19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) [Frh.]:

Herra forseti. Það er nú langt síðan þetta mál var rætt hér síðast. Þegar frv. um áburðarverksmiðju var lagt fyrir Alþingi 1944, var því, eins og ég tók fram áður, vísað frá með rökstuddri dagskrá, vegna þess að rafmagn skorti til framleiðslunnar, en gert ráð fyrir, að nýbyggingarráði skyldi falið að taka málið til betri athugunar og skila áliti um þær athuganir, sem gerðar yrðu. Nýbyggingarráð tók þetta síðan til athugunar 1945, og með bréfi 22. júní 1945 fól það Birni Jóhannessyni að fara utan til þess að rannsaka þetta mál betur og afla betri upplýsinga um það, hvort heppilegt væri að ráðast í að byggja áburðarverksmiðju á Íslandi og hvernig. Átti hann m.a. að athuga þá reynslu, sem fengizt hefur við framleiðslu þessarar áburðartegundar á Norðurlöndum og í Englandi og önnur teknisk atriði, hvort ekki mundu vera miklar líkur til þess, að hægt væri að framkvæma þau teknisku atriði hér eins og annars staðar, hve mikið notagildi þetta efni hefði við ræktun, og einnig átti hann að athuga hina fjárhagslegu hlið málsins, hvort hægt mundi að byggja þessa verksmiðju hér þannig, að hún bæri sig, og ýmis fleiri atriði. Björn Jóhannesson fór síðan utan sumarið 1945. Þegar hann kom heim aftur, skilaði hann skýrslu um ferðina og niðurstöður þær, er hann hafði komizt að. Yfirleitt voru niðurstöður hans á þá leið, að hvað snerti tæknilega möguleika á framleiðslu þessarar áburðartegundar hér, þá væri allt í lagi, þar sem hér þarf ekki annað til en rafmagn, sem við getum framleitt sjálfir. Einnig hafði hann athugað, hvernig heppilegast mundi að leysa það vandamál, sem talið var, að gæti orðið nokkuð mikið vandamál, nefnilega hvernig takast mætti að geyma þessa áburðartegund, og bendir reynsla síðustu ára til þess, að það muni vel vera hægt. Þá var það líka fjárhagshliðin, sem hann rannsakaði allýtarlega erlendis, og má segja í fáum orðum, að allir þeir sérfræðingar, sem hann átti tal við, voru sammála um það, að verð á áburði mundi lækka mikið að stríðinu loknu og þess vegna væri ekki þorandi að leggja út í áburðarvinnslu hér, ef framleiðslukostnaður yrði að vera jafnhár og á stríðsárunum. Þá eru og önnur atriði, sem koma hér til greina, og má þar einkum tilnefna tvennt, sem Björn Jóhannesson skilaði áliti um, að verðið á rafmagninu væri mjög stór þáttur í framleiðslukostnaði þessarar áburðartegundar og þar af leiðandi mjög mikils virði, að það væri ekki óhæfilega hátt, og enn fremur, að stærð áburðarverksmiðjunnar hefði mjög mikil áhrif á stofn- og framleiðslukostnaðinn, eins og reynslan hefði sýnt bezt bæði í Noregi og í Svíþjóð.

Árangur þeirra rannsókna, sem gerðar hafa verið, er sá, að nú þykir ekki ná neinni átt að byggja hina litlu verksmiðju, sem fyrirhuguð var árið 1944 og einnig var gert ráð fyrir í frv. frá síðasta þingi. Nú er alveg horfið frá því að byggja 1.100 og 2.500 tonna verksmiðju, heldur skuli hér vera um að ræða stærð frá 5 þús. upp í 10 þús. tonn. En í sambandi við þetta kemur til greina annað atriði, sem sé það, að þegar búið er að taka þá ákvörðun að hafa þessa verksmiðju eins stóra og þetta frv. gerir ráð fyrir, vaknar spurningin um það, hvort takast megi að fá nægilegt rafmagn frá Soginu til þess að reka svona stóra verksmiðju. Áburðarverksmiðjunefndin er sammála um, að útilokað sé, að nægilegt rafmagn fáist frá Soginu til 10 þús. smálesta verksmiðju, og eru þessir sérfræðingar þeirrar skoðunar, að 7.500 tonna verksmiðja væri það allra stærsta, sem hægt væri að bæta á Sogið, þótt það verði virkjað til fulls. Þeir eru einnig þeirrar skoðunar, að sú virkjun mundi aðeins endast í 10 ár, þar sem rafmagnsnotkun til almennra þarfa og annars iðnaðar vaxi ekki meir en um 12–13 millj. kwst. árlega, þ.e.a.s. álíka mikið og verið hefur hin síðari ár, en í því sambandi er þess að gæta, að eðlileg aukning hefur í rauninni ekki getað átt sér stað sökum rafmagnsskorts. Samkvæmt upplýsingum Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra má telja fullvíst, að ef sami vöxtur verði áfram og verið hefur að meðaltali frá 1922–48, þurfi að virkja allt Sogið, þótt engri áburðarverksmiðju sé til að dreifa, þannig að nóg verði að gera við rafmagn frá Soginu fullvirkjuðu án hennar. Það er þetta, sem ég vildi undirstrika, að um leið og verið er að taka ákvörðun um að byggja stærri verksmiðju en fyrirhugað hefur verið áður, er gert ráð fyrir, að þessari verksmiðju sé ætlað rafmagn frá virkjun, sem ekki mundi geta framleitt nægilegt rafmagn bæði til þeirrar verksmiðju og annarra nota, sem krafizt yrði á sama tíma. Þess vegna virðist hér vera um ósamræmi að ræða. Það gæti verið nokkurt samræmi í þessu, ef um t.d. 2.500 tonna verksmiðju væri að ræða, eins og fyrirhugað var á síðasta þingi. En þegar um 10.000 tonna verksmiðju er að ræða, virðist ekki vera neitt samræmi í að bæta henni á það takmarkaða rafmagn, sem hér er fyrir hendi, og að þeirri niðurstöðu fenginni virðist ekki annað liggja fyrir, svo framarlega sem verksmiðjan á að verða samkeppnisfær,en að byggja fyrir hana sérvirkjun og hafa hana það stóra, að hún geti einnig framleitt fyrir erlendan markað. Notkun köfnunarefnisáburðar fer vaxandi hér; en mun ekki fara svo ört vaxandi, að minnsta kosti ekki um nokkurn tíma, að ekki þurfi að koma einhverju af þeirri framleiðslu á erlendan markað. Hér er um að ræða aðeins eina tegund áburðar, en þótt hinar tegundirnar séu ódýrari, eru þær ekki síður nauðsynlegar. Það væri þess vegna ekki nema eðlilegt, að við framleiddum svo mikið af þessari tegund til útflutnings, að það nægði til þess að greiða aðrar áburðartegundir, sem inn í landið þarf að flytja. En til þess að það geti orðið, þurfum við að vera samkeppnisfærir með framleiðslu okkar á heimsmarkaðinum. Önnur þau rök, sem mæla með þessu, eru þau, að hér er um að ræða stórfellt fyrirtæki, sem krefst sérstaklega lítils vinnuafls, og skiptir það ekki miklu máli, hvort hér er um að ræða hátt kaupgjald eða ekki. Vinnuaflið mundi aldrei taka til sín nema svo lítið brot af kostnaðinum, að þetta ætti að skapa okkur meiri möguleika til þess að verða samkeppnisfærir en flest önnur fyrirtæki.

Annað atriði er það líka, sem mælir með því, að þessi leið verði farin. Hingað til hefur mjög mikið verið um það talað, hvað fossaafl okkar sé mikið ónotað, og það er rétt. Það er viðurkennt, að í fossaafli okkar eigum við auðlindir, sem geti í framtíðinni orðið okkur til mjög mikilla framfara. En hingað til höfum við ekki notfært okkur þessar auðlindir okkar nema að mjög litlu leyti, þ.e. til heimilisnotkunar og smærri iðnaðar, en ekki á neinn hátt til neins verulegs stóriðnaðar. En óhætt er að fullyrða, að til þess að geta notfært fossaafl okkar til verulegrar framleiðslu verðum við að skapa stóriðnað, og eru miklar líkur til, að þetta sé einmitt sú framleiðsla, sem heppilegust er, sökum þess að við vitum ekki, hvort hér eru í jörðu þau efni, sem líkleg væru til annarra nota. Ef fyrirhugað væri að fara þá leið að byggja hér stóra verksmiðju og reisa sérvirkjun fyrir hana, lægi beinast við að hefjast nú handa um að virkja Þjórsá eða einhverja af fossum hennar og þá sérstaklega Urriðafoss, þar sem hann er sá eini foss, sem hefur sérstaklega verið athugaður. Þarf ekki að fara mörgum orðum um þá áætlun, því að hún liggur hér fyrir í nál. minni hl. landbn. Nd.

Áburðarverksmiðjunefndin gerir í áliti sínu ráð fyrir, að 5 þús. tonna verksmiðja kosti 38 millj., en 7.500 tonna verksmiðja kosti 44 millj. Bendir það mjög til þess, að hér sé um að ræða fyrirtæki, sem geti borið síg, og þess vegna hef ég lagt hér til, að sú breyt. verði gerð á frv., að í staðinn fyrir 5–10 þús. tonn komi 30–40 þús. tonn. Það liggur ljóst fyrir, að til þess að koma þessu í framkvæmd þarf lengri tíma og mikið fé. En ég tel ekki minni líkur til þess, að lán fáist erlendis, þó að verksmiðjan verði stór, en ef hún er svo lítil, að hætt er við, að hún beri sig ekki. Í landbn. kom fram sú skoðun hjá hv. þm. N-M., að athugandi væri að semja um þetta mál við þjóð, sem ekki hefði áburðarframleiðslu, en þyrfti áburð, og athuga, hvort ekki væri hægt að fá lán gegn áburði. Ég tel þetta mjög athugandi í sambandi við það, að verksmiðjan verði svo stór, að hægt verði að hafa af henni verulegar útflutningstekjur. Nú er mikið flutt inn af vélum, og það er rétt, en innflutningur véla, er kosta mikið, þarf að byggjast á því, að jafnframt skapist útflutningsverðmæti, og það hefur nokkuð á það skort, að séð væri fyrir því. Það er alkunnugt, hve erfitt er að fá varahluti og jafnvel eldsneyti til véla og bíla. Þó hefur Alþ. samþ. að auka innflutning á þessum tækjum, en hvað þýðir það, ef ekki er hægt að afla nægilegs gjaldeyris til þess að standa undir rekstri þeirra?

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg fleiri orð að svo stöddu. Ég tel, að samþ. eigi þá till., sem ég hef lagt hér fram, svo að af þessu verði meira framtíðargagn.