08.04.1949
Efri deild: 84. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Landbn. hefur nú farið höndum um frv. þetta og komizt að niðurstöðu um afstöðu sína til þess. Eins og nál. á þskj. 520 ber með sér, þá hefur meiri hl. landbn. orðið á það sáttur að leggja til, að frv. verði samþ. með lítils háttar breyt., sem skráðar eru á því þskj. Aftur á móti hefur einn nm. gert minnihlutaálit, þar sem hann að vísu mun virðast samþykkur því, að stefnt sé að því marki að reisa áburðarverksmiðju, en hefur sérstöðu um stærð hennar og það, sem þar af leiðir, og gerir ráð fyrir að flytja brtt. við frv. En það er víst alveg nýbúið að útbýta hans nál. á þskj. 536.

Að ræða mikið um þetta frv., þó að það sé harla stórbrotið, álít ég á þessu stigi harla tilgangslítið, þó að það í sjálfu sér skipti ákaflega miklu máli um þetta mál, að rétt sé að farið að öllu leyti, því að um þetta mál hefur mikið verið rætt á Alþ. frá því er það fyrst kom fram, og þar á meðal nú fyrir skömmu í hv. Nd., þar sem frv. þetta var flutt og því skilað þaðan og hingað til þessarar hv. d., eins og það nú horfir við. Það hefur orðið í hv. Nd., eins og fram mun hafa komið hér, nokkur ágreiningur um það, hve hásiglt skuli vera í framkvæmdum að byggingu þessarar áburðarverksmiðju, sem og greina má af afstöðu hv. minnihlutamannsins í landbn. þessarar hv. d. nú.

Ég vil taka það fram, að þó að meiri hl. landbn. í þessari hv. d. fallist á það, að miðað verði við — ef svo mætti kalla — hin smærri hlutföll við þá verksmiðjustofnun, sem hér er um að ræða, þá kemur þar margt til greina, sem réttlætir það annars vegar, og hins vegar er það og maklegt, að framtíðaraðstaðan sé tekin til greina á sérstakan hátt, þegar á þetta mál er litið. Ef við það er miðað, að áburðarverksmiðjan nú fyrst um sinn nærist af afli Sogsins, þá mun ekki vera blöðum um það að fletta, að sú orkulind er tæmanleg, til þess að geta fullnægt öllum þeim, sem orkunnar þurfa. Hjá þeim fræðimönnum, sem að þessu hafa unnið og eru í þessum efnum möguleikunum kunnugastir, mun lítið bera á milli um það, að miðað við þróun, bæði um almenningsraforkunotin til venjulegra ljósa og hitunar og til iðnaðar, þá hækka þau notahlutföll með hverju árinu sem líður. Að vísu virðist það svo, að miðað við byrjunarþörf verksmiðju þessarar, þá virðist raforkan til hennar vera tiltölulega rífleg fyrir hendi með fyrirhuguðum notum Sogsorkunnar. En miðað við hitt, að almenna rafmagnsþörfin eykst ár frá ári, sem maður verður að gera ráð fyrir og vonar, að verði, að sú þörf aukist ár frá ári, þá mætti svo fara, að sá orkugjafi reyndist, áður en langt líður, ófullnægjandi til þess að fóðra bæði þessa áburðarverksmiðju og fullnægja einnig hinni almennu og vaxandi rafmagnsþörf, því að ef við gerum ráð fyrir að standa í stað eða hrökkva til baka með þörf á raforku til almennra nota, þá spáir maður nýju miðaldamyrkri yfir Íslandi. Við vonum, að þær spár rætist aldrei. En þó að svo kynni að verða, og eftir því, sem lætur að líkum, að Sogið með áframhaldandi virkjun sem þetta frv. byggist á — endist til hvors tveggja nú nokkur ár, t.d. í allt að tvo áratugi, þá verður að horfast í augu við það, að það reynist ekki nóg orka í landinu til þess að fullnægja þessu hvoru tveggja, sem ég hef nefnt, nema um nokkurt skeið, og þá verður að hugsa til nýrra ráða. Og nú liggur fyrir, að hv. þm., bæði úr landbn. beggja d. og fleiri hv. þm. hallast að því, að virkjað verði í langtum stærri stíl en frv. gerir ráð fyrir og þar með ráðizt í sérstaka vatnsvirkjun við annan ríflegri orkugjafa og þar, sem miðað sé við önnur, langtum stærri hlutföll. Ég tel líklegt, að þar komi, að þetta verði orð í tíma töluð. En ég tel líka, — og mér virðist meiri hl. hv. landbn. þessarar hv. d. vera á þeirri skoðun, — að vegna þessa væri réttari afstaða í málinu að hraða málinu með gát, ef svo mætti að orði komast. Ég hygg, að eftir þeirri fræðslu frá sérfróðum mönnum, sem við þetta mál hafa fengizt, þá sé vert á það að benda, að þó að Sogsorkan með þeirri viðbótarvirkjun, sem fyrir höndum er, reynist nægja bæði til hinna almennu þarfa fyrir rafmagn og til þarfa áburðarverksmiðjunnar fyrst um sinn — og þannig skuli miðað við og áburðarverksmiðjan reist —, þá þurfi lítið að fara forgörðum, þó að breyting verði síðar á þessu. Ég ætla, að á bak við þetta, sem ég nú segi, liggi sú skoðun frá fræðimönnum, að verksmiðjan, sem hér kemur til greina, verði ekki reist á orkugjafastöðvunum sjálfum, heldur verði flutt orkan. En miðað við það, þá ætti önnur ný virkjun, sem tæki í taumana, þegar orðið væri of þröngt um það allt í heild, sem orku þyrfti frá Soginu, að geta notazt áframhaldandi, þannig að Sogið og öll sú raforka, sem það gefur, kæmi í góðar þarfir, miðað við þróunina, þó að verksmiðjan leitaði nýrra orkustöðva, þegar nauðsyn krefði.

Kostnaður við byggingu þessarar verksmiðju gildir háar og óvenjulegar upphæðir eftir íslenzkum mælikvarða, sem að vísu er ekki að hræðast, því að menn gera sér bjartar hugmyndir um þessa verksmiðju. Ef t.d. kostnaðaráætlunin er miðuð við hámark það, sem hér er sett, eitthvað yfir 40 millj. kr., þá skiptir það miklu strax við þetta tilraunaspor til þessara merkilegu aðgerða, þar sem í mikið er ráðizt, að þar verði að öllu vel farið, bæði í undirbúningi og síðan í framkvæmd. En hin mikla virkjun, sem hugir manna stefna nú að viðkomandi framtíðinni, hvort sem þar verður um að ræða Urriðafoss eða annan orkugjafa, hún náttúrlega kostar miklu, miklu meira. Það er engin fordæming í því fólgin, en það er í því ljós bending fólgin, að það þarf vel að vanda, sem lengi á að standa. Og undirbúningi að miklum framkvæmdum veitir vissulega ekki af tímanum. Og ég vil af minni hálfu undirstrika það, að það verður að virkja meira af þeirri ástæðu, að fyrirhuguð er þessi áburðarverksmiðja. Og ef hugsað er til þess með alvöru af hæstv. Alþ. eða ríkisstj. eða hverjum öðrum sem er, þá tel ég, að það veiti lítt af tímanum, senn hvað líður, að fara að hugsa sér útfærslu þeirra mála frá sjónarmiði þeirra, sem vilja taka þetta áburðarverksmiðjumál alvarlega, og það vona ég, að allir hv. alþm. vilji gera. Það mundi ekki fara hjá því, ef ætti að samþ. lög nú, þar sem miðað sé við enn stærri hlutföll, eins og kemur fram hjá hv. minni hl. landbn., þá mundi yfirleitt áburðarverksmiðjan koma ákveðinni tímalengd síðar að notum eða taka til starfa heldur en þó er ætlað. — Sem sagt, ég tel, ef miðað er við þarfir íslenzkra bænda, þá sé vel fyrir þörfum þeirra séð, ef farið er eftir þeim till., sem gerðar eru af hálfu meiri hl. landbn., og miðað við 10 þús. smálesta framleiðslu á ári. Hitt er svo allt annað mál og er mjög gott að leita sér fræðslu um, hvað heppilegt eða gerlegt sé, og miða þá við íslenzkan áburð til útflutnings. Hvað borgar sig í þeim efnum? Það fer eftir eftirspurninni eftir þessari framleiðslu, sem víða er nú keppzt um að auka, og eftirspurnin fer eftir því, hve hagkvæmt við getum framleitt, og margt þarf að athuga. Það hefur verið rætt um Urriðafoss í Þjórsá sem aflgjafa, en enginn er þó svo bundinn við þann stað, að ekki sé hægt að líta á aðra. Það er fjarri mér að leggja hér nokkurn dóm á sökum þekkingarleysis, en ég veit til þess, að Þjórsá hefur það til að stíflast í jakaburði ekki langt frá Urriðafossi, en hvort það er svo þýðingarmikið, treysti ég mér ekki til að dæma um, en það spillir ekki að hafa þann möguleika til athugunar. Ég skýt þessu svona inn, þó að það komi tæpast til greina. Þetta er allt vandasamur viðbúnaður, sem krefst síns tíma. Ég tala nú ekki um fjáröflun til þess háttar hluta, það þarf tugi milljóna. En ég vil ítreka, að ég álít, að stefna beri að þessu, því að Sogsvirkjunin fullnægir ekki bæði þörf áburðarverksmiðjunnar og rafmagnsþörf bæja og sveita hins vegar nema um nokkurt skeið. Viðbúnaður þarf að byrja fyrr en seinna, ef á að stefna að þessu í alvöru. Það sést glögglega á skýrslum um Sogsrafmagnið, að þörfin og notin aukast með ári hverju, og nú vantar viðbótarvirkjun í Soginu. Frá ári til árs hefur orðið sú þróun, að ljós og hiti og iðnaður heimta Sogsrafmagnið, og það kemur að því, þó að það verði ekki á svo nálægum tíma, að Sogið fullnægir ekki hvoru tveggja, Reykjavíkurbæ og sveitunum annars vegar og áburðarverksmiðju hins vegar. Og í sjálfu sér væri ákaflega gaman að hugsa til þess, að þessi tími yrði fremur styttri en lengri, þ.e.a.s. hagnýting rafmagnsins yrði sem fyrst almenn. Ég vil láta þess getið, að af bænda hálfu eða búnaðarþings hefur komið fram vilji í þá átt, að frv. um verksmiðju með líkum hætti og hér er gert ráð fyrir nái samþykki Alþ. Bændastéttin veit, hvað henni hentar. Sú orka, sem fæst úr Soginu, að viðbættri fyrirhugaðri viðbótarvirkjun, á að vera fullnægjandi fyrir áburðarverksmiðju af þessari stærð og sveitir og kaupstaði um nálægan tíma, þó að árlega bætist við raforkunotkunina. Eitt á að vera víst í þessu, og Það er það, að þótt Sogsfossarnir verði fullvirkjaðir og þar komi, að virkja verði annars staðar í stærri stíl vegna áburðarverksmiðju, þá ætti fullvirkjun Sogsins aðeins að vera gleðilegt tímanna tákn.

Meiri hl. landbn. hefur lagt til, að frv. þetta verði samþ. í öllum aðalatriðum eins og það kom frá hv. Nd., aðeins með smávægilegum breytingum, og skal ég nú minnast á þær.

Það er fyrst brtt. við 5. gr. frv. Þar segir, að stjórn verksmiðjunnar ákveði að fengnu samþykki landbrh., hvenær og hvar hún skuli reist. Það var víst svipað þessu í hinu upphaflega stjfrv., sem hv. Nd. breytti, en það er víðtækari aðild og fróðari, sem hér er treyst til staðarvals, og jafnframt hlutlaus í því efni, og má þá vænta þess, að traustara verði frá því gengið. Það hefur borizt í tal, hvort ekki ætti að fella staðinn inn í lögin, en þegar við ræddum það, þótti það á engan hátt gerlegt að láta eitt teningskast eða atkvæðagreiðslu á Alþ. ráða endanlega í því efni. Það er betra að athuga allt vel, svo að undirstaðan geti orðið hagkvæm.

2. brtt. n. er um það, að lögin öðlist þegar gildi. Þetta vantaði í frv., en við töldum réttara að ákveða þannig um gildistöku laganna, og þá einnig með tilliti til þess, að stjórn verksmiðjunnar á að kjósa, er lögin öðlast gildi, og er þá hægt að kjósa stjórnina sem fyrst, enda varð samkomulag um það í n. að skeyta aftan við lögin ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að kosning verksmiðjustjórnarinnar fari fram á þingi því, er setur lögin, og gildi til ársloka 1952, og því er miðað við árslok 1952, að rétt þykir, að umboð stjórnarinnar fylgi almanaksári. Við töldum ekki rétt að hafa þetta óákveðið í lögunum, því að tíminn líður og menn spyrja: Eftir hverju er verið að bíða?

Þá vil ég taka fram viðvíkjandi ákvæðum frv. um laun handa stjórn verksmiðjunnar, að landbn. taldi eðlilegt og sjálfsagt, að verksmiðjustjórnin taki ekki laun samkvæmt 4. gr. fyrr en störf hefjast og farið er að reisa verksmiðjuna og allt er komið í gang. En meðan á formlegum undirbúningi stendur og ekki er byrjað á verklegum framkvæmdum, fái verksmiðjustjórnin meiri eða minni þóknun eftir því, hvort hún vinnur meira eða minna, og eftir því, hve viðbúnaður hennar er mikill.

Það liggur hér fyrir brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 412, þar sem hann stingur upp á því, að ríkisstj. heimilist að leita þátttöku félaga og einstaklinga til stofnfjárframlaga, þannig að stefnt sé að hlutafélagsstofnun um verksmiðjuna. Þótt e.t.v. væri hægt að örva til stofnunar fyrirtækisins á þennan hátt og gera fjáröflun léttari af hálfu ríkisins, sá n. sér ekki fært að mæla með þessari brtt. eins og málið liggur fyrir. Það er talað um 7% arð. Ójá, ég vildi óska, að það yrði svo arðvænlegt fyrirtæki og að allt gengi vel og að reksturinn væri ódýr og mikill arður, en það svífur nú í óvissunni enn þá. Sem sagt sá n. sér ekki fært að taka þessa brtt. til greina.

Það vekjast nú væntanlega aðrir til umsagnar um þetta mál, og sér maður þá, hvað þeir segja. Ég get látið máli mínu lokið og legg til fyrir hönd n., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef nú lýst.