19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. talaði um, að allar ályktanir mínar væru neikvæðar, og skildist mér á honum, þó að hann segði það ekki, að ég hefði viljað vinna málinu ógagn og brtt. mín stuðlaði að því. Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. ráðh. á það, að það hefur áður verið talið af eintómum óvilja, að ekki hefur verið gengið inn á að samþ. sams konar frv. óbreytt. Ég man eftir því 1944, þegar stjfrv., sem þá lá fyrir, var vísað frá á þeim forsendum, að skortur væri á rafmagni til fyrirtækisins, og hæstv. ráðh. þarf ekki annað, en fletta upp í blaði sínu frá þeim tíma til að sjá, að þeir, sem voru á móti, eru sagðir óvinir landbúnaðarins. En reynslan hefur sýnt, að það fyrirtæki hefði engum orðið til hagsbóta. Og ég vil halda því fram, að eins og nú horfir málum, muni þetta ekki verða að eins miklu gagni og þeir, sem að því standa, vilja vera láta. Það er ekki þar með sagt, að ég vilji láta fella frv., en tel, að það ætti að vera í annarri mynd. Hæstv. atvmrh. sagði, að bezt væri að byrja á köfnunarefni, því að það væri dýrast. Ég er honum sammála í þessu, ef ekki er hægt að hefja alhliða framleiðslu á áburðartegundum, þar sem við getum það án þess að flytja inn hráefni, og rangt að ganga fram hjá slíku stóratriði, þegar ekki er um að ræða vöru, sem flytja á út og aflað getur gjaldeyris aftur, heldur aðeins framleiðsla fyrir íslenzkan landbúnað. Íslenzkir bændur þurfa að fá alhliða áburð, en auðvelt að fá köfnunarefni, sem hefur þann kost, að mikið magn kemst í lítið rúmmál, svo að flutningskostnaður er lítill, en bændur finna, hve slæmt það er að fá ekki nitrophoska eins og fyrir stríð og þurfa nú að dreifa 3 sekkjum í staðinn fyrir 1 þá. En ég er sammála hæstv. ráðh., að sjálfsagt sé að byrja á köfnunarefnisáburði, ef ekki er hægt fyrir okkur að framleiða nitrophoska og aðeins er um innanlandsnotkun að ræða. Hæstv. ráðh. gerði lítið úr röksemdunum fyrir því að hafa verksmiðjuna stærri og sagði, að einhver takmörk væru fyrir því, hve stór verksmiðjan þyrfti að vera til að komast í lágmarksframleiðslukostnað. Þetta er svo sem auðvitað. Þá sagði hann einnig, að mestu munaði á fyrsta stigi, það er líka rétt. En ég fullyrði, að takmarkið er ekki við þá hámarksstærð, sem ákveðin er í frv., heldur langt fyrir ofan það, og vil í því sambandi vitna í erlendan sérfræðing, sem telur, að framleiðslukostnaður muni minnka allt þar til um 200 þús. tonna verksmiðju er að ræða, og takmarkið er þá ekki við 30–40 þús. tonn, heldur miklu ofar. Það þarf ekki annað, en benda á tölur í stjfrv. í fyrra og nú til að sjá þetta. Í frv. í fyrra er gert ráð fyrir, að stofnkostnaður 2.500 tonna verksmiðju verði 20 millj. kr., 3.600 tonna verksmiðju verði 25,7 millj. kr., 5.000 tonna verksmiðju verði 30 millj. kr. og 7.500 tonna verksmiðju verði 39 millj. kr. Og sjáum við á þessu, hve ört munar, að þótt stærðin sé þrefölduð, hækkar kostnaður aðeins um tæpan helming, og sýnir það, að enn er langt frá þessu takmarki. Í þessu frv. er gert ráð fyrir hærri tölum, eða að 5.000 tonna verksmiðja kosti 38 millj. kr., 7.500 tonna verksmiðja kosti 44,4 millj. kr. Og sést hér einnig greinilega, hve kostnaður lækkar mikið með stækkuðum verksmiðjum. Það er því mjög nauðsynlegt að hafa verksmiðjuna sem stærsta til að tryggja, að verð vörunnar verði í hófi, því að stofnkostnaðurinn hefur óhjákvæmilega áhrif á verð framleiðsluvörunnar. Verð á kg. af köfnunarefni verður 1,78 kr. í 5 þús. tonna verksmiðjunni, en 1,41 í 7.500 tonna verksmiðjunni, og sjá allir, að það er geysimunur, hvað verðið lækkar með stærri verksmiðju, og mundi kostnaðurinn enn lækka, ef verksmiðjan yrði stækkuð meira.

Í útreikningi minni hl. n. á þskj. 312 er gert ráð fyrir, að hvert kg. af köfnunarefnisáburði mundi kosta 1,13 kr. í 30 þús. tonna verksmiðju, og eru líkur til, að þar sé fremur of hátt reiknað en hitt. Hæstv. ráðh. sagði, að reynslan frá Noregi sýndi, að nýju verksmiðjurnar séu nú meira mekaniseraðar, en hinar eldri, og þar af leiðandi sé framleiðslukostnaðurinn minni, en það haggar ekki þeirri staðreynd, að stofnkostnaðurinn er hér svo gífurlegur, að slíkt hlýtur að hafa mikil áhrif á verð vörunnar. Hæstv. ráðh. sagðist efast um, að reikningur hv. 8. þm. Reykv. væri áreiðanlegur. Ég skal fúslega viðurkenna, að hann er ekki algerlega öruggur, en það eru engir reikningar, því að áætlanir standast sjaldan og eins mun vera hér sem um önnur fyrirtæki. Hæstv. ráðh. sagði, að ég færi rangt með það, að áburðarverksmiðjun. teldi, að nóg rafmagn væri ekki hægt að fá hjá Soginu í 10 þús. tonna verksmiðju, en þetta er rangt hjá hæstv. ráðh., því að á fundi hjá n. kom fram, að ekki væri hægt að áætla meira rafmagn frá Soginu, en í 7.500 tonna verksmiðju. Einmitt þessi niðurstaða er í samræmi við þær skýrslur, sem fyrir liggja, m.a. álit Steingríms Jónssonar, og sýndi hæstv. ráðh. mér línurit frá rafmagnsstjóra á milli umræðna. Í bréfi, sem Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri skrifaði Jakob Gíslasyni raforkumálastjóra sem svar við fyrirspurnum frá hv. 8. þm. Reykv., kemur í ljós, að úr Soginu fullvirkjuðu fást upp undir 500 millj. kwst. á ári, og segir hæstv. ráðh., að nóg rafmagn fáist þá úr Soginu fyrir 10 þúsund tonna áburðarverksmiðju til 1964. Í áliti Steingríms Jónssonar, sem prentað er upp á þskj. 312, er þetta sundurliðað þannig: 139 millj. kwst. fást úr Efra-Sogi fullvirkjuðu á ári, 110 millj. kwst. úr Ljósafossi, og 238 millj. kwst. úr Neðra- Sogi, eða samtals 487 millj. kwst., og er það þá 13 milljónum kwst. minna rafmagn, en hæstv. ráðh. nefndi. Hins vegar er hér líka tafla í áliti rafmagnsstjóra um áætlaða notkun til almennra þarfa frá 1949 til 1960, og sést skýrt á þeirri töflu, að 1952 þarf 163 millj. kwst. til þeirra þarfa og 220 millj. kwst. til 10 þúsund tonna verksmiðju, eða samtals 383 millj. kwst., en það ár áætlar rafmagnsstjóri, að ekki sé fáanlegt meira úr Soginu, en 348 millj. kwst., og reiknar ekki með því, að raforkan aukist 2 næstu árin, þótt þörfin stígi upp í 409 millj. kwst. á sama tíma að hans áliti. Hins vegar lætur hann töfluna ekki ná nema til 1960, og þá áætlar hann þörf og raforku jafna, eða 487 millj. kwst., og þá er Sogið fullvirkjað og ekkert rafmagn fyrir hendi til áframhaldandi aukningar rafmagnsnotkunar, með því móti að verksmiðjan fái það, sem áætlað er, að hún þurfi, 220 millj. kwst., ef önnur virkjun er ekki komin til sögunnar, sem ekki er útlit fyrir, ef ekki á strax að fara að vinna að því. Hér er því lýðum ljóst, að teflt er á tæpasta vað, ekki sízt með tilliti til þess, að í áætlun eða töflu rafmagnsstjóra, sem ég hef verið að vitna hér í, er ekki reiknað með meiri aukningu til almennra þarfa til 1960, en verið hefur á undanförnum áratugum. eða síðan 1922. Þessir útreikningar munu sem sé leiða í ljós, að nóg rafmagn fengist ekki frá Soginu til 1960 miðað við 7.500 tonna verksmiðju og Sogið fullvirkjað þá, hvað þá miðað við 10 þús. tonna verksmiðju.

Þá minntist hæstv. ráð.h. á, að rafmagnsstjóri hefði bent á, að útþensla rafmagnskerfisins í Reykjavík hefði verið öll á liðnu tímabili og við bótarþörfin yrði miklu minni, svo að nýtt rafmagn gæti gengið til nýrra hluta. Hv. þm. Barð. benti réttilega á, að rafmagnsnotkun hefði alltaf reynzt meiri og miklu meiri, en gert hefði verið ráð fyrir, að hún yrði, og er ég hv. þm. innilega sammála um það. Það er alltaf verið að þenja út rafmagnsveitur frá Soginu, og því verður haldið áfram, auk þess bætist alltaf við ýmiss konar nýr iðnaður. Með fyrirkomulagi því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., mun því alveg vafalaust fara svo, eins og raunar álit rafmagnsstjóra styður glögglega, að áburðarverksmiðjan hindri aðra og nauðsynlega rafmagnsnotkun, ef verksmiðjan fær það rafmagn, sem hún þarf að fá, og þegar rafmagnsskortur er orðinn, verður boðið hærra verð í rafmagnið, en framleiðsla verksmiðjunnar getur staðið undir að greiða, og það verður tæplega staðið á móti því, að rafmagnsverðið hækki, þegar svo er komið, og verður þá annaðhvort að draga úr afköstum verksmiðjunnar eða lækka verð áburðarins meira, en raunverulega er fært, og þá er jafnframt hindruð önnur rafmagnsnotkun. Það er afar hætt við, að áburðarverksmiðjan verði þá út undan að einhverju leyti.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að lesa hér upp orð rafmagnsstjóra sjálfs, sem prentuð eru á þskj. 312, sem svar við 5. fyrirspurn Sigurðar Guðnasonar um það, hvort markaður verði fyrir allt rafmagnið frá nýju Sogsstöðinni, þegar hún er tilbúin, án þess að áburðarverksmiðjan taki neitt af því. Rafmagnsstjóri svarar með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Vöxtur raforkunotkunar í Reykjavík var frá fyrsta rekstrarári, 1922, fram til 1936, meðan Elliðaárstöðin var ein, 7,5% á ári að meðaltali, sem hvert ár var hærra, en næsta ár á undan. Frá 1937, eftir að Sogsvirkjunin tók til starfa, til ársloka 1948 hefur vöxturinn verið að meðaltali nær 25% á ári. Meðalvöxtur frá 1922 til 1948 hefur verið 14% til jafnaðar, en það svarar til nærri 4-földunar á hverjum áratug. Ef því sami vöxtur verður áfram eins og meðaltalið hefur verið 1922–48, er þörf á að allt Sogið verði virkjað á einum áratug, enda þótt ekki komi til áburðarverksmiðja. Má því svara spurningunni: tvímælalaust já.“

Ég held því fram, að meðalaukningin verði meiri en 14%. Meðan Elliðaárstöðin var ein, varð aukningin ekki að vísu nema 7,5%, en það var aðeins af því, að það vantaði bókstaflega rafmagn, svo að ekki er hægt að miða við það, eins og rafmagnsstjóri gerir þó, þegar hann er að finna út aukninguna að meðaltali síðan 1922. Þegar Sogsvirkjunin kom til sögunnar, varð aukningin líka 25% á ári að meðaltali, og sýnir það, hve aukningin eykst hröðum fetum, þegar nóg rafmagn er fyrir hendi. Það er því ekki líklegt, að aukningin verði ekki nema 14% á næsta áratug, þegar nýtt rafmagn fæst með stækkun Sogsins, heldur væri miklu meiri ástæða til að reikna með 25% aukningu, en reiknað er með 14% í töflu rafmagnsstjóra, sem ég vitnaði í áðan. Toppstöðin við Elliðaár er 7.500 kw., og því var haldið fram, þegar verið var að byggja hana, að hún mundi ekki þurfa að starfa nema lítinn hluta dagsins, en svo er hún bara alltaf í gangi og veitir ekki af. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verður í móti mælt, hve feginn sem maður vildi, og ég vil segja, að þetta séu rök í jafnmikilvægu máli og hér er til umræðu. Með 7.500 tonna verksmiðju í sambandi við Sogið er teflt á allra tæpasta vað, en 10 þús. tonna verksmiðjan er tómt mál að tala um og hin mesta blekking. Meðan ekki var hugsað hærra en 2.500 tonna verksmiðja, var eitthvert samræmi í því að bæta henni á Sogið, en það er ekki til samræmi í því að ætla Soginu að fullnægja rafmagnsþörf 10 þús. tonna verksmiðju. Hitt er svo annað mál, að ég er sammála þeim mönnum, sem skilja, að það hefði ekki náð nokkurri átt að byggja 2.500 tonna áburðarverksmiðju, því að framleiðsla frá henni hefði aldrei orðið samkeppnisfær.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á tillögur um stórvirkjun og að með þeim væri stefnt æði hátt með stærð verksmiðjunnar og að slíkt fyrirtæki yrði aldrei til fyrr, en eftir 10 ár. Ég býst við, að það sé rétt. En ég bendi á, að mér heyrist það á hljóðinu í hæstv. atvmrh., að þessi litla verksmiðja hér verði ekki til fyrr en 1953 – 55, og þá virðist mér betra að leggja í hitt, þótt það kunni að taka 10 ár. Nú mætti hins vegar segja sem svo, að úr því að litlir möguleikar væru á að koma litlu verksmiðjunni upp, þá væri enn fjarstæðara að ætla sér að virkja Urriðafoss og byggja stórt. En í sambandi við það vil ég minna á það erlenda fé, sem ríkisstj. og Alþ. eru búin að samþykkja að veita viðtöku og búið er að áætla Íslandi stórar upphæðir af. Snemma á þessu þingi fóru hér fram miklar umræður um þetta, og var ríkisstj. með risaáætlun á prjónunum viðvíkjandi notkun þessa erlenda fjár, og var gert ráð fyrir 38 milljón dollara framlagi til Íslands á næstu árum. Nú mun nokkuð af þessu fé þegar hafa verið greitt, þótt engar skýrslur hafi verið birtar um, hvernig það hefur verið notað. Ef það er ætlunin að binda okkur þann bagga að taka við þessu fé, þá eigum við sízt að nota það eins og eyðslueyri til að lifa af. Þau lán verða nógu erfið, þótt þau verði ekki notuð sem eyðslueyrir. Það verður að nota þau til að byggja upp framleiðslu, sem getur staðið undir lánunum og meira til. Ef á að fara út í það á annað borð að þiggja Marshallpeninga, sem raunar er nú ákveðið, þá virðist mér einna líklegast að nota þau lán til að koma upp áburðarverksmiðju og framleiða áburð í stórum stíl. Hæstv. ráðh. minntist einnig á annað, aluminium- og magniumframleiðslu. Ég skal ekkert fullyrða um það, þetta hefur ekki verið rannsakað, en því verður ekki neitað, að til aluminiumframleiðslu þarf að flytja inn töluvert af hráefni, sem gerir okkur ekki eins samkeppnisfæra á því sviði og ella væri. (Atvmrh.: Þau efni eru flutt heimshafanna á milli.) Ég neita ekki, að þetta geti komið til mála.

Að síðustu vildi ég minnast á það atriði, hvernig yrði með verðið á áburðinum frá litlu verksmiðjunni, þar sem gera má ráð fyrir, að vegna rafmagnsskorts geti verksmiðjan ekki alltaf unnið með fullum afköstum og áburðurinn verði því dýrari, en ella yrði, og dýrari en áburður á erlendum markaði. Er það þá meiningin, að áburðurinn verði seldur hér til bænda á framleiðsluverði, þótt hægt sé að fá sömu vöru ódýrari frá útlöndum? Ég man, að ég varpaði þessari spurningu fram við nefndina, og taldi hún, að selja yrði áburðinn innanlands á framleiðsluverði, hversu hátt sem það yrði. Þetta er mjög stórt atriði, því að það eru vandræði að selja áburð á hærra verði innanlands, en hægt er að fá hann frá útlöndum. Það kemur áreiðanlega til kasta Alþ. á sínum tíma að greiða fram úr því, það er ég sannfærður um.

Ég man nú ekki eftir að það séu beint fleiri atriði, sem ég þarf að svara hæstv. ráðh. En að endingu vil ég minnast á þá glósu, að brtt. mín jarði þetta mál. Það er svo fjarri því. Ég tel einmitt, að Marshalllánin eigi að nota til að koma upp þessari verksmiðju, því að ella getur farið svo, að ekki verði svo létt að standa undir þeim lánum og greiða þau.