02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, því að hæstv. fjmrh. hefur tekið flest það fram, er ég vildi segja, enda þýðir það lítið að teygja lopann við hv. 1. þm. N–M., en það er kannske ástæða til að vekja athygli hans á því, að fullir vextir eru greiddir af þessu láni, 5% að því að mér skilst. Hitt er svo annað mál, að skipting þessara vaxta er komin undir happi, svo að verið getur, að einn fái meira en annar. — Ég verð að segja, að mér finnst sæmra að eyða fé sínu í þetta, en að eyða því í fjárhættuspil. — Ef athugað er, hverjir hafa keypt þessi bréf, kemur m.a. í ljós, að menn kaupa þau handa börnum sínum og láta sig litlu skipta vextina, þar sem þeir vita, að stofnféð er tryggt og kemur þeim í hendur að 15 árum liðnum. Að öllu athuguðu er ég ekki í efa um, hvar mitt atkvæði fellur í þessu máli.