29.04.1949
Efri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ef ég leitaði, þá býst ég við, að ég mundi finna hlutafélag, sem ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir. Ég man eftir þremur auk þeirra, sem nefnd hafa verið. Annars ætla ég ekki að lengja umr. með því að munnhöggvast við hv. 8. landsk., þegar skilningurinn er svo bágborinn, að hann sér ekki, að fyrirtækið er betur sett, ef það fær 10 millj. kr., heldur en ef það á að vera komið undir því fé, sem veitt kann að verða til þess í fjárl. Hér er því þó slegið föstu, að ríkissjóður eigi að afhenda 6 millj. kr. í viðbót við þær 4 millj., sem einstaklingar eða félög legðu fram. Ef hann er svo skyni skroppinn, að hann skilur ekki, að fyrirtækið er betur sett með þessu en peningum, sem kannske verða aldrei veittir, eða lánum, þá þýðir lítið að ræða þetta við hann. Sannleikurinn er sá, að hann heldur áfram að þvælast fyrir málinu án frambærilegra raka.