23.04.1949
Efri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

16. mál, áburðarverksmiðja

Gísli Jónsson:

Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir hans margvíslegu upplýsingar um þetta mál. Mér skilst, að eftir því, sem málið liggur fyrir nú, sé það raunverulegt, að hin stóra verksmiðja, 30 þús. tonna eða meira, mundi framleiða miklu ódýrari áburð, en á því séu svo miklir erfiðleikar, að þess sé ekki að vænta, að slíku risavirki verði komið upp á svo skömmum tíma sem ráðh. óskar eftir til þess að framleiða fyrir íslenzka bændur. Mér skilst einnig, að það sé hans fulla skoðun og þeirra manna, sem hann hefur fengið til þess að rannsaka þetta mál, að sú verksmiðja, sem hér um ræðir, yrði samkeppnisfær við jafnstórar verksmiðjur í Evrópu og í þeirri verksmiðju væri hægt að framleiða áburð með hæfilegu verði og jafnvel lægra verði, en nú er í þessum sömu löndum. Ég er feginn því að hafa fengið þessar upplýsingar. Þótt ég hefði mjög viljað fylgja stærri verksmiðju, get ég ekki ásakað ríkisstj., sé það hennar skoðun að fara fremur inn á þetta smærra iðjuver, en hin stóru iðjuver, sem hún telur, að taka muni 10 ár eða lengri tíma að koma upp. Og engin ríkisstj. verður ásökuð, þó að tæknileg atriði breytist þannig í heiminum, að annað land geti síðar meir byggt hentugri verksmiðjur til þess að framleiða ódýrari áburð. Mér fannst einnig svar hæstv. ráðh. í sambandi við verðið vera fullkomlega rétt, og er rétt, að það komi hér fram, því að ég teldi það óverjandi, ef á sama tíma væri gengið út frá því, að ríkissjóður yrði að greiða mismuninn á framleiðsluverðinu og því verði, sem hægt væri að fá sömu vöru fyrir innflutta, ef verksmiðjan gæti ekki borið sig. Sá mismunur yrði að greiðast af þeim aðilum, sem nota vöruna.

Að því er snertir þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf mér um límvatnið, er það allt annað, sem ég hef fengið frá þessum sömu mönnum, sem hafa með þetta mál að gera. Mér var ókunnugt um það fyrir tveimur dögum, að þetta mál hefði nokkuð verið rannsakað. Má vera, að það hafi verið rannsakað af öðrum mönnum. (Atvmrh.: Þórður Þorbjarnarson hefur rannsakað málið.) Ég veit allt, sem Þórður Þorbjarnarson veit um málið, og ég er kunnugur öllu því, sem ráðh. sagði um málið, en það er engin rannsókn á málinu, og mér þykir leiðinlegt, að ráðh. hefur ekki séð sér fært að láta iðnaðardeild háskólans rannsaka þetta mál alveg sérstaklega. Ég er viss um, af þeirri þekkingu, sem ég hef á þessum málum, að það er rétt, að það getur aldrei komið fyrir þessa verksmiðju, að sá áburður, sem hægt væri að vinna úr límvatni, yrði nógu mikill fyrir allt landið, en það er svo merkilegt atriði, að mikið mætti bæta úr brýnustu þörfunum og á betri hátt, en Þórður Þorbjarnarson hefur gefið ráðh. upplýsingar um, því að það hefur hann allt miðað við fóður, en alls ekki við áburð, svo að ég vænti þess, að ráðh. hafi um það samráð við sína efnafræðinga og þeir geri sínar sérstöku ráðstafanir.

Og að lokum örfá orð til hv. þm. Dal. (ÞÞ). Hann hefði átt að beina þessari ræðu sinni til hæstv. ráðh., því að það var hann, sem gagnrýndi gerðir n., en ekki ég. Ég vissi, að hv. þm. Dal. var valinn dómari í landinu, en hélt ekki, án þess að ég sé að ásaka hann eða efast um gáfur hans, að það væri hlutverk hans á Alþingi að dæma um gáfur manna yfirleitt. Að öðru leyti get ég um þetta vísað til úrskurðar hæstv. forseta, því að meiri rassskell hef ég ekki heyrt en þann, sem hann gaf hv. þm.