótt mér væri ljóst, að aluminiumvinnslan yrði erfið, þar sem nauðsynleg hráefni eru einokuð af aluminiumhringum, en í þessu sambandi langar mig til að fá upplýsingar um það, hvort andstaðan gegn virkjun Urriðafoss standi í nokkru sambandi við það, að enski aluminiumhringurinn lét verkfræðinga sína vera við mælingar á Þjórsá, og hvort búast megi við till. um að veita honum sérréttindi til vinnslu þar. Ég álít, að við Íslendingar höfum möguleika til stóriðju bæði á áburði og aluminium, og ef þeir möguleikar verða fengnir erlendum auðhringum í hendur, þá er það illt verk og glæpur gagnvart þjóðinni. En það tillit, sem alltaf er tekið til afstöðu Marshalllandanna, er óheillaboði, því að þegar rætt er um atvinnumál, þá er ekki við neina lýðræðisaðila að ræða, heldur harðsvíraðasta einræði, auðhringa, sem klófest hafa allt atvinnulíf þessara landa. Við mætum þar harðara einveldi en nokkru sinni, er danska einvaldsstjórnin réð yfir okkur.

Hæstv. atvmrh. og hv. frsm. meiri hl. landbn. spurðu, hvar ég kæmi auga á markaði fyrir framleiðslu 30 þús. tonna áburðarverksmiðju, og var markaðsleysið raunar þrautamótbára hæstv. ráðh. Ég hef áður svarað þessu með því að spyrja hann: Hvar sér hæstv. ríkisstj. markaði fyrir fiskinn úr þeim 10 togurum, sem hún er búin að kaupa, þegar því er lýst yfir af hálfu Marshalllandanna, að fiskframleiðslan hjá þeim verði yfirdrifin 1951 og ekki þörf íslenzka fisksins? Enda hefur hæstv. ríkisstj. fengið ávítur annarra Marshalllanda fyrir að kaupa þessa togara, og það gengur svo erfiðlega í Englandi að fá fé í þá, að brbl. um kaupin liggja enn óafgreidd í n. að ósk hæstv. ríkisstj. Og ég spyr enn hæstv. ríkisstj.: Hvar er markaður fyrir fiskframleiðslu þessara 10 togara? En það er vitanlega alveg sama, á hvaða sviði við berum niður. Við kornum alls staðar til með að taka á okkur áhættu vegna þess, að við lifum í kapítalistískum heimi, sem kreppur dynja að jafnaði yfir á um það bil 10 ára fresti. Eina öryggisráðstöfunin gegn þeim er að semja un markaði til langs tíma við lönd, sem hafa aðstöðu til að gera slíka samninga. Ég lagði til í brtt. við lögin um fjárhagsráð í maí 1947, að ríkisstj. yrði falið að leita eftir möguleikum á slíkum samningum til langs tíma. Ef það hefði verið gert, þá þyrfti hæstv. ríkisstj. ekki að spyrja: Hvar eru markaðir fyrir áburð? Þá vissi hæstv. ríkisstj., hvort hægt væri að gera samninga um sölu á áburði, t.d. til 10–15 ára. Meginatriðið er að semja fljótt, áður en ríkin, sem nú skortir áburð, eru búin að koma upp áburðarframleiðslu sjálf. En ríkisstj. vanrækti þetta og fannst þetta allt of bolsévistiskt, enda frá Stalin, en Englendingar, sem þó eru ekkert sérstaklega þekktir fyrir að fara eftir fyrirskipunum frá Stalin, hafa gert slíka samninga til 5 ára eða lengri tíma, því að þeir vilja tryggja iðnframleiðslu sína, en Íslendingar gera þetta ekki, af því að hæstv. ríkisstj. finnst það fyrir neðan sína virðingu, en þetta er eini möguleikinn til að tryggja markaði. Þeir, sem andmæltu togarakaupunum 1944, spurðu mig, hvar ég ætlaði að selja aflann. Það hafa enn engin vandræði orðið með það. Það verður bara að gera samninga fljótt og halda ekki að sér höndum þangað til allir aðrir eru komnir á undan.

Ég er hræddur um, að það, sem nú er verið að gera við afgreiðslu þessa máls, sé að stöðva byggingu áburðarverksmiðju á Íslandi um ófyrirsjáanlegan tíma. Það mun kannske sýna sig, að betur borgi sig að kaupa erlendan áburð en áburðinn úr litlu verksmiðjunni, og þá verður ef til vill hætt við allt saman. Með því að sleppa málinu þannig, að ekki verði ákveðið að byggja 30 þúsund tonna verksmiðju, er því verið að gera einhverja þá mestu vitleysu í atvinnumálum okkar, sem nokkurn tíma hefur verið gerð, en ég vil nú, fyrst málið er ekki fullrannsakað, spyrja hæstv. atvmrh. að því, hvort hann vilji lofa því, að hann láti jafnt rannsaka möguleikana á 30 þúsund tonna og 5–10 þúsund tonna verksmiðju. Í sambandi við þetta mál má minna á þá undarlegu aðferð, sem viðhöfð var viðvíkjandi sementsverksmiðjunni. Fyrst eru samþ. l. um byggingu verksmiðjunnar. Árið eftir er skipuð nefnd til að athuga, hvort hægt sé að reisa verksmiðjuna, og þessi n. vill tala við stærsta sementshring í heimi um það, hvort það borgi sig að reisa sementsverksmiðju hér. Þetta er að fara aftan að hlutunum. Svona mál á ríkisstj. fyrst að láta undirbúa og rannsaka ýtarlega, en hæstv. ráðh. á ekki fyrst að biðja um helmild til að reisa 7.500 tonna verksmiðju, útnefna svo ári síðar n., sem leitaði ráða hjá köfnunarefnishringum Evrópu um það, hvort hér væri hægt að reka áburðarverksmiðju. Og þar sem hæstv. atvmrh. hefur talað um að athuga málið nánar, þá óska ég þess eindregið, að hann gefi yfirlýsingu um, að möguleikarnir á 30 þúsund tonna verksmiðju verði athugaðir líka.

Hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að í till. meiri hl. væri gengið út frá heimild fyrir ríkisstj. til þess að sjá um, að næg raforka sé fyrir hendi til framkvæmdanna. Í 5. gr. er það að vísu gert að skilyrði fyrir framkvæmdum, að raforka sé til, en ríkisstj. er bara ekki gert að skyldu að útvega hana. — Hv. meðmælendur litlu verksmiðjunnar eru nú flestir horfnir úr salnum, og ég held þeir geri rétt í því að flýja af hólmi, þegar málið er rætt, og þótt þeim finnist, að hv. 8. þm. Reykv. sé úrillur og orðhvass í þeirra garð, — hann viðhafði þó ekki líkan ofsa í málflutningi sem hv. 1. þm. Skagf., — þá er ég hræddur um, að dómur sá, sem meiri hl. þessarar hv. d. og hæstv. atvmrh. fá hjá þjóðinni, ef þeir sjá ekki villu síns vegar, að hann verði harðari en sá, sem við stuðningsmenn 30 þúsund tonna verksmiðjunnar höfum kveðið upp. Umr. frestað.