29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Örfá orð úr af ræðu hæstv. landbrh. Ég vil byrja á þeirri setningu, sem hann sagði síðast, að hann vildi ekki hrinda frá þessu fyrirtæki hugsanlegri von um 10 millj. kr. framlag, sem hann taldi, að mér skildist, að ráðið gæti úrslitum um það, hvort fyrirtækið kæmist upp eða ekki. Í raun og veru voru röksemdir hans byggðar mjög á því, að vonir gætu verið um þetta framlag. En í till. sjálfri er í raun og veru ekki gert ráð fyrir þessu framlagi nema úr ríkissjóði að undanskildu þriggja millj. kr. framlagi, því þó að gert sé ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi sem hlutafé, þá á ríkissjóður að leggja fram 7 millj. kr. af þessu fé. Það getur verið, að svo háir vextir, eins og hér er gert ráð fyrir, dragi nokkuð prívatkapítal í þetta fyrirtæki, og hefði þetta verið haft eins og til var tekið í brtt. hv. 1. þm. Reykv., hefði kannske dregizt meira prívatkapítal í það. En mér virðast litlar líkur vera til þess, að þetta geti orðið meira, en þrjár millj. kr. Og ég sé ekki, að fyrirtækið verði stórum öruggara með að komast á fót, þó að það væru útvegaðar þrjár millj. kr. í stofnfé á þennan hátt. Ríkið mundi koma fyrirtækinu upp nokkurn veginn jafnt, hvort sem það ætti að sjá um þessar 41 millj. kr. til þess eða 44 millj. kr. Mér virðast þetta því vægast sagt mjög veik rök hjá hæstv. landbrh.

Þá taldi hann, að ég hefði gert of mikið úr því, að þeim, sem legðu prívatkapítalið fram, væri gefið of mikið vald um stjórn þessa fyrirtækis, þar sem það á að tilnefna tvo menn af fimm í stjórn þess, þó að það hefði 2/5 af hlutafénu, en ríkið tilnefndi 3/5 af stjórninni og hefði 3/5 af hlutafénu. Hann taldi þetta eðlileg hlutföll, en gerði lítið úr því, að ríkið ábyrgðist hinar 34 millj. kr., sem auk þessara 10 millj. þarf til stofnkostnaðar fyrirtækisins. Og hann talaði um, að ríkið ábyrgðist lán til annarra hlutafélaga. Ég held, að það sé ákaflega lítið um það, að ríkið standi í ábyrgðum fyrir hlutafélög. Ég man að vísu eftir, að á síðasta þingi var samþ. ábyrgð ríkisins fyrir láni til h.f. Skipanaust, (BÓ: Og fyrir Slippfélagið.) vegna þess að þarna var um mjög mikið nauðsynjafyrirtæki að ræða. Ég hygg, að þetta sé það eina í þessu efni, þó að ég þori ekki að fullyrða það. Þess vegna tel ég það röng rök að benda á hlutafélagasamtökin til þess að réttlæta þetta. Hitt er annað mál, að ríkið stendur í ábyrgðum fyrir lán til bæjar- og sveitarfélaga til ákveðinna framkvæmda, eins og t.d. samkv. hafnarlögum og slíku. Og það er óneitanlega nokkuð annað. Hæstv. atvmrh. vildi einnig gera mikið úr því, að hlutaféð, sem hér væri um að ræða, væri fyrsta áhættufé, sem tapaðist, ef fyrirtækið yrði fyrir tjóni, svo að það tapaði fé, og það var að vísu alveg rétt. En ég bendi á, að fyllilega er ráð fyrir því gert, og hann gerir einnig ráð fyrir því, að ríkið mundi eiga í raun og veru 7/10 hluta af þessu hlutafé, sem fyrst tapast, svo að það hnígur allt að því, að fyrir þessi fríðindi, sem prívatkapítalið fær, þá þurfi það ekki að leggja nema 3 millj. kr. af 10 millj. kr., sem hlutafé, til þess að þetta fyrirtæki komist á laggirnar.

Í samræmi við þetta leyfum við okkur, ég og hv. 6. landsk. þm., að bera fram brtt. við þessa brtt. á þskj. 596 um, að í stað „Sameinað Alþingi kýs þrjá“ komi: Sameinað Alþingi kýs fjóra. Og í öðru lagi: Í stað „Hluthafar, aðrir en ríkissjóður, kjósa tvo stjórnarnefndarmenn“ komi: Hluthafar, aðrir en ríkissjóður, kjósa einn stjórnarnefndarmann. — Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.