22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. var nokkuð æstur. Ég álít nú, að það sé ekki rétt. Hitt er annað mál, að ég tel málið svo mikils virði, að menn ættu að geta sýnt alvöru í því. Það, sem valdið hefur ágreiningnum, er það álit, að málið geti orðið eyðilagt með þeirri stefnu, er tekin hefur verið. Við umr. hefur verið deilt um tvennt: rafmagnsþörfina og stærð verksmiðjunnar. Ég sagði, að ekkert hefði verið gert frá því fyrsta, er frv. kom til tals og var flutt af Vilhjálmi Þór, um Laxárvirkjunina. Síðan dettur engum í hug að brydda á þessu. Nákvæmlega sama máli gegnir um afganginn af Sogsvirkjuninni. Það var leitað til sérfræðinganna í því einu skyni, að hægt væri að reisa verksmiðjuna á pappírnum, 7.500 tonna. En reiknað hefur ekki verið með eðlilegri aukningu. Þess vegna fannst mér rétt, að tryggt yrði nægilegt rafmagn. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp úr 2. gr. frv.: „Fjárframlag ríkissjóðs nær og til þess að tryggja verksmiðjunni nægilega raforku til áburðarvinnslunnar, ef þörf gerist.“ Framlag ríkissjóðs mun nægileg trygging fyrir að sjá verksmiðjunni fyrir raforku. Svo segir í 5. gr. frv.: „Áður en hafizt er handa um byggingu verksmiðjunnar, skal verksmiðjustjórnin hafa tryggt nægilegt fé til greiðslu stofnkostnaðar hennar.“ Nú veit hv. meiri hl. landbn., að þessi klausa er beinlínis reiknuð út frá því að tryggja forgangsrétt verksmiðjunnar, svo að hún gæti samið við Sogsvirkjunina um, að hún fengi forgangsrafmagn. Allt málið er reiknað á þann hátt. Og allar brtt., sem koma fram, eru miðaðar við þá fyrstu hugmynd um áburðarverksmiðju, sem var þannig, að hugsað var að koma upp áburðarverksmiðju til þess að fá fullnægt innlendu áburðarþörfinni, nákvæmlega á sömu forsendum, án þess að hugsa til þess, að það yrði ef til vill dýrara að fá áburðinn á þann veg, en að kaupa hann inn í landið, en ef svo færi, að hann yrði dýrari með því að framleiða hann í landinu, þá átti ríkið að borga mismuninn. Þess vegna eru þessi vandkvæði með vextina, lánin og allt viðkomandi þessari verksmiðju, af því að þessi áburðarverksmiðja var hugsuð þannig, að þetta átti að vera fyrir landbúnaðinn, og ef áburðurinn yrði dýrari frá verksmiðjunni en innfluttur, þá átti ríkið að borga mismuninn eins og aðrar uppbætur. Og ef menn treystu sér til þess að leggja í að byggja áburðarverksmiðju á heilbrigðum grundvelli, þá væru þessir póstar allir óþarfir. Þess vegna álít ég, að með samþykkt á till. meiri hl. n. sé verið að eyðileggja málið. En það stendur öndvert gagnvart því, sem hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að með því að samþ. okkar till. væri verið að eyðileggja málið. — Eitt hefur verið þungamiðjan hjá þeim hv. þm. í meiri hl. n. Þeir hafa sagt, að það þyrfti að vera tryggt fyrir fram, að það væru menn, sem biðu eftir því að kaupa framleiðsluvöru verksmiðjunnar. En ef þessi áburðarverksmiðja er hér og það margfaldast framleiðslan á áburðinum hér, svo að hún verði nóg fyrir íslenzkan landbúnað og meira en það, þá hlýtur í áframhaldi af því það einnig að vera, að þeir hugsi sér ekki verksmiðjuna þannig, að hún bara mali áburð og að það sé ræktað og svo sé ekkert meira. Þessi gróðurlönd hljóta að eiga að gefa arð. Og hvar á þá að selja þessa vaxandi framleiðslu? Og ef bygging þessarar verksmiðju er eingöngu miðuð við það, að landbúnaðurinn framleiði meira fyrir innanlandsmarkaðinn, hvaða landbúnaðarafurðir eru þá það, sem vissa er um, að yrði betra að selja en köfnunarefnisáburð frá stórri verksmiðju? Ég hef ekki getað komið auga á það. Ég veit ekki annað en að það sé bannað með lögum að flytja inn landbúnaðarafurðir, vegna þess að ekki eru samkeppnisfærar við þær á markaðinum þær landbúnaðarvörur, sem framleiddar eru innanlands. Og mér finnst, að þessi vélanotkun við landbúnaðinn sé ekki svo skipulögð enn eða ræktunin, að hún sé fær um að gefa það mikla lækkun á framleiðslukostnaði landbúnaðarafurða, að það mundi a.m.k. vera rökrétt að telja, að það væri hægara að selja þær landbúnaðarafurðir, sem framleiddar væru hjá okkur með íslenzkum áburði, heldur en að selja köfnunarefnisáburð, sem ekki kostar nema sáralítið vinnuafl að framleiða.

Hv. frsm. meiri hl. n. var að tala um, að ég væri reiður yfir þessu máli og vildi ekki vera í stjórn verksmiðjunnar. Ég er alls ekki neitt reiður yfir þessu máli. En ég vil, að áður en farið er af stað með að byggja stórt fyrirtæki, þá hafi menn góða yfirsýn yfir hlutina, sem það snerta, en að ekki sé af stað farið af mikilli þröngsýni viðkomandi því að athuga, hvað nauðsynlegt er, að vitað sé áður en farið er af stað með framkvæmdirnar.

Það er nú fyrir fram vitað, að undirstaðan undir allri þessari áburðarframleiðslu er raforkan. Og rafmagn til þessarar verksmiðju er ekki nú þegar fyrir hendi, nema með því að taka það á kostnað annars, sem fólkið vill og þarf að nota það til. Og ég hygg, að enginn geti reiknað út með vissu, hvort er hagfelldara og hvort er meiri gjaldeyrissparnaður að spara innkaup á áburði eða hins vegar að spara innkaup á kolum og ollu til þeirra nota, sem rafmagn mundi verða notað til, ef rafmagn til áburðarverksmiðju ekki væri tekið frá fólki, sem annars mundi hafa það til heimilisnota, til hitunar o.fl.